Abdul er afganskur flóttamaður í Póllandi og sjálfboðaliði við móttöku flóttafólks frá Úkraínu í Varsjá. Hann er rúmlega þrítugur og starfaði eitt sinn sem túlkur fyrir sérsveit pólska hersins, sem var hluti af liði NATÓ í Afganistan. Eftir ítrekaðar hótanir og árásir talíbana komst Abdul til Póllands fyrir um tveimur mánuðum síðan, þar sem hann er nú að aðlagast nýju lífi í Varsjá, með dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Fjölskylda hans varð eftir við ótryggar aðstæður og eiginkona hans, sem fæddi þeim dóttur í upphafi vikunnar, tjáði honum að hún væri mögulega í lífshættu eftir barnsburðinn. Hann á þannig auðvelt með að setja sig í spor fólksins sem hann starfar nú að því að hjálpa, dagana langa, við aðallestarstöðina í miðborg Varsjár.
„Ég er búinn að vera hér á gistiheimili um hríð en mér hefur verið sagt að ég þurfi að fara. Ég veit ekki hvar ég mun geta komið mér fyrir og ég er atvinnulaus. Ég horfist í augu við allskyns vandamál en ég er samt stoltur og glaður af því að geta hjálpað fólkinu frá Úkraínu. Því við erum að takast á við það sama,“ segir Abdul í samtali við Kjarnann.
„Þegar ég hugsaði til ástandsins í Afganistan og svo til þess sem er að gerast í Úkraínu leið mér eins og ég yrði að gera eitthvað. Ég vakna fyrr á morgnana og er hérna 12, 14 og stundum 16 tíma á dag,“ segir Abdul, sem var falið að tala við íslenska blaðamanninn sem falaðist eftir viðtali um um skipulag og stoðir sjálfboðastarfsins sem fer fram á lestarstöðinni í Varsjá þessa dagana.
Lestarstöðin er ein meginmiðstöð mannúðarstarfs í borginni, sem hefur tekið á móti sennilega yfir 400 þúsund flóttamönnum frá því að innrás Rússa hófst fyrir rúmum mánuði síðan.
„Við erum að fæða úkraínska flóttamenn og yfir daginn er stanslaus straumur. Hér á lestarstöðinni erum við með þjónustu, pólska fólkið er að leggja svo mikið á sig til þess að hjálpa Úkraínumönnum. Þau eru að veita mat, lyf, hjálpa þeim með gistingu. Við höfum þúsundir sjálfboðaliða sem eru að taka þátt í þessu átaki, að hjálpa úkraínsku flóttamönnunum,“ segir Abdul.
Aðspurður segir hann að sennilega njóti yfir tíu þúsund manns þeirrar aðstoðar sem er veitt af honum og kollegum hans á lestarstöðinni, sem ein mistöð mannúðarstarfsins í borginni, á hverjum degi. Boðið er upp á mat, aðstoð við skipulagningu ferðalaga áfram til annarra Evrópulanda eða innan Póllands og aðstoð við að finna gistingu.
„Það eru margir að leggja sitt af mörkum. En þetta er ekki nóg. Við erum að vonast til þess að ríki Evrópusambandsins, Bretland og Bandaríkin komi til með að taka meiri þátt í að takast á við vanda úkraínsku flóttamannanna. Því núna er þetta í okkar höndum, aðstoð við meira en tvær milljónir flóttamanna,“ segir Abdul.
„Það er gríðarlega mikið af fólki sem eru hér sem flóttamenn. Og það er pólska fólkið sem er að hjálpa þeim. Alþjóðasamfélagið, góðgerðastofnanir og aðrir þurfa að sameinast um að hjálpa þessu fólki,“ bætir hann við.
Abdul segir að úkraínskt flóttafólk sem er með gistingu hjá einhverjum í Varsjá, jafnvel til lengri tíma, sé á meðal þeirra sem leiti til sjálfboðaliða á lestarstöðinni þessa dagana, því þrátt fyrir að margir íbúar borgarinnar hafi skotið skjólshúsi yfir Úkraínumenn hafi þeir ekki endilega mikið meira að gefa. „Þau hafa aðgang að mat, við tökum vel á móti þeim og veitum mat, drykki, lyf og fleira,“ segir Abdul.
„Við erum með um þrjúþúsund sjálfboðaliða og þau eru að vinna á vöktum. En flest hafa þau vinnu líka og eru svo að reyna að koma hingað til að hjálpa fólki. Það sem mér finnst merkilegast er að sjálfboðaliðarnir koma hvaðanæva að. Það eru sjálfboðaliðar frá Asíu, Suður-Afríku, Afríku, Bandaríkjunum, Kanada að koma hingað til starfa og það veitir okkur enn meiri orku. Takk fyrir að koma til Póllands og hjálpa okkur að takast á við að taka á móti öllu þessu fólki. Við finnum hér fyrir bræðralagi mannanna.“
Óttast um eiginkonuna í Afganistan en getur ekkert gert
Abdul rekur að hann hafi um nokkurra ára skeið starfað sem þýðandi fyrir sérsveit á vegum pólsku ríkisstjórnarinnar sem var hluti af herliði Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. „Ég fékk nýlega dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér, en því miður er fjölskyldan mín enn föst í óöruggu umhverfi, enn sem komið er. En ég er þakklátur fyrir hjálpina sem ég hef fengið frá pólskum stjórnvöldum.“
„En ástandið í Afganistan er hræðilegt, eins og þú veist eru hryðjuverkamenn við völd,“ segir Abdul en hann og fleiri sem störfuðu fyrir pólska herinn komust þó frá landinu. „Við vonumst til að fjölskyldur okkar komist líka þaðan og ég óska eftir því að yfirvöld hér og önnur beiti sér fyrir því að svo verði. Ég á bræður, systur og eiginkonu og börn.“
Abdul segir að eftir að talíbanar náðu völdum í Afganistan síðasta sumar hafi honum og fjölskyldu hans borist hótanir. Sjálfur hafði hann þá starf sem fjármálastjóri en eftir að talíbanar komust til valda og alþjóðaliðið hvarf frá Kabúl bárust honum og vinnuveitanda hans hótanir, sem leiddu til þess að hann missti starfið. Í kjölfarið skráði hann sig í nám í Ameríska háskólanum í Kabúl en þurfti einnig að hverfa þaðan eftir hótanir talíbana. Svo var skotið á bifreið fjölskyldu hans af vígamönnum talíbana er þau voru á ferðinni – og í kjölfarið sá hann að það væri engin leið fyrir hann að reyna að vera áfram í landinu.
En hann skildi mikið eftir í Afganistan. „Konan mín var ólétt og var að eignast barn í gær [á mánudag]. Það er yndislegt og ég elska dóttur mína, en konan mín missti mikið blóð í fæðingunni og eins og þú kannski veist eru ekki miklar bjargir í afganska heilbrigðiskerfinu. Hún hringdi í mig og sagðist kannski vera dauðvona. Það er engin aðstaða fyrir þá þjónustu sem konur þurfa eftir barnsburð. Hún hringdi í mig og sagðist vera í vanda. Ég sagði henni að vera sterk, en ég er svo langt í burtu og get ekkert gert. Ég er leiður og ég bara vona það besta. En ég get ekkert gert til að hjálpa,“ segir Abdul.
Kjarninn hitti Abdul á lestarstöðinni á þriðjudagskvöld. Í gær var ástand eiginkonu hans enn tvísýnt, að hans sögn.
Lestu meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna