Af sjötíu og fjórum sveitarfélögum á Íslandi þá fjölgaði íbúum Kópavogs mest á síðasta ári, eða um tæplega 900 manns. Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um tæplega 600 og Hafnfirðingum fjölgaði um 518. Alls fjölgaði landsmönnum um 3.429 manns árið 2014 og voru um áramótin síðustu 329.100 talsins. Það þýðir að um fjórðungur fjölgunarinnar varð í Kópavogi. Hagstofa Íslands birti í gær uppfærðar mannfjöldatölur sem sýna eitt prósent fjölgun íbúa árið 2014.
Á fyrstu myndinni eru listuð þau sveitarfélög þar sem fólki fjölgaði mest.
Næsta mynd sýnir sveitarfélögin tíu sem glímdu við mestu fólksfækkunina. Íbúum sveitarfélags Skagafjarðar fækkaði um nærri 70 manns og á Djúpavogi fækkaði íbúum um nærri 50.
Um 64 prósent landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu. Skiptingin eftir sveitarfélögum er eftirfarandi:
Á Akureyri búa ríflega 18 þúsund manns, um þremur þúsundum fleiri en í Reykjanesbæ.
Í sjö sveitarfélögum búa færri en hundrað íbúar. Fæstir eru í Helgafellssveit, sem situr nú eitt sveitarfélaga í neðsta sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins, eftir að íbúum Árneshrepps fjölgaði um einn á síðasta ári.
Að lokum má á kortunum hér að neðan sjá íbúafjölda eftir sveitarfélagi annars vegar og hvernig fólki fjölgaði eða fækkaði í sveitarfélögum á síðasta ári. Hægt er að stækka kortið.