Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur setið í kjörbréfanefndum Alþingis allt frá árinu 2007. Hann var formaður þeirra nefnda sem skipaðar voru eftir alþingiskosningarnar 2013, 2016 og 2017. Góðar líkur mega því teljast á því að Birgir verði tilnefndur til formennsku í þeirri kjörbréfanefnd sem ráðgert er að taki til starfa strax eftir helgi, í kjölfar þess að landskjörstjórn útdeilir kjörbréfum til nýrra þingmanna síðdegis í dag.
Sú nefnd mun hafa það hlutverk að skoða gildi kosninganna í Norðvesturkjördæmi og önnur álitamál, en álit nefndarinnar verður síðan borið undir atkvæðagreiðslu í þinginu. Ekki er útilokað að þingið ákveði að uppkosning muni fara fram í kjördæminu, þ.e. að það verði kosið aftur. Landskjörstjórn gaf það út í gær að kjörbréfum til nýrra þingmanna verði úthlutað síðdegis í dag, sem er fyrr en áætlað hafði verið, en til stóð að úthluta kjörbréfunum þann 5. október.
Willum Þór Þórsson, sem er starfandi forseti Alþingis, hefur sagt við fjölmiðla undanfarna daga að hann reikni með því að svonefnd „undirbúningskjörbréfanefnd“ gæti komið saman og hafið störf strax á mánudag, en ekki er hægt að skipa kjörbréfanefnd formlega fyrr en við þingsetningu. Það verður þó örugglega sama fólkið í báðum nefndunum, þeirri sem starfar til bráðabirgða og þeirri sem formlega verður skipuð.
Það má með sanni segja að við kjörbréfanefnd Alþingis hafi ekki blasað verkefni sem er eins flókið eða umdeilt og nú. Landskjörstjórn hefur gefið það út að frá yfirkjörstjórninni í Norðvesturkjördæmi hafi ekki borist nein staðfesting á því að meðferð kjörgagna í kjördæminu hafi verið fullnægjandi og komið hefur nokkuð skýrt fram í fjölmiðlum undanfarna daga að kosningalög voru brotin hvað meðferð kjörgagna varðar á talningarstað í Borgarnesi.
Innsigli voru ekki notuð eins og lög gera ráð fyrir og leikur því vafi á um hvort hægt sé að fulltryggja að ekki hafi verið átt við atkvæðaseðla á milli fyrstu og annarrar talningar atkvæða.
Þetta er í reynd fordæmalaus staða í kosningum til Alþingis. Nú hafa verulegar efasemdir verið settar fram um hvort fimm jöfnunarþingmenn jafnmargra kjördæma, sem fá kjörbréf sín síðar í dag, geti talist réttkjörnir í ljósi þess hvernig meðferð kjörgagna var háttað í Borgarnesi. Frambjóðendur í kosningunum hafa boðað að kærur verði lagðar fram, til lögreglu og kjörbréfanefndarinnar sjálfrar.
Þá hefur verið bent á að fordæmi frá Mannréttindadómstól Evrópu, í belgísku máli sem fjallar um það að þjóðþing skeri úr um vafaatriði í kosningum, myndi geta átt við um Ísland, ef málið ratar alla leið til Strassborgar. Magnús Davíð Norðdahl lögmaður og frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi hefur látið að því liggja að hann muni fara með málið í þann farveg, ef ekki verði gripið til uppkosningar í kjördæminu.
Það er ekki án fordæma að kærur berist vegna framkvæmdar kosninga. Það gerist reyndar eiginlega alltaf, en fullyrða má að kæruefnið og úrslausnarefni kjörbréfanefndar nú sé veigameira en fyrr. Kjarninn kíkti á það helsta sem hefur verið í verkahring kjörbréfanefnda frá árinu 2003 til samanburðar.
Kallað eftir endurtalningu allra atkvæða árið 2003
Eftir alþingiskosningarnar árið 2003 lagði fulltrúi Frjálslynda flokksins sáluga fram kæru til dómsmálaráðuneytisins vegna meints vafa um úrslit kosninganna og krafðist þess að öll atkvæði á landinu yrðu talin aftur.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins fór Frjálslyndi flokkurinn fram á endurtalningu sökum þess að litlu munaði í atkvæðum á landsvísu til þess að verulegar breytingar yrðu á því hverjir teldust rétt kjörnir alþingismenn, en flokkurinn þurfti einungis 13 atkvæði til viðbótar á landsvísu til þess að fá oddvita sinn í Reykjavíkurkjördæmi norður inn sem jöfnunarmann á kostnað frambjóðanda Framsóknarflokksins.
Flokkurinn færði þau rök fyrir máli sínu að svo virtist sem það hefði ekki verið samræmi í vinnubrögðum á milli kjördæma hvað meðferð vafaatkvæða varðaði og bent var á 58 atkvæði hafi verið ógild í Reykjavíkurkjördæmi suður en 131 í Reykjavíkurkjördæmi norður. „Sami fjöldi kjósenda er í báðum þessum kjördæmum og munur á ógildum atkvæðum því mikill og bendir það einnig til þess að mismunandi forsendur hafi ráðið mati á atkvæðaseðlum við talningu,“ sagði auk annars í kærunni frá fulltrúa Frjálslynda flokksins.
Meirihluti kjörbréfanefndar taldi hins vegar enga ástæðu til að draga lögmæti kosninganna í efa og áleit ekki forsendur til upptalningar, uppkosningar eða til þess að aðhafast frekar. Minnihluti kjörbréfanefndar taldi á móti ástæðu til að rannsaka málið frekar og fá skýrslur úr öllum kjördæmum um meðferð kjörgagna og skilaði séráliti um það. Sú tillaga var felld við atkvæðagreiðslu þingsins, með 30 atkvæðum gegn 25, og í kjölfarið var tilllaga meirihlutans samþykkt með 51 atkvæði gegn hjásetu fjögurra þingmanna Frjálslynda flokksins.
Náðug nefndarseta árið 2007
Kjörbréfanefnd átti náðuga setu árið 2007. Þá barst engin kosningakæra heldur þurfti einungis að taka afstöðu til sjö ágreiningsatkvæða úr Reykjavíkurkjördæmi suður. Þau voru öll metin gild.
Misvægi atkvæða leiddi til kosningakæru 2009
Kjörbréfanefndinni sem sat árið 2009 barst kæra, þar sem þess var krafist að kjör allra þeirra þingmanna sem höfðu fengið kjörbréf í hendur yrði úrskurðað ólögmætt, á grundvelli þess að misvægi atkvæða á milli kjördæma landsins stæðist ekki stjórnarskrá. Kjörbréfanefndin hafnaði þessu og sagði stjórnarskrárgjafann hafa fallist á það misvægi atkvæða sem væri til staðar ef það væri ekki umfram það að tvöfalt fleiri kjósendur væru á bakvið hvert þingsæti í einu kjördæmi en öðru. Þegar það gerist, eins og reyndar gerðist í kosningunum núna árið 2021, færist eitt þingsæti á milli kjördæma í næstu kosningum.
Einn nefndarmaður, Margrét Tryggvadóttir þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagðist reyndar gera þann fyrirvara við meðferð nefndarinnar á kærunni að hún væri í grundvallaratriðum sammála henni og teldi misvægi atkvæða brjóta á mannréttindum sínum sem kjósanda í Suðvesturkjördæmi.
Jafnt vægi atkvæða milli flokka til umræðu 2013
Árið 2013 þurfti kjörbréfanefndin að takast afstöðu til fimm kærumála. Þeirra á meðal var kæra frá framboði Dögunar í Suðvesturkjördæmi, sem kærði misjafnt atkvæðavægi undir sömu formerkjum og gert hafði verið árið 2009 og var því svarað á sama hátt og hafði verið gert fjórum árum fyrr, en einnig önnur kærumál sem voru af öðrum meiði og kjörbréfanefndin taldi sig ekki þurfa að taka sérstaka afstöðu til.
Þetta ár kom í fyrsta sinn í lengri tíma upp sú staða að vægi atkvæða á milli stjórnmálaflokka var skakkt og eitt framboð fékk aukamann á kostnað annars. Það hefur síðan gerst árin 2016, 2017 og núna árið 2021, fernar kosningar í röð. Kjörbréfanefndin árið 2013 minntist sérstaklega á þetta og segir í áliti hennar að til þess að ná markmiðum stjórnarskrár um jöfnun á milli flokka hefðu jöfnunarsæti þurft að vera fleiri á kostnað kjördæmasæta.
Misvægi kært á ný 2016
Árið 2016 var kosið á ný og á ný beindi framboð Dögunar kæru til kjörbréfanefndar vegna misvægis atkvæða á milli kjördæma og einnig kærði framboðið 5 prósent þröskuldinn sem þarf til að fá jöfnunarmenn kjörna. Kjörbréfanefnd taldi sem fyrr að kæruefni af þessum meiði væru ekki til þess fallin að draga lögmæti kosninganna í efa.
Einnig barst kæra frá kjósanda, sem hafði verið hafnað um að fá kjörseðil sendan á dvalarstað sinn erlendis. Kæran beindist einnig að því að ekki væri búið að breyta kosningalögum á þann hátt að þau endurspegluðu niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu frá 2012 hvað persónukjör og atkvæðavægi jarðar. Kjörbréfanefndin taldi að ekki ætti að ógilda kosningarnar á þessum forsendum og kom það eflaust lítið á óvart.
Formaður Samfylkingar í eina kærumálinu 2017
Þegar kosið var til Alþingis að nýju árið 2017 barst einungis ein kæra til kjörbréfanefndar. Hún var eilítið óvanaleg, en hún snerist um það að formaður stjórnmálaflokks, sem greiddi atkvæði í Norðausturkjördæmi, hefði brotið kosningalög með því að fara með dóttur sína inn í kjörklefann og þetta hefði kjörstjórnin á Akureyri sagt í samræmi við kosningalög.
Umræddur formaður var Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, sem tók 12 ára dóttur sína með inn í kjörklefann er hann greiddi atkvæði á Akureyri. Í samtali við Vísi sagði hann að hann teldi langsótt að dóttir sín gæti sannfært sig um að kjósa Framsóknarflokkinn. En þessa kæru fékk kjörbréfanefndin til sín og niðurstaða hennar var sú að þetta væri ekki efni sem Alþingi ætti að úrskurða um. Ekkert benti heldur til þess að slíkir gallar hefðu verið á framkvæmd kosninga í Norðausturkjördæmi að verða til þess að úrskurða bæri kosningarnar ógildar.
2021?
Kjörbréfanefndin sem tekur til starfa eftir helgi mun fá það vandasama verkefni að skoða það sem fram hefur komið um framkvæmd nýliðinna alþingiskosninga. Rætt var við Herdísi Kjerúlf Þorgeirsdóttur lögmann, sem á sæti í Feneyjanefnd, í Pallborðinu á Vísi í gær og sagði hún ljóst að það þyrfti að rannsaka málið til hlítar af hálfu Alþingis.
Sama hvernig fer, sagði Herdís, er ein lexía sem verður dregin af þessu máli:
„Héðan í frá mun engin kjörstjórn þora öðru en að fara eftir lögum í hvívetna.“