Íslenska ríkið fellur frá málarekstrinum gegn Hafdísi Helgu og greiðir henni miskabætur
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 2020 að Lilja Alfreðsdóttir hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra. Lilja ákvað að stefna kærandanum persónulega í nafni íslenska ríkisins til að fá úrskurðinum hnekkt, tapaði fyrir héraðsdómi og ákvað að áfrýja til Landsréttar. Þar átti að taka málið fyrir í lok febrúar en af því verður ekki. Ásmundur Einar Daðason, sem tók við málarekstrinum, hefur ákveðið að semja um málalok og greiða konunni sem kærði miskabætur.
Mennta- og barnamálaráðuneytið, undir stjórn Ásmundar Einars Daðasonar, hefur ákveðið að falla frá áframhaldandi málarekstri gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur og semja við hana um greiðslu miskabóta. Heimildir Kjarnans herma að upphæðin sem verður greidd sé 2,3 milljónir króna.
Hafdís Helga var á meðal þeirra sem sóttu um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu þegar það var auglýst árið 2019. Þann 1. nóvember saman ár var Páll Magnússon skipaður í starfið. Hafdís Helga kærði þá niðurstöðu til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún taldi ljóst að reynsluminni og minna menntaður karlmaður hefði verið ráðin í starfið sem hún sóttist eftir. Gögnin hafi sýnt að ráðningarferlið hefði ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna og Hafdís Helga taldi sig ekki hafa fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins.
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls. Lilja ákvað að íslenska ríkið myndi stefna Hafdísi Helgu persónulega til að fá úrskurð kærunefndarinnar ógildan.
Í mars í fyrra hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur öllum málsástæðum Lilju og sagði í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið fyrir hendi neinir „annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar.“
Lilja ákvað að áfrýja dómnum rúmum fjórum klukkustundum eftir að hann hafði fallið. Þar með lá fyrir að málið yrði í áfrýjunarferli að minnsta kosti fram yfir þingkosningar, sem fram fóru 25. september síðastliðinn.
Eftir kosningarnar endurnýjuðu fyrri stjórnarflokkar samstarf sitt en málarekstur Lilju gegn Hafdísi Helgu varð eftir í nýju barna- og menningarmálaráðuneyti sem Ásmundur Einar Daðason, flokksbróðir Lilju, settist í. Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um afstöðu hans til málarekstursins í byrjun desember í fyrra en fékk engin svör.
Málið á dagskrá í lok mánaðar
Í byrjun febrúar kom málið nokkuð óvænt inn á dagskrá Landsréttar. Málflutningur skyldi fara fram 28. febrúar 2022.
Í aðdraganda þessa höfðu átt sér stað umtalsverð samskipti milli málsaðila þar sem lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, kallaði eftir upplýsingum um hvað ráðuneyti Ásmundar Einars ætlaði að gera. Þegar málið var komið á dagskrá Landsréttar varð meira knýjandi að fá svar frá ráðuneytinu og settum ríkislögmanni. Tíminn leið.
Svörum var lofað í byrjun febrúar, en þau bárust ekki. Svo áttu þau að berast viku síðar, en gerðu það ekki. Loks lá fyrir að Ásmundur Einar myndi láta afturkalla málareksturinn en það var ekki gert formlega fyrr en á fimmtudag með samkomulagi, samkvæmt heimildum Kjarnans. Og ekki gert opinbert fyrr en í dag þegar málið var tekið út af dagskrá Landsréttar, síðasta virka dag áður en að málflutningur átti að fara fram í Landsrétti.
Hafdís Helga gat ekki sótt skaðabætur vegna þess að ekki lá fyrir að hún hefði fengið starf ráðuneytisstjóra ef Páll, sem hefur gegnt mýmörgum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og bauð sig eitt sinn fram til formennsku í honum, hefði ekki verið ráðinn. Af þeim þrettán sem sóttu um embættið mat hæfisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til að gegna því og Lilja tók þá fjóra í viðtal. Á meðal þeirra var Páll en ekki Hafdís Helga. Ógjörningur er því að sýna fram á að Hafdís Helga hefði verið tekin fram fyrir þá tvo sem út af standa í mjög hæfa hópnum til að sækja skaðabætur vegna tekjutaps, sem hefði verið mismunurinn á launum ráðuneytisstjóra og núverandi starfi hennar út starfsferilinn, út frá fyrirliggjandi gögnum.
Þess vegna var samið um miskabætur.
Kostnaður ríkisins við rekstur málsins fyrir héraðsdómi nam alls 8,7 milljónum króna. Áætlað var að kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar yrði á bilinu 900 þúsund krónur til 1,2 milljónir króna án virðisaukaskatts.
Til viðbótar bætist sá kostnaður sem fellur til vegna greiðslu miskabóta.
Fordæmalaus málarekstur
Lilja er ekki fyrsti íslenski ráðherrann sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðar um að hafi broti jafnréttislög. Hún varð hins vegar fyrsti ráðherrann sem ákvað að una ekki niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála og höfða þess í stað mál persónulega gegn Hafdísi Helgu í nafni íslenska ríkisins.
Þegar greint var frá þeirri ákvörðun Lilju að stefna Hafdísi Helgu kom fram að sú ákvörðun hefði verið tekin eftir að ráðherrann hefði aflað sér lögfræðiálita sem bent hefðu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Úrskurðurinn byði upp á lagalega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið væri eftir við skipan embættismanna. Þeirri lagaóvissu vildi Lilja eyða. Kjarninn óskaði eftir því í byrjun að fá umrædd lögfræðiálit sem stefnan byggir á og ekki hefur verið upplýst hverjir unnu afhent, en var synjað.
Kjarninn kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu í ágúst 2020 að Lilja þyrfti ekki að afhenda álitin.
Héraðsdómur Reykjavíkur birti dóm sinn í málinu föstudaginn, 5. mars 2021. Hann var afdráttarlaus og hafnaði öllum lagalegum aðfinnslum Lilju við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Samandregið var það niðurstaða dómsins að „ekki hafi verið fyrir hendi neinir annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar.“
Kærunefndin hefði byggt úrskurð sinn á ákvæðum laga og málefnalegum sjónarmiðum, beitt lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og rökstutt niðurstöðu sína ítarlega. „Þá verður nefndin ekki talin hafa farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið, hvorki við mat á einstökum hæfnisþáttum eða við heildarskoðun á ráðningarferlinu. Verður nefndin því ekki talin hafa gengið of langt við endurskoðun á mati veitingarvaldshafans. Þannig standa engin rök til þess að ógilda úrskurð nefndarinnar. Dómurinn hafnar því kröfu stefnanda, íslenska ríkisins, um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála[...]verði felldur úr gildi.“
Allur málskostnaður Hafdísar Helgu, alls 4,5 milljónir króna, átti að greiðast úr ríkissjóði.
Nokkrum klukkustundum eftir að dómurinn lá fyrir fengust þær upplýsingar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að dómnum yrði áfrýjað til Landsréttar. Samhliða sagði ráðuneytið að Lilja ætlaði ekki að tjá sig um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur á meðan að á áfrýjunarferlinu stæði.
Hún gerði það samt sem áður nokkrum dögum síðar og sagði við RÚV að ákvörðunin um að stefna Hafdísi Helgu hefði ekki verið léttvæg en að hún hafi verið „tekin í kjölfar þess að ég fékk álit sérfræðinga á þessu sviði að rökstuðningurinn á sínum tíma að hann hefði ekki verið fullnægjandi. Það er að segja að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kynferðis.“ Það hafi verið hennar skylda að fara í ógildingarmál á grundvelli þess sérfræðiálits. Um lögfræðilegt álitamál væri að ræða.
Nú hefur, líkt og áður sagði, verið fallið frá þeim málarekstri.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars