Hvernig rættust kosningaspárnar árin 2016 og 2017?
Kjarninn setur nú fram kosningaspá fyrir alþingiskosningar í samstarfi við Baldur Héðinsson í þriðja sinn, en spáin gefur fyrirliggjandi könnunum vægi samkvæmt reikniformúlu Baldurs. Hvernig hefur spáin gengið eftir í fyrri tvö skiptin? Stígum inn í tímavél og rifjum það upp.
Fyrir síðustu tvennar kosningar til Alþingis, sem fóru fram árin 2016 og 2017, í kjölfar þess að tvær ríkisstjórnir í röð náðu ekki að lifa heilt kjörtímabil, gátu lesendur Kjarnans reglulega glöggvað sig á kosningaspám Baldurs Héðinssonar fyrir kosningar, rétt eins og raunin hefur verið nú.
Fjöldi skoðanakannana hefur verið framkvæmdur núna fyrir kosningar, en þær eru úti um allt og erfitt að henda reiður á þróuninni frá degi til dags. Kosningaspálíkan Baldurs miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru þannig teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninganna.
En hvernig gekk líkani Baldurs að spá til um það sem svo kom upp úr kjörkössunum í kosningum fyrri ára? Kjarninn ákvað til gamans að taka það saman, núna þegar síðasta kosningaspáin fyrir kosningarnar ársins 2021 er farin í loftið.
Alþingiskosningarnar 2017
Fimm skoðanakannanir vigtuðu inn í kosningaspálíkan Baldurs er kosið var undir lok októbermánaðar 2017, nánar tiltekið á 28. degi mánaðarins.
- Þjóðarpúls Gallup - 23. – 27. okt - vægi 27.5%
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið - 22. – 25. okt- vægi 20.9%
- Skoðanakönnun MMR 26. – 27. okt vægi 20.4%
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins Stöðvar 2 og Vísis - 23. – 24. okt - vægi 18.1%
- Skoðanakönnun Zenter Rannsókna - 23. – 27. okt - vægi 13.1%
Meðalfrávik þessara fimm könnunaraðila frá kosningaúrslitunum var á bilinu 1,31 prósentustig til 1,83 prósentustig og var Þjóðarpúls Gallup næst úrslitum kosninga, skoðanakönnun MMR fylgdi svo í kjölfarið, þá skoðanakönnun Zenter (sem nú heitir Prósent), næst skoðanakönnun Fréttablaðsins Stöðvar 2 og Vísis og síðan var Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar fjærst niðurstöðum kosninganna.
Meðalfrávik flokkanna í kosningaspá Baldurs og Kjarnans var 1,47 prósentustig.
Flokkarnir sem hækkuðu frá lokaspánni 2017
Sjálfstæðisflokkurinn – úr 24,2 upp í 25,3
Vikuna fyrir kosningar jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins statt og stöðugt með hverri kosningaspá sem keyrð var og fór úr 21,7 prósent þann 20. október og upp í 24,2 prósent í lokaspá kosningarspárinnar, 27. október. Degi síðar var síðan kosið og niðurstaðan varð sú að Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 1,1 prósentustigi frá því sem hafði verið niðurstaðan í síðustu kosningaspánni.
Miðflokkurinn – úr 10,0 upp í 10,9
Miðflokkurinn, sem var að bjóða fram í fyrsta skipti, bætti nokkuð við sig á lokametrum kosningabaráttunnar og mældist með 10 prósent fylgi í síðustu kosningaspánni. Það voru svo 10,9 prósent sem komu upp úr hattinum, sem er mesta fylgi sem nýtt framboð hefur nokkru sinni fengið.
Framsókn – úr 8,2 upp í 10,7
Framsóknarflokkurinn mældist með lítið fylgi í aðdraganda kosninganna árið 2017 og virtist sem stofnun Miðflokksins væri að valda honum verulegum vandræðum. En, á síðustu metrunum reis fylgi flokksins og hann mældist með 8,2 prósent fylgi í síðustu kosningaspánni fyrir kosningar, eftir að hafa ekki mælst yfir 8 prósentum í kosningaspánni frá því hún var keyrð þann 28. september. Flokkurinn fékk síðan 10,7 prósent atkvæða eða 2,5 prósentustigum meira en mælst hafði í síðustu kosningaspánni.
Flokkur fólksins – úr 4,3 upp í 6,9
Degi fyrir kjördag var fátt sem benti til þess að flokkur Ingu Sæland væri á leiðinni inn á þing. Annað kom hinsvegar á daginn. Það þarf þó ekki að vera að skoðanakannanir og þar með kosningaspáin hafi endilega verið að vanmeta Flokk fólksins þá, heldur er það nokkuð útbreidd söguskoðun að frammistaða Ingu í leiðtogakappræðum kvöldið fyrir kjördag hafi einfaldlega hrifið marga til fylgis við flokkinn eftir að búið var að framkvæma allar skoðanakannanir. Flokkurinn fékk 2,6 prósentustigum meira í kosningunum en spáð var í síðustu kosningaspánni.
Píratar fengu 9,2 prósent eins og spáð var
Kosningaspáin geirnegldi fylgi Pírata í rúmum 9 prósentum dagana fyrir kosningar og þegar atkvæði höfðu verið talin varð niðurstaðan sú að kosningaspáin var með nákvæmlega sömu prósentutölu á Pírötum og kom upp úr kjörkössunum. Bingó í hús.
Flokkarnir sem lækkuðu frá lokaspánni 2017
VG – úr 19,0 í 16,9
Vinstri græn döluðu verulega á lokametrum kosningabaráttunnar árið 2017, eftir að hafa mælst sem stærsti flokkur landsins einungis rúmri viku fyrir kosningar og hæst farið í 27,6 prósent fylgi þann 10. október, er 18 dagar voru til kosninga. Í síðustu kosningaspánni mældist flokkurinn með 19 prósenta fylgi en fékk síðan 16,9 prósent atkvæða, sem er lækkun um 2,1 prósent.
Samfylkingin – úr 14,8 í 12,1
Samfylkingin var á nokkru flugi síðustu dagana fyrir kosningarnar samkvæmt skoðanakönnunum og hafði farið úr því að mælast með 9,5 prósent í kosningaspánni 9. október upp í að mælast með 14,8 prósent í lokaspánni daginn fyrir kjördag. Niðurstaðan varð 2,7 prósentustigum lakari, en Samfylkingin fékk 12,1 prósent atkvæða.
Viðreisn – úr 7,6 í 6,7
Fyrir síðustu kosningar virtist sem bæði Viðreisn og Björt framtíð ætla að þurrkast út af þingi eftir að stuttu stjórnarsamstarfi þeirra við Sjálfstæðisflokkinn lauk. Það reyndist þó ekki verða hlutskipti Viðreisnar, þrátt fyrir að kosningaspá sem keyrð var þann 17. október hafi mælt flokkinn með 4,1 prósent fylgi. Fylgið reis í könnunum dagana þar á eftir og mældist 7,6 prósent í lokaspánni. Niðurstaðan varð svo 0,9 prósentustigum lakari.
Björt framtíð – úr 1,6 í 1,2
Í fyrstu kosningaspánni sem keyrð var eftir að ríkisstjórnin féll haustið 2008 var Björt framtíð að mælast með tæplega 5 prósent fylgi. Svo hallaði heldur betur undan fæti og flokkurinn þurrkaðist að endingu út af þingi. Í síðustu kosningaspánni fyrir kjördag var fylgið í 1,6 prósenti – en svo komu bara 1,2 prósent upp úr kjörkössunum, eða 0,4 prósentustigum lakari niðurstaða.
Alþingiskosningarnar 2016
Alþingiskosningarnar árið 2016 fóru fram í kjölfar þess að kosningum var flýtt vegna uppljóstrana í Panama-skjölunum og ákalls frá almenningi um breytingar við stjórn landsins. Kosið var þann 29. október.
Árið 2016 vigtuðu eftirfarandi skoðanakannanir vegnar inn í lokaspá kosningaspárinnar:
- Þjóðarpúls Gallup 24. – 28. okt - vægi 28.3%
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið 20. – 27. okt vægi 27.0%
- Vegið meðaltal skoðanakannana MMR 19. – 26. og 26. – 28. okt - vægi 24.4%
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins Stöðvar 2 og Vísis 25. – 26. okt - 20.3%
Meðalfrávik könnunaraðila, ef skoðuð voru sjö stærstu framboð landsins, voru á bilinu 1,23 prósentustig til 2,4 prósentustig og munaði þar mestu um að flestar skoðanakannanir vanmátu Sjálfstæðisflokkinn allnokkuð en ofmátu hins vegar Pírata.
Skoðanakönnun Fréttablaðsins Stöðvar 2 og Vísis var næst úrslitum kosninganna, Þjóðarpúls Gallup fylgdi svo í kjölfarið, þá MMR og Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar rak lestina og var heilt yfir fjærst niðurstöðum kosninganna.
Meðalfrávikið í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar var 1,8 prósentustig ef horft var til stærstu sjö framboðanna, þeirra sem fengu nægilegt fylgi til þess að komast inn á þing.
Flokkarnir sem hækkuðu frá lokaspánni 2016:
Sjálfstæðisflokkurinn úr 24,9 í 29,0
Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið að mælast á bilinu 22-23 prósent á vikunum tveimur fram að kosningum en bætti síðan heldur við sig í lokakosningaspánni. Svo bættust rúm fjögur prósent og flokkurinn endaði með 29 prósent atkvæða.
Framsókn – úr 10 í 11,5
Í kosningabaráttunni árið 2016 sigldi Framsókn nokkuð lygnan sjó í skoðanakönnunum og reis hæst er kosningaspá var keyrð þann 28. september, mánuði fyrir kosningar, í 11,2 prósentum. Í lokaspánni mældist fylgið 10 prósent en 11,5 prósent urðu niðurstaðan.
Viðreisn – úr 9,9 í 10,5
Viðreisn var að bjóða fram í fyrsta sinn árið 2016 og var ítrekað að mælast yfir 10 prósentum í kosningaspám sem voru keyrðar í aðdraganda kosninganna, hæst í 11,7 prósentum tæpum mánuði fyrir kosningar. Í lokaspánni var fylgið 9,9 prósent en flokkurinn hlaut svo 10,5 prósent atkvæða.
Björt framtíð úr – 6,9 í 7,2
Björt framtíð, sem fyrst skaust inn á þing árið 2013 með 8,2 prósent atkvæða, virtist ætla að þurrkast út árið 2016. Þegar nákvæmlega mánuður var til kosninga var flokkurinn að mælast með 3,9 prósent fylgi í kosningaspánni en fylgið hresstist síðan verulega og reis hæst í 7,8 prósentum um miðjan október. Svo dalaði fylgið á ný og í lokaspánni var það í 6,9 prósentum. Niðurstaðan var síðan ögn betri.
Flokkur fólksins – úr 2,9 í 3,5
Flokkur fólksins var að bjóða fram í fyrsta sinn árið 2016 Flokkurinn mældist aldrei inni í könnunum í aðdraganda kosninga og endaði á að fá 3,5 prósent atkvæða.
Flokkarnir sem lækkuðu frá lokaspánni 2016
Vinstri græn fóru úr 16,5 prósentum í 15,9
Vinstri græn sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á kosningabaráttuna árið 2016, en mánuði fyrir kosningar var fylgið í tæpum 13 prósentum samkvæmt kosningaspánni. Hæst fór mælt fylgi í 17 prósent rúmri viku fyrir kosningarnar, en flokkurinn fékk síðan tæp 16 prósent.
Píratar fóru úr 19,4 prósentum í 14,5
Píratar flugu með himinskautum í skoðanakönnunum í upphafi árs 2016 og mældust með 36,7 prósent fylgi í kosningaspánni í byrjun aprílmánaðar. Svo fór fylgi flokksins að dala og var komið undir 30 prósent undir lok apríl, undir 25 prósent í lok ágúst og svo fór það undir 20 prósent þegar innan við tvær vikur voru til kosninga. Í lokaspá kosningaspárinnar var fylgið mælt 19,4 prósent, en flokkurinn endaði svo á að fá 14,5 prósent atkvæða.
Samfylkingin fór úr 6,5 í 5,7
Í upphafi ársins 2016 mældist Samfylkingin með 10,4 prósenta fylgi í kosningaspánni. Það átti eftir að verða besta mæling flokksins á árinu, því fylgið dalaði statt og stöðugt allt fram til kosninga. Slakasta niðurstaðan sem flokkurinn fékk í kosningaspá Baldurs var daginn fyrir kosningar og niðurstaðan varð enn verri.
Dögun fór úr 1,9 prósenti í 1,7
Framboð Dögunar mældist með lítið fylgi í kosningaspánni og fékk síðan lítið fylgi í kosningunum, eða innan við tvö prósent.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars