Bill Cosby hélt tveimur fingrum á lofti til marks um sigur er hann gekk út úr fangelsinu í Montgomery-sýslu í Pennsylvaníu í gær. Hann var orðinn frjáls maður eftir að hafa verið bak við lás og slá í tvö ár. Cosby, þekktastur fyrir að leika Fyrirmyndarföðurinn, stóð hljóður við hlið lögmanna sinna á blaðamannafundi skömmu síðar. „Honum finnst hann frjáls,“ sagði einn lögmannanna og hinn 83 ára gamli Cospy birti skömmu síðar gamla mynd af sér á Twitter með krepptan hnefa til himins.
„Þetta er hneyksli,“ sagði Victoria Valentino í kjölfarið. „Ég er með hnút í maganum.“
Valentino er ein þeirra kvenna sem sakað hafa Cosby um kynferðisofbeldi. Fyrir þrjú slík brot var hann dæmdur í þriggja til tíu ára fangelsi árið 2018. Brotin voru alvarleg. Hann byrlaði konu ólyfjan og misnotaði kynferðislega.
Fjölmargir taka undir með Valentino og undrast að maður sem kviðdómur taldi hafið yfir allan vafa að væri sekur um kynferðisglæpi sé frjáls ferða sinna.
Fjórir á móti þremur
Frelsið fékk Cosby í kjölfar þess að hæstiréttur Pennsylvaníu ómerkti dóm yfir honum af lægra dómstigi. Í hæstarétti ríkisins sitja sjö dómarar og meirihluti þeirra, fjórir, vildu ómerkja dóminn en þrír vildu að hann stæði.
Ómerkingin hefur hins vegar ekkert með þau lög að gera sem Cosby braut með athæfi sínu enda ekki um þau fjallað í niðurstöðu meirihluta hæstaréttar. Bill Cosby getur um frjálst höfuð strokið vegna lagatæknilegs atriðis. Vegna þess að fyrir mörgum árum gaf saksóknari í Montgomery-sýslu það út að hann ætlaði ekki að ákæra Cosby. Túlkun nýs saksóknara var hins vegar sú að ákvörðunin ætti ekki að standa til allrar eilífðar. Því er hæstiréttur ósammála og því er fyrirmyndarfaðirinn laus úr fangelsi.
Árið 2004 kærði Andrea Constand Cosby fyrir að byrla sér ólyfjan og brjóta gegn sér kynferðislega. Málið fór til rannsóknar hjá saksóknara Montgomery-sýslu á þeim tíma, Bruce Castor. Hann taldi málið hins vegar ólíklegt til sakfellingar, m.a. þar sem Constand beið í ár með að að kæra og var áfram í sambandi við Cosby eftir hið meinta ofbeldi. Hann ákvað að gefa ekki út ákæru en sú ákvörðun féll ekki í góðan jarðveg. Þarna var óþekkt kona að saka heimsfrægan og valdamikinn karl um ofbeldisverk. Óréttlætið yrði vart mikið meira.
Til að reyna að lægja öldurnar gaf Castor út fréttatilkynningu sem í stóð að embættið myndi ekki ákæra Cosby en að sú ákvörðun myndi hins vegar opna leiðir til að höfða einkamál á hendur honum. Enginn skriflegur samningur um friðhelgi var gerður milli Castors og Cosby en Castor, sem í dag er nýjasti lögmaður Donalds Trumps, lét þá skoðun sína í ljós er leikarinn var handtekinn að niðurstaða hans um að ákæra hann ekki ætti enn við. Eftirmaður hans í starfi væri bundinn af þeirri niðurstöðu. „Í mínum huga átti aldrei að ákæra Cosby, aldrei,“ ítrekaði saksóknarinn fyrrverandi í vitnisburði sínum í réttarhöldunum yfir leikaranum. „Mín trú var sú að ég hefði vald til að gefa slíkt út.“
Eftirmaður Castors, Kevin Steele, taldi yfirlýsingar Castors hins vegar eins og fyrr segir ekki duga inn í eilífðina og aðeins örfáum dögum áður en þá meint brot Cosbys gegn Constand fyrndust handtók hann leikarann, m.a. á grunni framburðar hans í einkamálinu sem Constand höfðaði mörgum árum fyrr. Aðgangur að þeim gögnum hafði þá nýlega fengist opnaður. Í vitnisburði Cosbys sagðist hann hafa „boðið“ konum sem hann vildi hafa kynmök við, deyfilyf.
Og Steele lét vaða.
Niðurstaða meirihluta hæstaréttar Pennsylvaníu-ríkis er hins vegar sú að Steele hafi verið skylt að standa við ákvörðun fyrirrennara síns. Í niðurstöðunni er handtaka Cosbys einnig gagnrýnd og sögð „lítilsvirðing“ við grunngildi réttlætisins, sérstaklega í ljósi þess að hún endaði með ákæru sem hafði verið vísað frá fyrir meira en áratug.
Ofbeldisverk Cosbys komust í hámæli í #metoo byltingunni. Hún hófst með ásökunum á hendur valdamiklum körlum í Hollywood og hríslaðist svo um öll horn heimsins. Ákæran á hendur Cosby var eitt fyrsta stóra dómsmálið af þessum toga í kjölfar byltingarinnar og þótti til marks um að þögnin hefði verið rofin og breytingar væru í farvatninu.
Cosby var ákærður fyrir að brjóta gegn Constand en við réttarhöldin heimilaði dómari vitnisburð fimm kvenna til viðbótar sem sökuðu leikarann um það sama. Þau brot voru hins vegar framin á níunda áratug síðustu aldar og því fyrnd.
Saksóknarinn Steele ítrekaði í yfirlýsingu sem hann birti í gær að Cosby hefði verið sleppt úr fangelsi vegna tæknilegra atriða sem hefðu ekkert með brot hans að gera. „Von mín er sú að þessi niðurstaða hæstaréttar dragi ekki úr fórnarlömbum kynferðisofbeldis að tilkynna brot.“