Horfur í efnahagsmálum Noregs hafa versnað nokkuð á undanförnu ári og ástæðan er nokkuð auðsjáanleg; hröð verðlækkun á olíu. Á markaði í morgun hélt hráolía áfram að lækka í verði og kostar tunnan nú 44 Bandríkjadali, en fyrir um ári síðan var verðið tæplega 110 Bandaríkjadalir. Fyrir olíuframleiðsluríki eins og Noreg, sem hefur upplifað mikla efnahagslega uppsveiflu á undanförnum árum, þá eru þetta neikvæðar fréttir. Fjölmargir Íslendingar hafa flutt til Noregs á undanförnum árum, þar sem stöðuga og fjölbreytta atvinnu hefur verið þar á fá, en 4.500 Íslendingar umfram aðflutta, hafa flutt til Noregs frá því árið 2009. Um 7.600 fleiri Íslendingar hafa flutt frá Íslandi en til þess frá árinu 2009, og skýrir straumurinn til Noregs stóran hluta þeirrar tölu.
Mikil margfeldisáhrif
Eins og greint var frá á vef Kjarnans á laugardag þá telja sérfræðingar hjá bandaríska bankanum Goldman Sachs að verðið á olíu muni haldast fremur lágt á næsta ári, og geti jafnvel farið niður í 20 Bandaríkjadali á tunnuna, þar sem offramboðið á markaði sé meira en talið hafi verið til þessa. Aðeins ákvörðun olíuframleiðsluríkja, OPEC, um að draga úr framleiðslu geti leitt til verðhækkunar. En slík ákvörðun getur einnig verið sársaukafull fyrir ríkin sem eiga mikið undir olíuframleiðslu og sölu, í það minnsta til skamms tíma.
Framlegð olíuviðskipta hefur mikil áhrif á norska hagkerfið en Noregur er næst stæri útflytjandi á náttúrulegu jarðgasi og fimmta mesta olíuframleiðsluríki heimsins. Frá því árið 1969, þegar olía fannst fyrst í norskri lögsögu, hefur hagkerfið umturnast og orðið eitt það allra sterkasta í heimi, enda Noregur lítið land á flesta mælikvarða, með 5,1 milljónir íbúa. Vogskorin strangdleggja og krefjandi samgöngur gerðu landinu um margt erfitt fyrir í uppbyggingu, áður en olía fannst.
Olíu klasinn risavaxinn
Allt frá því olían fannst hafa norsk stjórnvöld lagt áherslu á tvö meginmarkmið. Það er að nýta olíuauðinn fyrir komandi kynslóðir, og geyma fjármunina að langmestu leytu (95 prósent) í eignum utan Noregs, og síðan að byggja upp þjónustuiðnað þar sem stuðst er við klasa-aðferðarfræðina. Klasinn telur nú um 136 þúsund störf en við frumvinnslu olíu starfa 22 þúsund manns. Stuðningsþjónusta við olíuiðnaðinn er því mun mikilvægari hagkerfinu en beina vinnslan sjálf.
Olíusjóður landsins nálgast hratt þúsund milljarða dala markið, eða sem nemur um 129 þúsund milljörðum króna, en meðaltalsávöxtun hans síðustu þrjú árin hefur verið um fimm prósent. Eignastaða sjóðsins er sambærileg við ríflega sextíufalda árlega landsframleiðslu Íslands, en um fimmtán sinnum fleiri búa í Noregi en á Íslandi.
Ekki mikill slaki nema á vissum svæðum
Enn sem komið er sést það ekki glögglega á hagtölunum í Noregi að það sé kominn slaki í þjóðarbúskapinn. Atvinnuleysi mælist 4,5 prósent og verðbólga er um tvö prósent. Það eru helst viss svæði, þar sem þjónusta við olíuiðnaðinn er fyrirferðamikil, sem hafa fundið fyrir lækkandi olíuverði og minnkandi umsvifum. Þar á meðal er Rogaland, þar sem Stavanger er miðpunkturinn með höfuðstöðvar Statoil innan sinna vébanda. Tæplega hálfmilljón manna býr í Rogalandi, eða 482 þúsund miðað við tölur frá árinu 2013. Í Stavanger búa 130 þúsund manns og í Rogalandi öllu búa líklega um sex þúsund Íslendingar, en heildarfjöldi Íslendinga í Noregi er nú um tíu þúsund manns, ef mið er tekið af tölum Hagstofunnar, sem er sambærilegt við þann fjölda sem skráður er á Facebook síðu Íslendinga í Noregi.
Á þessu svæði hefur hægst á hjólum atvinnulífsins. Fasteignir seljast hægar en áður og mörg fyrirtæki sem þjónusta olíuiðnaðinn hafa dregið saman seglin. Sumir eru svartsýnir á gang mála, og telja mikla erfiðleika framundan á næstu árum.
I år Detroit, neste år Stavanger - Aftenbladet.no http://t.co/sm7HtvQlvc
— Nino Brodin (@Orgetorix) September 14, 2015
Til marks um hversu næmt atvinnulífið á þessu svæði er fyrir sveiflum í olíuiðnaði, að þá er talað um það í Noregi, samkvæmt upplýsingum frá viðskiptavefsíðunni Dagens Næringsliv, að hagnaðarmarkið þegar kemur að olíuverði (break even) sé um 63 Bandaríkjadalir á tunnuna. Það er órafjarri stöðunni eins og hún er nú, og eins og áður segir þá virðist verðið ekki vera að hækka mikið á næstunni
Sterkir innviðir og margar stoðir
Noregur hefur ekki aðeins olíuna til þess að reiða sig á heldur er landið að mörgu leyti hrávörustórveldi. Álframleiðsla er mikil, með Norsk Hydro sem stærsta fyrirtækið, og sjávarútvegur, ekki síst eldisfiskur, er einnig meðal mikilvægustu geira atvinnulífsins. Mótbyr er á þessum vígstöðum nú, eins og mörgum öðrum. Norsk stjórnvöld hafa að undanförnu undirbúið gríðarlega umfangsmiklar fjárfestingar á sviði vistvænnar orku, og eru nú á teikniborðinu allt að sex nýir sæstrengir sem selja á raforku um til Evrópu, þar á meðal til 750 kílómetra langur strengur til Bretlands sem þegar hefur verið samið um. Markmið Noregs er að innan tíu ára þá verði sala á vistvænni raforku til Evrópu jafn mikilvæg efnahag Noregs og olíuframleiðslan.
Þrátt fyrir að nú séu blikur á lofti í efnahagsmálum Noregs, og krefjandi tímar framundan, þá er töluvert í að það sé hægt að tala um kreppu. En eftir því sem tímabilið verður lengra, þar sem olíuverð helst lágt á heimsmörkuðum, þá munu æ fleiri fyrirtæki þurfa að grípa til sársaukafullra aðgerða og haga seglum eftir efnahagslegum vindi.