Elmer Stewart Rhodes, stofnandi öfga- og vígasamtakanna the Oath Keepers, hefur verið fundinn sekur um uppreisnaráróður gegn bandaríska ríkinu fyrir að skipuleggja aðgerðir til að koma í veg fyrir embættistöku Joe Biden sem Bandaríkjaforseta.
Réttarhöld yfir Rhodes og fjórum öðrum liðsmönnum the Oath Keepers hafa staðið yfir síðustu tvo mánuði vegna aðildar þeirra í óeirðunum á þinghúsið. Fyrir áeggjan Donalds Trump, sem þá bjó sig undir að láta af embætti forseta, braust æstur múgur inn í þinghúsið 6. janúar 2021.
„Hann reyndi að koma í veg fyrir friðsamleg valdaskipti ættu sér stað þegar æstur múgur réðst á þinghúsið. En þeim mistókst. Þeim mistókst. Og á þessum degi þegar við minnumst þess verðum við að tryggja að árás eins og þessi gerist aldrei aftur,“ sagði Biden í ávarpi sínu þar sem hann var afar harðorður í garð Trump. „Löskuð sjálfsmynd hans skipti hann meira máli en lýðræðið eða stjórnarskráin okkar, hann getur ekki viðurkennt tap,“ sagði Biden.
Stofnaði vígasamtökin eftir kjör Obama
Daginn sem öldungadeildarþingið staðfesti kjör Biden hélt Trump fjöldafund við Hvíta húsið þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína til að „bjarga landi þeirra“. Stuðningsmenn tóku hann á orðinu og réðust inn í þinghúsið, sumir vopnaðir í hefðbundnum skilningi en fleiri vopnaðir snjallsímum þar sem atburðarrásinni var streymt á samfélagsmiðlum.
Þrír liðsmanna the Oath Keepers, þau Jessica Watkins, Kelly Meggs og Kenneth Harrelson, fóru inn í þinghúsið í óeirðunum. Meggs var sakfelld fyrir uppreisnaráróður líkt og Rhodes. Bæði eiga þau yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm.
Harrelson, Watkins og fimmti liðsmaðurinn, Thomas Caldwell, voru ekki sakfelld fyrir uppreisnaráróður en öll fimm voru sakfelld fyrir að hindra störf opinberra starfsmanna og embættismanna. Kviðdómurinn var þrjá daga að komast að niðurstöðu.
Vígasveitin the Oath Keepers eru öfgahægri-samtök þar sem herþjálfun er grunnþáttur. Starfsemi slíkra vopnaðra sveita er formlega ólögleg í öllum ríkjum Bandaríkjanna en þær hafa fengið að starfa að mestu óáreittar. Rhodes stofnaði samtökin eftir að Barack Obama var kjörinn forseti árið 2008. Rhodes sagði skoðanir Obama stangast á við bandarísku stjórnarskránna og vildi grípa til sinna ráða.
Fyrrverandi fallhlífarhermaður sem skaut sjálfan sig í augað
Mikill fjöldi vígamanna í sveitum sem þessum eru fyrrum eða núverandi her- og lögreglumenn. Stewart Rhodes er 57 ára fyrrverandi fallhlífahermaður með lögfræðigráðu frá Yale-háskóla. Útlit og eldræður Rhodes hafa vakið töluverða eftirtekt en hann er með lepp fyrir vinstra auganu. Árið 1993 varð hann fyrir því óhappi að skjóta sjálfan sig í augað með 22 kalibera skammbyssu sem hann átti. Rhodes er með gerviauga en kýs oftast að nota lepp sem hefur orðið að eins konar einkennistákni og er hann orðinn þekktur sem „maðurinn með leppinn“.
Rhodes hætti í hernum eftir að hann varð fyrir meiðslum við æfingar og nam stjórnmálafræði og starfaði sem aðstoðarmaður Ron Paul, þingmanns Repúblikana, árið 2001. Hann útskrifaðist sem lögfræðingur frá Yale-háskóla árið 2004 og starfaði sem lögmaður til ársins 2015 þegar hann var sviptur lögmannsréttindum fyrir að brjóta gegn siðareglum Hæstaréttar í Montana. Frá 2015 hefur hann því alfarið einbeitt sér að Oath Keepers.
Lét eins og „hershöfðingi á vígvelli“
Rhodes hætti sér ekki sjálfur inn í þinghúsið en saksóknarar sögðu Rhodes hafa hagað sér eins og „hershöfðingi á vígvelli“ fyrir utan þinghúsið á meðan óeirðunum stóð. Ætlunarverk Rhodes hafi verið skýrt: Að hvetja til óeirða og ofbeldis til að hindra embættisskipti Joes Biden og Donalds Trump og tryggja þannig að Trump yrði enn í embætti.
Það mistókst og Rhodes á nú yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm.
Í réttarhöldunum kom meðal annars fram að Rhodes og liðsmenn hans komu tugum vopna fyrir á hótelherbergi í Virginíu, handan við Potomac-ána sem skilur að Washington D.C. og Virginíu. Liðsmenn the Oath Keepers bjuggu sig því undir að vígbúast frekar ef þörf væri á.
Lögmenn Rhodes notuðu það í vörn sinni að það að vopnin voru aldrei flutt til borgarinnar sýndu að aðgerðir vígasveitarinnar voru fyrst og fremst varnarsinnaðar. Ætlun þeirra hafi verið að vernda mótmælendur og halda friðinn fyrir utan þinghúsið, jafnt sem innan þess.
Lögmenn Rhodes ávörpuðu fjölmiðla fyrir utan dómshúsið þegar niðurstaðan lá fyrir og sögðust ekki sáttir við niðurstöðuna sem væri þó ekki óumdeildur sigur fyrir ákæruvaldið. Lögmenn fimmmenninnganna hyggjast áfrýja öllum sakfellingum málsins.
Fyrsta sakfellingin um uppreisnaráróður í tæp 30 ár
Sakfelling fyrir samsæri um uppreisnaráróður er sjaldgæf í Bandaríkjunum. Síðast var sakfellt fyrir þessar sakir árið 1995 þegar tíu íslamskir vígamenn voru dæmdir fyrir að reyna að koma fyrir sprengjum við þekkt kennileiti í New York.
Til að vera sakfelldur fyrir samsæri um uppreisnaráróður gegn alríkinu þurfa saksóknarar að sýna fram á að tveir, eða fleiri, hafi lagt á ráðin um að „steypa af stóli, niðurlægja eða koma valdhöfum frá völdum með átökum,“ eða sanna að viðkomandi hafi skipulagt að beita afli til að andmæla stjórnvöldum.
Alan Rozenshtein, lagaprófessor við háskólann í Minnesota og fyrrverandi lögfræðingur í bandaríska dómsmálaráðuneytinu, segir sakfellingu Rhodes vera þýðingarmikla þar sem hún sýni fram á „raunhæfa og löglega leið til að refsa fyrir allra alvarlegustu andlýðræðislegu hegðun“ í landinu.
Rannsóknin á árásinni á þinghúsið er ein sú umfengsmesta í sögu Bandaríkjanna. Búast má við að sakfellingin verði fordæmisgefandi. Um 900 manns í nær öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna hafa verið handtekin fyrir að taka þátt í árásinni á þinghúsið.
Rhodes bætist nú í hóp fjölda óreirðarseggja sem dæmdir hafa verið fyrir þátttöku sína eða skipulag á árásinni á þinghúsið. Meðal þeirra má nefna „Qanon-seiðmanninn“ Jacob Chansley, sem varð fljótt að eins konar tákngervingi árásarinnar. Chansley var handtekinn þremur dögum eftir árásina og var upphaflega birt ákæra í sex liðum, meðal annars fyrir að setjast í ræðustól Mike Pence varaforseta. Hann játaði aðild sína að árásinni og hlaut 41 mánaðar fangelsisdóm.
Réttarhöld yfir fleiri liðsmönnum the Oath Keepers fara fram fyrir áramót, auk réttarhalda yfir liðsmönnum annarra öfgasamtaka, the Proud Boys. Ekki liggur fyrir hvenær dómur verður kveðinn upp yfir Rhodes.