Leið tekjulágra fyrstu kaupenda inn á markaðinn þrengist allverulega
Með ákvörðunum fjármálastöðugleikanefndar sem kynntar voru í gær er þrengt nokkuð að möguleikum tekjulágra fyrstu kaupenda til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn. Sjóðirnir sem eiga þarf fyrir lágmarksútborgun í íbúðir sem henta litlum fjölskyldum stækkuðu um milljónir með ákvörðuninni. Breytingarnar gætu snert allt að 20 prósent þeirra sem höfðu hug á að kaupa sína fyrstu íbúð á næstunni. Stjórnendur Seðlabankans segja merki um óhóflega skuldsetningu hjá hluta fyrstu kaupenda og vilja koma böndum á hana.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands kynnti í gærmorgun tvær nýjar ákvarðanir, sem báðar eru til þess fallnar að hafa töluverð áhrif á stöðu fólks sem er að reyna að koma sér inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta sinn.
Breytingarnar snerta það hversu mikið fólk getur fengið að láni fyrir sinni fyrstu íbúð og taka einnig til greiðslumats bankanna, en þar eru kynnt ákveðin viðmið um vexti sem bönkunum ber að líta til við útreikninga sína, auk þess sem óheimilt verður að horfa til lengri lána en til 25 ára við greiðslumat fyrir verðtryggð lán.
Tíu prósent kaupverðs duga ekki lengur fyrir útborgun
Sú breyting sem hefur helst gripið fyrirsagnirnar er að verið að lækka hámarks veðsetningarhlutfall fyrstu kaupenda úr 90 prósentum niður í 85 prósent. Á mannamáli þýðir það að einstaklingar sem eru að kaupa sína fyrstu eign þurfa nú að eiga að minnsta kosti 15 prósent af kaupverði eignar til útborgunar, í stað 10 prósenta áður.
Einungis Íslandsbanki var enn að veita 90 prósent lán í einhverjum tilfellum, en bæði Landsbankinn og Arion banki hafa að hámarki verið að lána fyrstu kaupendum fyrir 85 prósent af kaupverði fasteigna að undanförnu. Þessar breytingar snerta því einungis takmarkaðan þeirra sem eru að koma sér inn á markaðinn.
Samkvæmt Gunnari Jakobssyni varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika var skuldsetning um 20 prósent nýrra fyrstu kaupenda yfir 85 prósentum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs – og talan var öllu lægri í fyrra.
Með hækkandi húsnæðisverði, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, var þröskuldurinn inn á húsnæðismarkaðinn þó þegar orðinn ansi hár fyrir fyrstu kaupendur og eigið féð sem þarf að safna til þess að kaupa fyrstu íbúð er orðin dágóð summa.
Tökum dæmi:
Jón og Gunna eru bæði 27 ára og nýlega komin inn á vinnumarkaðinn eftir nám. Þau eiga eitt barn og hafa hug á því að festa kaup á þriggja herbergja íbúð – og eru löngu byrjuð að safna.
Fyrir ári síðan voru þau með augastað á íbúðum sem kostuðu um 40 milljónir króna, en árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið um 22 prósent, sem þýðir að sambærilegar íbúðir kosta hátt í 50 milljónir króna í dag.
Fyrir breytingar hefðu þau þurft að ná að safna 5 milljónum króna fyrir íbúð sem kostaði 50 milljónir og taka svo lán og viðbótarlán hjá Íslandsbanka fyrir restinni, en sú upphæð sem Jón og Gunna þurfa að eiga í sínum sjóði nú hefur nú hækkað upp í 7,5 milljónir króna.
Sjóðurinn þeirra fyrir útborgun þarf því að vaxa um 2,5 milljónir króna eftir ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar.
Þrengt að greiðslumati verðtryggðra lána
Breytingarnar sem fjármálastöðugleikanefndin kynnti varðandi viðmið um vexti sem lánveitendum ber að horfa til við framkvæmd greiðslumats kemur líka til með að hafa áhrif, aðallega á tekjulága sem eru að reyna að komast inn á fasteignamarkaðinn, þann hóp sem hefur verið að spenna bogann til þess að komast í eigið húsnæði.
Fólk með lága greiðslugetu hefur helst leitað í verðtryggð lán með lágri upphafsgreiðslubyrði, en hægt er að fá slík lán til allt 40 ára á lágum breytilegum vöxtum, en lægstu breytilegu vextirnir á lánunum hafa verið um 1,5 prósent hjá bönkunum að undanförnu.
Nú er verið að gera lánveitendum skylt að horfa til að lágmarki til 3 prósenta vaxta á þessi lán við greiðslumat – og banna þeim að horfa til lengri verðtryggðra lána en 25 ára. Og hvernig lítur dæmið þá út fyrir þá sem eru að spenna bogann til að komast inn á markaðinn?
Tökum dæmi:
Stefán, einstæður þrítugur maður, er búinn að vera að reyna að komast inn á fasteignamarkaðinn, helst í tveggja herbergja eign. Slíkar eignir kosta að lágmarki 35 milljónir á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt uppsettu verði á fasteignavefjum í dag. Stefán þyrfti að taka lán fyrir 85 prósentum af kaupverðinu, eða 29,75 milljónir.
Samkvæmt lánareiknivél, sem Eiríkur Þór Ágústsson heldur úti á Grid, væri fyrsta afborgun af slíku verðtryggðu láni á 1,5 prósent vöxtum til 40 ára rúmar 82 þúsund krónur.
Eftir breytingarnar þyrfti Stefán þó að geta staðist greiðslumat vegna láns á 3 prósenta vöxtum til 25 ára. Miðað við það þyrfti Stefán að geta sýnt fram á að hann gæti staðið við greiðslubyrði upp á 141 þúsund krónur.
Reiknuð greiðslugeta Stefáns þarf því að vera tæplega 60 þúsund krónum hærri en áður, eftir ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar.
Hafa áhyggjur af því að fyrstu kaupendur fari flatt
Hlutfall fyrstu kaupenda hefur verið hátt á undanförnum árum og sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi í gær að á síðustu misserum hefði það verið um 30 prósent yfir landið og á bilinu 30-40 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Hann sagði að mjög mikið af ungu fólki og líka erlendu fólki sem hefði verið á leigumarkaði hefði á undanförnum misserum náð að koma sér í eigið húsnæði vegna lægri fjármögnunarkostnaðar, væri nú komið með hærra eigið fé og nyti enn neikvæðra raunvaxta, sem væri „mjög gott“.
Seðlabankinn er hins vegar byrjaður að hafa áhyggjur af stöðu fyrstu kaupenda sem eru að koma sér inn á markaðinn í dag og sagði Ásgeir að það væri mat bankans að það væri „ekki heppilegt fyrir fólk að koma inn á 90 prósent lánum eins og staðan er núna.“
Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika sagði á kynningarfundi Seðlabankans í gær að þessar ákvarðanir væru teknar í ljósi vísbendinga um að skuldsetning ákveðinna hópa, þá fyrst og fremst meðal fyrstu kaupenda, væri orðin óhóflega mikil.
Fólk væri að leita í verðtryggð lán og skuldsetja sig mikið, án þess þó að átta sig endilega á því að afborganir lánanna geta hækkað mjög skarpt innan fárra ára við þá verðbólgu sem nú mælist hér á landi. Hvatti hann bankana til þess að gera neytendum þetta betur ljóst í lánareiknivélum sem haldið er úti.
Hann sagði að aðgerðir fjármálastöðugleikanefndar væru þó fyrst og fremst til að tryggja stöðugleikann í fjármálakerfinu – að tryggja að lánastofnanir gætu haldið áfram að lána ef efnahagsáföll dyndu yfir.
„Við erum ekki með aðgerðum að reyna með beinum hætti að reyna að hafa áhrif á húsnæðisverð. Við erum ekki í því hlutverki, í fjármálastöðugleikanefnd. Aðgerðirnar verða að skoðast í því ljósi. Auðvitað væntum við þess að það gætu orðið hliðaráhrif á húsnæðisverðið og með því, minni skuldsetning,“ sagði Gunnar.
Lestu meira
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember