Lokaspá: Meiri líkur en minni á að ríkisstjórnin haldi velli
Samkvæmt síðustu kosningaspánni mun Framsóknarflokkurinn verða í lykilstöðu í fyrramálið þegar kemur að myndun ríkisstjórnar, og endurheimtir þar með það hlutverk sem flokkurinn hefur sögulega haft í íslenskum stjórnmálum. Hinir stjórnarflokkarnir tveir tapa báðir fylgi frá síðustu kosningum en stjórnarandstaðan bætir ekki nægilega miklu við sig til að breyta stöðunni mikið.
Ríkisstjórnarflokkarnir mælast með samanlagt 47,6 prósent fylgi í síðustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar fyrir komandi kosningar. Hún fékk 52,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og er því að tapa 5,3 prósentustigum milli kosninga. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á þrátt fyrir það ágæta möguleika á því að lifa af og mynda meirihluta að nýju, kjósi formenn flokkanna það.
Líkur hennar á því að ná því markmiði eru nú metnar 54 prósent samkvæmt lokakosningaspá Kjarnans. Þær jukust skarpt undir lok kosningabaráttunnar en í fyrradag mældust þær 33 prósent. Líkurnar eru þó enn minni en þær mældust um miðbik ágústmánaðar þegar um 60 prósent líkur voru á að ríkisstjórn Katrínar myndi geta setið áfram með þingmeirihluta á bakvið sig.
Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi en ekki stöðu sinni
Sjálfstæðisflokkurinn mun samkvæmt síðustu kosningaspánni fá 22,2 prósent atkvæða á morgun og tapa 3,1 prósentustigi frá kosningunum 2017. Verði það niðurstaðan mun Sjálfstæðisflokkurinn fá sína sístu niðurstöðu í kosningum á landsvísu frá því að hann var stofnaður. Vert er þó að taka fram að stjórnmálaumhverfið í dag er gjörbreytt frá því sem áður var, þegar íslensk stjórnmál samanstóðu af fjórum megin flokkum og endrum og sinnum af einum til. Nú stefnir í, samkvæmt kosningaspánni, að flokkarnir á þingi geti orðið níu í fyrsta sinn.
Þá hefur það oft verið þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðeins meira fylgi en síðustu spár bentu til. Árið 2017 fékk flokkurinn til að mynda einu prósentustigi meira en í síðustu kosningaspánni, sem er innan skekkjumarka en skiptir samt máli þegar flokkakraðakið er mikið. Þar nýtur hann þess að vera stærsta fjöldahreyfingin í íslenskum stjórnmálum og áratuga reynslu við að koma sínu fólki á kjörstað.
Þriðjungur fylgisins farinn hjá Vinstri grænum
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans, virðast ætla að verða sá stjórnarflokkur sem fer verst út úr stjórnarsamstarfinu. Flokkurinn mælist með ellefu prósent fylgi þrátt fyrir að um 42 prósent landsmanna vilji Katrínu áfram sem forsætisráðherra. Þær vinsældir eiga sér enga hliðstæðu en næstur í röðinni samkvæmt könnun Íslensku kosningarannsóknarinnar kemur Bjarni Benediktsson með 12,8 prósent stuðning í forsætisráðherrastólinn. Nýleg könnun MMR sýndi sömuleiðis yfirburðastöðu Katrínar hvað þetta varðar þar sem 55,5 prósent landsmanna sögðust treysta henni vel en 22,7 prósent treysta henni illa. Enginn formaður nýtur meira trausts eða minna vantrausts. Alls sögðust 29,1 prósent treysta Bjarna en heil 55,5 prósent segjast treysta honum illa. Enginn formaður flokks sem mælist með um og yfir tíu prósent fylgi nýtur viðlíka vantrausts.
Fari sem horfir mun VG tapa rúmlega þriðjungi atkvæða sinna frá síðustu kosningum og fyrir vikið má ætla að staða flokksins við stjórnarmyndunarborðið, muni veikjast.
Framsókn enn og aftur í kjörstöðu
Sama verður ekki sagt um Framsóknarflokkinn og kosningaspáin bendir raunar til þess að þessir tveir flokkar sem einkenna sig með græna litnum muni hafa sætaskipti í íslenskum stjórnmálum, Gamli bændaflokkurinn stefnir í að verða næst stærsti flokkur landsins og endurheimta þá stöðu sína að vera límið í íslenskum stjórnmálum,
Með Framsókn í 14,4 prósent fylgi, 3,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk 2017, er nær ógjörningur að sjá hvernig ríkisstjórn verði mynduð án flokksins. Slagorðið „Er ekki bara best að kjósa Framsókn“ virðist hafa skilað þeim árangri að miklu fleiri sögðu „jú“ en mældust á þeim vagni um miðjan ágúst, þegar fylgi flokksins var í kringum kjörfylgi frá síðustu kosningum.
Of lítill ávinningur andstöðuflokka til að breyta stöðunni mikið
Stjórnarandstaðan virðist ekki ætla að ríða feitum hesti frá komandi kosningum, þrátt fyrir að hafa fengið það verkefni að takast á við afar óvenjulega ríkisstjórn frá hægri, yfir miðju og til vinstri þar sem allir stjórnarflokkarnir þurftu að gefa, þó mismikið, eftir af málum sem segja má að skilgreini þá. Svo virðist vera sem að andstöðuflokkunum hafi ekki tekist að nýta sér þá stöðu sem neinu nemur.
Samfylkingin mælist með 13 prósent fylgi, sem er bæting frá síðustu kosningum en er langt frá þeim stað sem jafnaðarmannaflokkar á hinum Norðurlöndunum eru á. Langt er síðan að flokkurinn var það mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu sem hann var stofnaður til að vera. Síðan í kosningunum 2009 hefur Samfylkingin ekki farið yfir 13 prósent fylgi í þingkosningum.
Píratar hafa dalað á lokametrunum og mælast nú með 10,7 prósent stuðning, sem er bæting frá 2017 en einungis um 1,5 prósentustig. Flokkurinn sækir fylgi sitt að uppistöðu til yngri kjósenda sem skila sér síst á kjörstað og tilhneigingin hjá Pírötum hefur verið sú að fá minna upp úr kjörkössunum en síðustu spár gerðu ráð fyrir.
Viðreisn mælist með 9,9 prósent fylgi sem er í lægri mörkum þess sem flokkurinn hefur fengið í kosningaspánni í aðdraganda kosninga. Hann endurheimtir þorra þess fylgis sem hann tapaði í kosningunum 2017, alls 3,2 prósent, en endar samt sem áður rétt undir þeim stað sem Viðreisn var á eftir kosningarnar 2016, sem voru þær fyrstu í sögu flokksins.
Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka, sem kenna sig við hina frjálslyndu miðju, endar í 33,6 prósent, eða 5,6 prósent yfir því sem þeir fengu fyrir fjórum árum.
Nokkuð ljóst er þó að íslenskir kjósendur eru að flykkjast inn á miðju stjórnmálanna. Ef fylgisaukning Framsóknarflokksins er lögð við ofangreint þá liggur fyrir að miðjuflokkarnir fjórir bæta við sig 9,3 prósentustigum af fylgi á kjörtímabilinu. Svo er að sjá hvort það skili því að framtíðin ráðist á miðjunni.
Þrír í botnbaráttunni
Þrír flokkar eiga á hættu að ná ekki inn á þing, þótt þeir mælist allir inni í síðustu kosningaspánni. Sósíalistaflokkur Íslands átti sviðið framan af kosningabaráttunni og mældist um tíma með átta prósent fylgi. Þá talaði forvígismaður flokksins um að á lokasprettinum væri hægt að auka það fylgi verulega og skila honum yfir tveggja stafa tölu. Raunin hefur orðið önnur og síðustu vikur hefur Sósíalistaflokkurinn dalað skarpt í kosningaspánni. Nú, á kjördag, mælist fylgi 5,8 prósent og flokkurinn er minnstur þeirra sem mælast inni á þingi.
Miðflokkurinn hefur ekki náð neinu flugi og endar í 6,2 prósent í kosningaspánni. Skoðanakannanir hafa mælt hann mismunandi síðustu daga og jafnvel út af þingi. Nokkuð öruggt verður þó að teljast að formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nái hið minnsta inn sem kjördæmakjörinn í Norðausturkjördæmi og sennilegt að hann dragi með sér einhverja jöfnunarþingmenn. Sú staða sem Miðflokkurinn hafði eftir síðustu kosningar, þegar hann var sigurvegari þeirra með 10,9 prósent atkvæða, er þó horfinn. Ljóst er að þingflokkurinn, sem nú telur níu eftir viðbótina sem Miðflokkurinn fékk úr Flokki fólksins eftir klausturmálið, mun skerðast niður í þrjá eða fjóra.
Flokkur fólksins mælist nú með 6,2 prósent fylgi eins og Miðflokkurinn og lokasprettur Ingu Sæland virðist aftur ætla að skila honum inn á þing, en flokkurinn mældist fyrst yfir fimm prósent markinu á landsvísu sem tryggir jöfnunarþingmenn í byrjun viku.
Fleiri möguleikar í boði en áframhaldandi stjórn
Nái ríkisstjórnarflokkarnir þrír ekki meirihluta, eða ef þeir telja þann meirihluta sem kemur upp úr kjörkössunum vera og tæpan, þá geta þeir alltaf kippt einum flokki í viðbót inn í samstarfi. Sá flokkur verða ekki Samfylking eða Píratar, sem hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en gæti verið Viðreisn eða Flokkur fólksins. Líkurnar á því að núverandi stjórnarflokkar og Viðreisn nái meirihluta eru nær algjörir, eða 97 prósent. Líkurnar á meirihluta með flokk Ingu Sæland um borð eru 83 prósent. Líkurnar á því að skipta út til dæmis Vinstri grænum og taka Viðreisn um borð í miðju-hægri stjórn eru einnig ágætar, eða 43 prósent.
Ef mynda á fjögurra flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks eru mestar líkur á því að mynda slíka frá miðju til vinstri, með aðkomu Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks. Líkurnar á þeim meirihluta eru 54 prósent. Ef Vinstri grænum yrði skipt út fyrir Viðreisn fara líkurnar niður í 48 prósent og ef allir fimm miðju- og hægri flokkarnir myndu ákveða að vinna saman eru 97 prósent líkur á því að þeir nái meirihluta.
Reykjavíkurmódelið svokallaða, sem samanstendur af Vinstri grænum, Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn, mælist með einungis 24 prósent líkur á því að ná meirihluta.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Netpanell ÍSKOS/Félagsvísindastofnunnar 13 – 23. september (12,2 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu 22. – 24. sept. (29,1%)
- Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 17 – 21. september (11,6 prósent)
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 20 – 21. september (vægi 18,3 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 20 -24. september (vægi 28,8 prósent)
Sýndarkosningarnarnar sýna að nær engar líkur eru á því að hægt verði að mynda tveggja flokka stjórn miðað við þessa niðurstöðu. Einungis eitt mynstur nær tveggja prósenta líkum, stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars