Fjögurra daga hátíðarhöld verða í Bretlandi í komandi viku í tilefni af 70 ára krýningarafmæli Elísabetar Englandsdrottningar. Hátíðarhöldin eru sérstaklega vegleg þar sem opinberum afmælisdegi drottningar, sem varð 96 ára í apríl, verður fagnað samtímis.
Hátíðarhöldin hefjast á afmælisskrúðgöngu drottningar (e. Trooping the Colour) næstkomandi fimmtudag, 2. júní, en alls verða 2.429 almennir viðburðir í boði víðsvegar um Bretland. Garðveislur og götupartý eru einnig ómissandi hluti af hátíðarhöldunum og nú þegar hafa 2.653 skráð slíka fögnuði í gagnagrunn á sérstakri heimasíðu hins opinbera sem sér um skipulagningu krýningarhátíðarinnar.
Hápunktur konungssinna og konunglegra safnara
Segja má að hátíðin sé hápunktur konungssinna og konunglegra safnara þar sem nú gefst tækifæri til að sanka að sér alls kyns konunglegum munum. Gert er ráð fyrir að Bretar muni eyða um 408 milljónum punda, eða sem nemur rúmlega 66 milljörðum króna, í ýmis konar varning tengdan krýningarhátíðinni, allt frá tebollum til spiladósa.
Elísabet II Englandsdrottning tók við bresku krúnunni í febrúar 1952 eftir að faðir hennar, Georg sjötti, féll frá. Hún er fyrsti breski þjóðhöfðinginn sem nær þeim áfanga að ríkja í meira en 70 ár.
Elísabet varð 96 ára 21. apríl og hefð er fyrir því að halda opinberlega upp á afmæli þjóðhöfðingja í júní. Um er að ræða yfir 250 ára gamla hefð sem má rekja allt aftur til valdatíðs Georgs II á 18. öld. Hann átti afmæli 30. október en vildi halda upp á afmælið að sumri til.
Í ár er blásið til fjögurra daga hátíðarhalda, 2.-5. júni, þar sem krýningarafmælinu og opinberum afmælisdegi drottningar er fagnað samrímis. Bretar fá því tvo auka frídaga sem verður væntanlega tekið fagnandi, óháð því hvort fólk lítur á sig sem konungssinna eða ekki.
Nýtt drottningarstell í tilefni af krýningarafmælinu
Bresk fyrirtæki taka hátíðinni einnig fagnandi þar sem hátíðin mun ýta undir verslun, ekki síst á varningi sem tengist krýningarafmæli drottningar. Þannig hefur postulínsframleiðandinn Halycon Days í Stoke-on-Trent ráðið starfsfólk eingöngu til að sjá um sérpantanir í tengslum við krýningarafmælið.
Halycon Days er eitt 14 fyrirtækja sem hefur heimild til að framleiða öll þrjú konunglegu matarstellin, það er drottningarstellið auk stella í nafni Filippusar prins, hertogans af Edinborg og Karls bretapsins, prinsins af Wales. Meirihluti af borðbúnaðinum sem verður gefinn út í tilefni af 70 ára krýningarafmæli drottningar er sérstaklega ætlaður söfnurum.
Stellið samanstendur af ýmsum munum á breiðu verðbili. Ódýrasti hluturinn, bolli, nokkur konar kaffifantur, kostar 29 pund, um 4.700 krónur. Matardiskar með 22 karata gyllingu kosta 150 pund stykkið, rúmar 24 þúsund krónur en dýrasti munurinn í stellinu er spiladós sem kostar 1.950 pund, eða sem nemur rúmum 317 þúsund krónum. Eftirspurnin er svo sannarlega til staðar þar sem sumar vörur seljast upp í forpöntun áður en þær ná í vöruhillur.
Vonar að drottningin fái sér tesopa úr nýja stellinu
„Við erum búin að gefa út tvær vörulínur og þær seldust strax upp,“ segir Pamela Harper, framkvæmdastjóri Halycon Days, í samtali við BBC. Að hennar mati er útgáfa á vörulínum eins og matarstelli í tilefni af krýningarafmæli drottningar kjörið tækifæri til að halda dvínandi listformi á lífi. „Áhugi okkar á þessu kemur meðal annars til þar sem við viljum viðhalda þessum hæfileikum innan bresku þjóðarinnar,“ segir Pamela.
Þegar matarstellið var tilbúið var það flutt í Windsor-kastala þar sem drottningin var fengin að leggja mat á hvort það stæðist kröfur hennar. „Ég hef aldrei verið jafn stressuð á ævinni,“ segir Pamela. Stellið fékk blessun drottningar og er framleiðslan nú komin á fullt fyrir hátíðarhöldin eftir helgi. Pamela segist vona að drottningin muni fá sér te úr bolla úr stellinu við og við.
Rannsóknarsetur verslunarinnar í Bretlandi áætlar að Bretar muni eyða í kringum 408 milljónum punda, andvirði rúmlega 66 milljarða, í tengslum við krýningarafmælið næstu daga. Þar af er áætlað að um 281,6 milljónir punda, eða sem nemur rúmum 45 milljörðum, fari í ýmis konar konunglegan varning tengdan hátíðarhöldunum.
Auk konunglegra matarstella gegnir breski fáninn veigamiklu hlutverki í hátíðarhöldunum sem fram undan eru. Starfsfólk fjölskyldufyrirtækisins Flying Colours Flagmakers í smábænum Knaresborough er í óða önn að undirbúa hátíðarhöldin næstu daga. „Við náum varla utan um þetta eins og stendur. Það hrúgast inn pantanir á netinu og síminn hringir stanslaust,“ segir Andy Omrod, eigandi fánafyrirtækisins.
Eigum það til að henda sögunni í ruslið
En hvað verður svo um alla fánana, og aðra konunglega muni sem teljast ekki nógu mikilvægir til að rata í söfn konungssinna?
Sagnfræðingurinn Robert Opie stendur fyrir sýningu á safni í London, Museum of Brands, sem varðveitir neyslumenningu allt frá Viktoríutímanum til dagsins í dag. Á sýningunni verður hægt að skoða um 200 konunglega muni sem útbúnir hafa verið í tengslum við merk tímamót í konungsfjölskyldunni.
„Við lifum í neysluheimi og hendum alls konar hlutum í ruslið, en sagan býr einmitt í hlutum sem þessum,“ segir Opie, sem hvetur fólk til að fara vel með munina sem það kaupir í tilefni af krýningarafmæli drottningar.