Lagning sæstrengs til Evrópu kallar á styrkingu íslenska raforkuflutningskerfisins en hversu miklar þær þurfa að vera ræðst að verulegum hluta af landtökustað strengsins og öryggi tengingarinnar. Frá þessu var greint á vef Landsnets í dag, en ný kerfisáætlun fyrirtækisins fyrir íslenska raforkukerfið verður kynnt á föstudaginn.
Í frétt Landsnets kemur fram að umræddar styrkingar á raforkukerfinu, sem komi til viðbótar við önnur nauðsynleg uppbyggingaráform, séu minni ef strengurinn verður tekinn á land á Suðurlandi en ekki á Austfjörðum.
Undirbúningur í gangi
Töluverð vinna hefur verið lögð í það undanfarin misseri að kanna fýsileika þess að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu um sæstreng, að því er segir í tilkynningu frá Landsneti, sem er dóttufélag Landsvirkjunar. „Þáttur Landsnets í þeirri vinnu hefur að mestu snúið að því að greina stóru myndina innanlands, þ.e. að bera saman nokkra kosti með tilliti til til uppbyggingarþarfar flutningskerfisins“ segir í tilkynningunni, en niðurstöður þeirra athugana eru kynntar í sérstökum þemakafla í tillögu að kerfisáætlun 2015-2024, sem nú er til kynningar hjá Landsneti og fjallar um áætlaða þróun notkunar og framleiðslu raforku tengdri raforkuflutningskerfinu og uppbyggingu sem ráðgerð er á næstu tíu árum.
Orkubúskapur á tímamótum
Hvort sem af því verður að leggja sæstreng til Evrópu eða ekki, þá stendur Landsnet frammi fyrir miklum áskorunum á næstu árum. Uppbygging og endurnýjun raforkukerfisins kallar á miklar fjárfestingar. Í drögum að kerfisáætluninni má sjá að um mikið verkefni er að ræða. Ef ákveðið verður að ráðast í lagningu sæstrengs, t.d. til Bretlands, liggur ákvörðun um slíkt hjá stjórnvöldum. Ef mið er tekið af drögum af kerfisáætluninni þá getur ákvörðun um lagningu sæstrengs haft mikil áhrif á útkomuma. Í drögunum segir meðal annars, um hugmyndir sem snúa að lagningu sæstrengs: „Samkvæmt þeirri grófu mynd sem hefur verið birt, er styrkinga þörf í íslenska flutningskerfinu, ef það á að geta sinnt flutningi að landtökustað sæstrengs miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Þær styrkingar eru allt frá því að vera frekar litlar umfram framtíðartillögur Landsnets yfir í verulega miklar styrkingar. Það þarf þó að taka það skýrt fram að enn er margt óljóst í tengslum við þetta verkefni. Staðsetning, stærð og eðli nýrra virkjana (þ.e. vindorka, vatnsorka eða jarðvarmi) geta haft veruleg áhrif á styrkingarþörfina. Einnig vegast á sjónarmið um minni styrkingar í flutningskerfinu annars vegar og lengri sæstreng hins vegar. Enn fremur þarf að hafa í huga atriði eins og gæði landtökustaðarins og umhverfisáhrif á sjó og landi. Sú greining sem Landsnet hefur unnið nær þó aðeins til nauðsynlegra styrkinga innanlands. Það má þó ekki gleymast að þessi uppbygging kerfisins nýtist líka til þess að anna auknu álagi innanlands. Áreiðanleiki og afhendingaröryggi kerfisins munu almennt batna verulega og það verða vel í stakk búið til þess að taka við framleiðslu og notendum óháð staðsetningu.“
Hér má sjá upplýsingar úr drögum að kerfisáætlun Landsnets. Samkvæmt áætluninni þarf að styrkja raforkukerfi landsins verulega. Mynd: Landsnet
Stórar pólitískar ákvarðanir
Uppbygging raforkukerfisins er óumflýjanleg en leiðin sem valin verður virðast tengjast þeirri ákvörðun, í það minnsta óbeint, hvort ráðist verður í lagningu sæstrengs eða ekki. Í ítarlegri grein sem Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum og ráðgjafi, skrifaði inn á vef Kjarnans í mars síðastliðnum þá virðist allt benda til þess að hægt sé að fá margfalt hærra verð fyrir hvert selt megavatt af raforku um sæstreng heldur en þá 25 Bandaríkjadali á megavattið sem Landsvirkjun fær nú, að stærstu leyti vegna sölu raforku til álvera.
Í ljósi þess hve verkefnið er umfangsmikið er um stóra pólitíska ákvörðun að ræða, þegar sæstrengurinn er annars vegar. Nýlegar ákvarðanir Norðmanna og Breta, um lagningu 730 kílómetra sæstrengs frá hafnarbænum Blyth til Kvilldal í Rogalandi, sýna að lagning sæstrengsins er raunhæfur kostur, jafnvel þó strengurinn milli Íslands og Bretlands yrði rúmlega 250 kílómetrum lengri. Kostnaðurinn við strenginn milli Noregs og Bretlands er áætlaður um tveir milljarðar evra, eða sem nemur tæplega 300 milljörðum króna, en gera má ráð fyrir að kostnaðurinn sé hærri við streng milli Íslands og Bretlands.