Samkvæmt heimildum Kjarnans var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna upplýst um ámælisverða hegðun þingmannsins Kolbeins Óttarssonar Proppé í garð konu fyrir um ári síðan.
Þá hafa reynslusögur fleiri kvenna af Kolbeini verið á vitorði margra innan og utan Vinstri grænna um nokkurt skeið, en sem kunnugt er tilkynnti þingmaðurinn fyrir réttum mánuði síðan að hann myndi kveðja stjórnmálin vegna þessara mála.
Í skriflegu svari, sem forsætisráðherra veitti Kjarnanum eftir að fyrirspurn blaðamanns hafði verið ítrekuð nokkrum sinnum, hvorki játar Katrín því né neitar að hafa fengið ábendingu um ámælisverða háttsemi Kolbeins fyrir um það bil ári síðan. Í svari hennar segir einnig að ef þolandi myndi leita til sín vegna einhvers máls myndi hún telja sig bundna trúnaði um slík samskipti.
Formleg kvörtun um hegðun Kolbeins, sem barst fagráði Vinstri grænna í lok mars, kom upp á yfirborðið þann 11. maí, er þingmaðurinn sjálfur sendi frá sér yfirlýsingu. Í kjölfarið fékk Kjarninn upplýsingar um að leitað hefði verið til Katrínar vegna annars máls fyrir um ári síðan.
Vert er að taka fram að málið sem Katrín var upplýst um fyrir um það bil ári síðan er ekki hið sama og leiddi til kvörtunar til fagráðs, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Einnig er vert að taka fram að Kjarninn hefur ekki heimildir fyrir því að sú ámælisverða hegðun gagnvart konum sem Kolbeinn hefur orðið uppvís að falli undir það sem teljast mætti saknæmt athæfi.
Sagði að VG ætti ekki að þurfa að svara fyrir sína hegðun
Kolbeinn ákvað sem áður segir að hætta við þátttöku í forvali Vinstri grænna í Reykjavík vegna þessara mála, en þingmaðurinn hafði þó boðið sig fram til áframhaldandi þingsetu í Reykjavík þrátt fyrir að hafa vitneskju um formlega kvörtun til fagráðs gagnvart sér. Katrín sem formaður flokksins hafði einnig fengið vitneskju um það snemma í apríl að kvartað hefði verið undan þingmanninum, sem einnig er varaformaður þingflokks VG, til fagráðsins undir lok marsmánaðar.
„Ég er hluti af valdakerfinu og ég er hluti af feminískum flokki sem á alltaf að standa með konum. Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun,“ sagði þingmaðurinn meðal annars í yfirlýsingu sinni að kvöldi dags þann 11. maí.
Skjáskot af reynslu kvenna á flakki fyrir framboðsfund
Það sama kvöld stóð til að þingmaðurinn tæki þátt í fyrsta framboðsfundinum vegna flokksvals Vinstri grænna í Reykjavík.
Kolbeinn tilkynnti að hann væri hættur við framboðið skömmu fyrir þann fund og hefur Kjarninn heyrt að stemningin á þessum framboðsfundi hafi verið lituð af því sem fram kom í yfirlýsingu þingmannsins, sem hann setti á Facebook um það leyti sem fundurinn hófst. Hún var ögn „vandræðaleg“ eins og einn viðmælandi Kjarnans orðaði það.
Þennan sama dag höfðu konur rætt um reynslu sína af Kolbeini á lokuðum hópi á samfélagsmiðlum. Kjarninn hefur upplýsingar um að skjáskot af því sem fram kom í þeirri umræðu hafi borist til einstaklinga innan Vinstri grænna, þar á meðal meðframbjóðenda Kolbeins, í aðdraganda framboðsfundarins.
Sögur kvenna af samskiptum þeirra við Kolbein virðast þannig hafa verið við það að skjótast upp á yfirborðið, sama dag og þingmaðurinn tilkynnti að hann ætlaði að draga sig í hlé frá stjórnmálaþátttöku.
Katrín upplýst um kvörtun til fagráðs VG í byrjun apríl
Kjarninn beindi fyrst spurningum til forsætisráðherra vegna þessara mála allra þann 12. maí. Þá spurði blaðamaður hvenær Katrín hefði fyrst fengið vitneskju um einhverjar ásakanir í garð þingmannsins, hvort hún hefði rætt þessi mál við þingmanninn og hvort hún teldi, í ljósi þess sem fram hefði komið, rétt að Kolbeinn héldi áfram þingstörfum út kjörtímabilið.
Skrifleg svör frá Katrínu bárust þann 17. maí. Ljóst er af svörunum að forsætisráðherra tók því sem svo að blaðamaður væri eingöngu að spyrja um það mál sem hafði verið í hámæli í umfjöllun fjölmiðla dagana á undan og farið í formlegt ferli innan Vinstri grænna.
„Fagráð Vinstri-grænna upplýsti mig í byrjun apríl um að einstaklingur hefði leitað til fagráðsins vegna þingmannsins,“ sagði Katrín í svari sínu. Hún kom því einnig á framfæri að Kolbeinn hefði í samtali við sig útskýrt ákvörðun sína um að gefa ekki kost á sér „með svipuðum hætti og hann gerði svo opinberlega þennan sama dag“ og að hún teldi ákvörðun hans rétta. Katrín sagðist ekki gera athugasemdir við að Kolbeinn lyki þingvetrinum.
Forsætisráðherra fékk í framhaldinu aðra spurningu frá blaðamanni, þar sem spurt var á skýrari hátt og áréttað að ekki væri einungis átt við þá tilteknu kvörtun sem barst inn á borð fagráðs Vinstri grænna.
„Hafðir þú aldrei heyrt um erfiða reynslu kvenna af Kolbeini eða ásökunum í hans garð áður en fagráðið upplýsti þig um kvörtun vegna hans í byrjun apríl?“ spurði blaðamaður skriflega síðdegis 17. maí. Spurningin var svo ítrekuð dagana 26. maí og 2. júní, án þess að svör skiluðu sér.
Kjarninn beindi því annarri spurningu til Katrínar 9. júní um það hvort rétt væri, sem heimildir Kjarnans herma, að hún hefði verið persónulega upplýst um ámælisverða hegðun Kolbeins gagnvart konu fyrir um ári síðan. „Er þetta rétt?“ spurði blaðamaður og svar barst í gær, fimmtudaginn 10. júní.
Í svarinu hvorki játar Katrín né neitar því sem spurt var um, sem áður segir. En jafnframt segir hún að fagráð Vinstri grænna sé „sá farvegur sem rétt er að leita til vegna mögulegrar áreitni eða ofbeldis sem tengist starfi VG.“
„Fagráðið er bundið trúnaði og forysta hreyfingarinnar hefur ekki upplýsingar um það hverjir leita þangað. Að sama skapi teldi ég mig bundna trúnaði ef mögulegur þolandi leitaði til mín. Hvað varðar mál þingmannsins sem spurt er um þá hefur fagráð VG fjallað um það og hann hefur sjálfur ákveðið að draga sig út úr stjórnmálastarfi,“ segir einnig í svari Katrínar.
Framsögumaður í lykilmálum Vinstri grænna
Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur setið á þingi frá árinu 2016 sem alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Hann hefur á þessu kjörtímabili verið framsögumaður nefnda í nokkrum lykilmálum Vinstri grænna.
Hann hefur meðal annars verið framsögumaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna stjórnarskrárfrumvarps Katrínar Jakobsdóttur, sem enn er óvíst hvað verður um og sömuleiðis framsögumaður umhverfis- og samgöngunefndar vegna frumvarps Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra um Hálendisþjóðgarð, sem búið er að slá út af borðinu.