Í október 2018 tókust tveir menn í hendur í danska forsætisráðuneytinu. Þetta var vafalítið ekki eina handabandið í ráðuneytinu í þessum mánuði en kannski það mikilvægasta. Mennirnir tveir voru þeir Lars Løkke Rasmussen þáverandi forsætisráðherra og Frank Jensen þáverandi yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar. Með handabandinu innsigluðu þeir samkomulag ríkisins og borgarstjórnar Kaupmannahafnar um það sem forsætisráðherrann kallaði „metnaðarfyllstu framkvæmdaáætlun í sögu Danmerkur“, fimmtíu ára planið.
Þessi áætlun er í raun þrískipt en áðurnefnt handaband var staðfesting fyrsta hluta þessarar miklu framkvæmdar, sem nefnd hefur verið Lynetteholmen. Um er að ræða landfyllingu austan megin við núverandi hafnarmynni Kaupmannahafnar, gegnt Löngulínu. Svæðið verður rúmlega 200 hektarar á stærð og tengist Refshaleøen. Gert er ráð fyrir að þarna verði um það bil 20 þúsund íbúðir auk fyrirtækja. „Þetta er fimmtíu ára plan“ sagði Lars Løkke Rasmussen. Miðað var við að þessu verkefni yrði lokið árið 2070.
Lynetteholmen er einskonar framhald af Refshaleøen þar sem ætlunin er að byggja 15 þúsund nýjar íbúðir. Á Refshaleøen var skipasmíðastöðin Burmeister & Wain á árunum 1872 til 1996 þar sem fleiri en 10 þúsund manns störfuðu um áratugaskeið. Margar stórar byggingar frá tíma B&W standa enn á þessu svæði, þar á meðal skemman sem notuð var fyrir Eurovison söngvakeppnina árið 2014.
Hinar tvær stórframkvæmdirnar í 50 ára planinu eru annars vegar miklar framkvæmdir við Avedøre hólmann, við Kalvebod brúna og E20 hraðbrautina sem liggur við Kastrup flugvöll til Svíþjóðar. Þarna á að setja níu hólma með landfyllingum, samtals um 300 hektara að stærð. Gert er ráð fyrir að á svæðinu verði eingöngu fyrirtæki en ekki íbúðarhús.
Þriðja stórframkvæmdin í 50 ára planinu, og sú stærsta og kostnaðarsamasta, er göng sem liggja myndu frá Sjálandsbrúnni gegnum Amager og Refshaleøen (við Lynetteholmen) gegnum Norðurhöfnina og tengjast svo Helsingør hraðbrautinni. Þessi framkvæmd myndi kosta tugi milljarða danskra króna. Þegar, og ef af þessari framkvæmd verður, munu göngin létta verulega á umferð, ekki síst stórra flutningabíla, um tvö aðaltorg borgarinnar, Ráðhústorgið og Kóngsins Nýjatorg.
Lynetteholmen samþykktur í þinginu
Danska þingið, Folketinget, samþykkti 4. júní á síðasta ári að ráðist skyldi í fyrsta hluta 50 ára áætlunarinnar, landfyllingar undir Lynetteholmen. Miklar umræður urðu um málið í þinginu og ekki var einhugur um framkvæmdina meðal þingmanna. Ljóst var að kostnaðurinn myndi hlaupa á milljörðum danskra króna. Fram kom að ætlunin væri að sala á landi, til fyrirtækja, stæði undir kostnaði við landfyllingarnar. Bréf sem danska samgönguráðherranum hafði borist frá Svíþjóð vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda var ekki rætt í þinginu, sem þó hefði kannski þótt ástæða til. Þingmenn vissu hinsvegar ekkert um þetta bréf en meira um það síðar.
Skóflustunga og leir
17. janúar síðastliðinn var fyrsta skóflustungan tekin vegna framkvæmda við Lynetteholmen. Sú athöfn var fyrst og fremst táknræn því fyrsti hluti framkvæmdanna, sem hófust nokkrum dögum fyrr, fer fram á sjónum utan við Refshaleøen. Þetta fyrsta skref er að fjarlægja leir af hafsbotninum á landfyllingarsvæðinu. Og það er ekkert smáræði, samtals um 2,5 milljónir kúbikmetra, þetta magn myndi fylla 70 þúsund flutningagáma. Í umræðum á þinginu kom fram að ætlunin væri að moka leirnum upp í flutningaskip, sem síðan sigldi með farminn suður í Kögeflóa (Køgebugt) og losa hann þar. Bréfið sem áður var getið, og þingmenn vissu ekki um þegar rætt var um leirinn, snérist einmitt um þá ákvörðun að losa hann í Kögeflóa.
Áhyggjur sænska umhverfisráðherrans
Í mars í fyrra skrifaði Per Bolund þáverandi umhverfisráðherra Svíþjóðar, danska starfsbróður sínum bréf þar sem hann gagnrýndi og mótmælti fyrirætlunum um að demba í Kögeflóann leirnum sem mokað yrði upp af Lynetteholmsbotninum. Þetta bréf lét Lea Wermelin umhverfisráðherra Dana undir höfuð leggjast að nefna á nafn í þinginu þegar rætt var um leirinn og losunina. Í bréfinu lýsti sænski ráðherrann þungum áhyggjum sem losunin myndi hafa á umhverfið. Hann fór fram á að beðið yrði með að losa leirinn í Kögeflóann þangað til nánari rannsóknir á hugsanlegum afleiðingum lægju fyrir. Það var ekki gert og nú hefur tæplega tíunda hluta af leirnum verið losaður í Kögeflóann. Leirlosunina var ætlunin að vinna í áföngum, og áætlað var að halda leirflutningum áfram í haust. En nú er óljóst hvert framhaldið verður.
Annað bréf frá Svíþjóð
Í mars sl. barst danska umhverfisráðherranum og samgönguráðherranum annað bréf frá Svíþjóð. Það bréf var frá núverandi umhverfisráðherra Svíþjóðar, Annika Strandhäll. Þar ítrekaði ráðherrann áhyggjur Svía vegna leirsins í Kögeflóa en nú gerðist það að danskir fjölmiðlar komust í bréfið og í framhaldi af því varð uppvíst um fyrra bréfið, sem enginn, utan danska umhverfisráðherrans hafði vitað um. Dönskum þingmönnum var ekki skemmt þegar þeir komust að því að fyrrverandi umhverfisráðherra hefði leynt bréfinu frá Svíþjóð. Það er talið til marks um áhyggjur Svía að mjög sjaldgæft er að sænskir ráðherrar skrifi bréf af þessu tagi og taki jafn sterkt til orða og þarna var gert.
Ráðherra vill nú skoða aðrar lausnir
Danskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað ítarlega um leirmálið, eins og þeir kalla það. Eftir hrókeringar í dönsku ríkisstjórninni heyrir Lynetteholmen framkvæmdin nú undir samgönguráðuneytið. Trine Bramsen, núverandi samgönguráðherra hefur lýst yfir að hún vilji leita nýrra lausna í leirmálinu. Málið er á byrjunarreit en sérfræðingar sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við telja besta kostinn þann að grafa leirinn á öruggum svæðum á landi. Slíkt myndi að mati sérfræðinganna kosta meira en hefði ekki sömu skaðlegu áhrif á umhverfið. Trine Bramsen ráðherra sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að nú myndi hún ásamt sérfræðingum leggjast undir feld og ekkert yrði aðhafst í leirmálinu fyrr en ákvarðanir lægju fyrir. Ráðherrann sagðist ekki geta sagt til um hvenær það gæti orðið.