Emmanuel Macron, sitjandi Frakklandsforseti, hafði betur gegn Marine Le Pen, leiðtoga öfgahægriflokksins Rassemlement National, í síðari umferð forsetakosninganna í Frakklandi sem fram fóru í gær. Macron sigraði Le Pen, rétt eins og í kosningunum fyrir fimm árum, en munurinn var hins vegar mun naumari nú en þá. Macron hafði betur með 58,55 prósentum gegn 41,45 prósentum, en í síðustu forsetakosningum fékk hann stuðning rúmlega 66 prósent kjósenda.
Úrslitin eru áhugaverð og söguleg að ýmsu leyti. Þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forseti fimmta lýðveldisins er í raun og veru endurkjörinn. Sitjandi forsetar hafa vissulega setið meira en eitt kjörtímabil en í tilfelli François Mitterand 1988 og Jacques Chirac 2002 voru flokkar þeirra í stjórnarandstöðu þegar forsetakosningarnar fóru fram. Þá var Charles de Gaulle, fyrsti forseti fimmta lýðveldsins, í raun ekki kjörinn af almenningi þegar hann tók fyrst við embætti.
Öfgavæðing stjórnmálanna virðist komin til að vera
Macron fagnaði sigri við glitrandi Eiffel-turninn þar sem hann sagði Frakka hafa kosið „sjálfstæðara Frakkland og sterkari Evrópu“ og hét hann að sameina sundrað Frakkland. En niðurstöður kosninganna sýna að stuðningur við öfgaöfl í Frakklandi hafa aldrei verið meiri. Le Pen stóð keik eftir að úrslitin voru ljós og sagði tapið í raun vera glæstan sigur fyrir sig og flokkinn.
Blaðamaður New York Times fullyrðir að með niðurstöðu kosninganna hafi lýðveldi heimsins komist hjá nýrri, stærðarinnar krísu. Sigur Macron merkir að eitt af valdamestu ríkjum Vestur-Evrópu verður ekki stjórnað af öfgahægri þjóðernissinna sem á sterk tengsl við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og vill fjarlægjast NATO.
Sigurinn er virðingarvottur við hæfileika Macron sem stjórnmálamanns og stefnumótanda. Í kosningabaráttunni, ekki síst eftir að ljóst varð að Le Pen myndi mæta Macron í síðari umferðinni á kostnað Jean-Luc Mélenchon, formanns vinstriflokksins Óbugaðs Frakklands (f. La France insoumise), mátti greina ákveðið stef hjá kjósendum að þeir væri í raun að velja á milli tveggja slæmra kosta. „Valið stendur á milli svartadauða og kóleru,“ líkt og einn kjósandinn orðaði það.
Margt hefur breyst í frönskum stjórnmálum á síðastliðnum árum. Flokkur Macron, La République en Marche, sem var í raun stofnaður í kringum forsetaframboð hans fyrir fimm árum, ætlaði sér að umbylta frönskum stjórnmálum og endurvekja trú almennings á þeim.
Það hefur að vissu leyti tekist, sérstaklega ef litið er á gömlu stórflokkana tvo, sósíalista og repúblikana, en frambjóðendur þeirra hlutu samanlagt tæp 8 prósent atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna. Á sama tíma hefur stuðningur við öfgaöfl af hægri og vinstri væng stjórnmálanna aldrei veirð meiri, en frambjóðendur þeirra hlutu samanlagt 58 prósent atkvæða í fyrra umferð forsetakosninganna. Öfgavæðing stjórnmálanna virðist því komin til að vera.
Kjósendur Mélenchon fylgdu fyrirmælum hans
En hvert er Macron að sækja stuðning sinn?
Franska könnunar- og rannsóknarfyrirtækið Ifob spurði kjósendur á kjördag hvort og þá hvernig þeir breyttu atkvæði sínu milli umferða í forsetakjörinu. 45 prósent svarenda sem kusu Mélenchon í fyrr umferðinni greiddu ekki atkvæði í seinni umferðinni. Á sama tíma greiddu 42 prósent þeirra sem kusu Mélenchon í fyrri umferðinni Macron atkvæði í sinni umferðinni. Mélenchon bað stuðningsmenn sína um að greiða Le Pen ekki atkvæði sitt en á sama tíma var hann ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við Macron. Segja má að stuðningsmenn Mélenchol hafi fylgt fyrirmælum hans að mestu.
Við fyrstu yfirferð úrslitanna kemur í ljós að Macron bætti nær hvergi við sig fylgi á landsvísu á meðan Le Pen bætti við sig nær alls staðar, skiljanlega, en einna helst í stórum hluta dreifbýlissvæða í Suður-Frakklandi.
Kosningaþátttaka hefur aðeins einu sinni verið minni eftir að núverandi kosningafyrirkomulag var tekið upp og ekki verið lakari í tvo áratugi. Kjósendur í nágrenni Parísar mættu helst ekki á kjörstað að þessu sinni, en þar er einmitt að finna kjósendur sem greiddu Mélenchon atkvæði í fyrri umferðinni.
Emmanuel Macron verður forseti Frakklands næstu fimm árin en að þessu seinna kjörtímabili loknu mun hann segja skilið við forsetastólinn, lögum samkvæmt. Talið er að Macron muni hefja þetta síðara kjörtímabil sitt með því að hlusta á kjósendur fremur en að taka áhrufamiklar ákvarðanir, að minnsta kosti fram yfir þingkosningar sem fram fara í júní.