„Við erum hér í skugga stríðs Pútíns. Stríðs sem við hófum ekki. Stríðs sem er hryllileg innrás á fullvalda, sjálfstætt ríki,“ sagði Roberta Mesola, forseti Evrópuþingsins, við upphaf þingfundar Evrópuþingsins í Brussel í fyrradag..
Þingið kom sérstaklega saman til að ræða innrás Rússa í Úkraínu. Volodímír Zelenskí, forseti Úkraínu, og Ruslan Stefanchuk, forseti úkraínska þingsins, ávörpuðu þingið frá Kænugarði.
Mesola fordæmdi innrásina og sagði úkraínsku þjóðina eiga stuðning Evrópu vísan, sambandið muni styðja lögsögu Alþjóðaglæpadómstólsins og rannsókn á stríðsglæpum gegn Úkraínu. „Við munum draga hann [Pútín] til ábyrgðar,“ sagði Mesola.
Zelenskí skrifaði undir formlega umsókn um aðild að Evrópusamnbandinu á mánudag, fjórum dögum eftir að innrás rússneska hersins hófst. Í ávarpi sínu á Evrópuþinginu óskaði hann enn á ný eftir stuðningi Evrópu. „Við erum að berjast fyrir réttindum okkar, frelsi og lífi, og sem stendur – að lifa af. Við erum einnig að berjast fyrir því að vera jafningjar Evrópu,“ sagði Zelenskí. Atkvæðafreiðsla um umsóknina fór fram á þinginu og var hún samþykkt með miklum meirihluta: 637 atkvæðum gegn 13. 26 sátu hjá.
Öll torg í Úkraínu verða frelsistorg
Zelenskí flutti ávarp sitt milli árása rússneska hersins, sem beindust þá einna helst að borginni Karkív, næst stærstu borg Úkraínu, þar sem sprengjum var meðal annars varpað á Frelsistorgið þar í borg. „Héðan í frá verður hvert einasta torg í borgum Úkraínu kallað Frelsistorg,“ sagði forsetinn, og ítrekaði að þingið og leiðtogar Evrópusambandsríkjanna yrðu nú að sanna að sambandið standi með Úkraínu. „Við höfum sannað styrk okkar. Við höfum sýnt að við erum alveg eins og þið. Sýnið að þið standið með okkur. Sýnið að þið yfirgefið okkur ekki. Sannið að þið séuð Evrópubúar. Þá mun lífið hafa betur gegn dauðanum og ljósið mun sigra myrkrið,“ sagði Zelenskí, áður en hann lauk ávarp sínu á orðunum Slava Ukraini: Dýrð sé Úkraínu.
Úkraína er að verja landamæri hins siðmenntaða heims
Ruslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, sagði Úkraínu vera að verja landamæri hins siðmenntaða heims. „Ef Úkraína fellur er engin leið að vita hvar Rússar munu stöðva,“ sagði Stefantsjúk, sem undirstrikaði að besta leiðin til að sýna Úkraínu stuðning væri að viðurkenna vilja ríkisins að vera hluti af Evrópu.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði innrás Rússa landstjórnmálaleg hryðjuverk. Hann fullvissaði Evrópuþingmenn um að ráðið myndi fara ítarlega yfir „alvarlega, táknræna, pólitíska, og að mínu mati, lögmæta beiðni“ Úkraínu um aðild að Evrópusambandinu.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ítrekaði orð sín frá því á mánudag þegar hún sagði Úkraínu „vera eitt af okkur“ og að ríkið ætti heima í Evrópusambandinu. Leiðtogar allra flokka á Evrópuþinginu tóku til máls og voru sammála um að innrásin marki nýtt upphaf í Evrópu og í raun heiminum öllum.
Engin flýtimeðferð í boði
Þrátt fyrir stríðsátök og yfirgnæfandi stuðning við umsóknaraðild Úkraínu að sambandinu mun umsóknin þó ekki fá neina flýtimeðferð. „Það er langur vegur fram undan,“ sagði von der Leyen. „Enginn getur hins vegar efast um að fólk sem sýnir jafn mikið hugrekki til að standa vörð um evrópsk gildi eigi heima í Evrópufjölskyldunni,“ bætti hún við.
Líkur benda til þess að orð von der Leyen séu fyrst og fremst táknræn. Umsóknarferli í Evrópusambandið er langt og strangt og getur tekið allt að áratug líkt og dæmin sanna. Pólland sótti til að mynda fyrst um árið 1994 en fékk inngöngu formlega tíu árum síðar, 2004.
Til að fullgilda aðild umsóknarríkis þarf samþykki allra aðildarríkjanna, sem nú eru 27. Ríkið þarf auk þess að aðlagast sameiginlegum markaði Evrópusambandsins og innleiða yfir 80 þúsund blaðsíður af reglum og reglugerðum sambandsins.
Flýtimeðferð þykir einnig ólíkleg sökum fjölda aðildarumsókna sem enn eru óafgreiddar, til að mynda frá Albaníu, Bosníu og Serbíu. Auk þess hefur útganga Bretlands úr sambandinu og heimsfaraldur kórónuveirunnar gert sambandinu erfitt fyrir að sinna sínum hefðbundnu verkefnum, svo sem að útvíkka sambandið.
Vilji Úkraínu er hins vegar skýr en flókið og tímafrekt regluverk Evrópusambandsins virðist standa í vegi. Þó orð von der Leyen séu táknræn þá eru þau skýr. Hún sagði stund sannleikans vera að renna upp í Evrópu. „Við getum ekki litið á öryggi sem sjálfsagðan hlut, við verðum að fjárfesta í því,“ sagði hún og bætti við að ef ætlun Pútíns væri að sundra ESB, NATO og alþjóðasamfélaginu hefði honum tekist hið gagnstæða.