„Ég vaknaði klukkan fimm í morgun við drunur. Ég hljóp út á svalir og áttaði mig á því að þetta voru ekki flugeldar – þetta voru sprengjur.“
Sasha býr í borginni Kharkiv í norðausturhluta Úkraínu. Það sem hún vaknaði við í morgun var upphafið að árás herliðs Rússa inn í landið. Sprengjum tók að rigna á sama tíma og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, flutti sjónvarpsávarp þar sem hann hafði í hótunum við alla þá sem myndu skipta sér af aðgerðum hans. Hann væri að bjarga Austur-Úkraínu undan ógnarstjórninni í Kænugarði.
„Ég sá fólk hlaupa um göturnar,“ heldur Sasha áfram að lýsa því sem fyrir augu bar í morgun. „Við fjölskyldan viljum ekki flýja. Þetta er heimili okkar. Við getum ekki gert neitt annað en að vona það besta.“
Kharkiv er ekki eina borgin sem fékk að finna fyrir því í morgun. Tilkynningar hafa borist um árásir víðar í landinu. Mannfall er hafið. Að minnsta kosti átta Úkraínumenn höfðu látist um klukkan átta í morgun að því er Reuters-fréttastofan greindi frá. Stjórnvöld í landinu segjast hafa skotið niður herflugvélar og þyrlu Rússa en þeir segja það ekki rétt.
Sasha vill ekki flýja en þúsundir annarra hafa gripið til þess. Umferðarteppurnar út úr höfuðborginni eru þvílíka að umferðin hreyfist varla. Raðirnar við hraðbanka og verslanir eru gríðarlegar. Það hefur skelfing gripið um sig.
Herlög hafa verið sett á í Úkraínu og hafa stjórnvöld heitið því að verja borgara sína með öllum tiltækum ráðum. Allir sem vopni geta valdið hafa verið beðnir að skrá sig til þjónustu nú þegar.
Ráðist hefur verið inn í landið bæði frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. New York Times hefur staðfest myndefni sem blaðinu hefur borist sem sýna rússneska hermenn að koma yfir landamærin á Krímskaga. Ekki langt frá heimaborg Söshu.
Loftvarnaflautur hafa verið þandar í hverri borginni á fætur annarri. Rússar hafa gert árás á herflugvélar Úkraínumanna á jörðu niðri. Reynt að draga úr viðnámsþrótti þeirra.
Pútín sagði í ávarpi sínu eldsnemma í morgun að hann ætlaði sér ekki að „hertaka“ svæðin í austri, svæði sem hafa verið undir yfirráðum aðskilnaðarsinna, hópa sem vilja halla sér að Rússlandi fremur en stjórnvöldum í Kænugarði, frá árinu 2014.
En nú er ljóst að „aðgerðir“ Pútíns beinast að allri Úkraínu – eru alls ekki aðeins bundnar við austurhéruðin. Árásir hafa verið gerðar á að minnsta kosti tíu svæði, bæði í austri og suðri og upplýsingar um nýjar árásir berast stöðugt.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir um „allsherjar innrás“ að ræða. Rússar hafa svo sagt að almennir borgarar séu ekki í hættu. Þegar er orðið ljóst að það stenst engan veginn. Fréttir hafa meðal annars borist af særðum heilbrigðisstarfsmönnum er árás var gerð á herstöð í Nizhyn í norðurhluta landsins.
„Við vitum ekki hvað við eigum til bragðs að taka,“ segir Olha sem býr í Lviv. Fjölskylda hennar er hins vegar í Kænugarði í hundraða kílómetra fjarlægð. Hún óttast um líf þeirra. „Ég bað þau að finna sprengjubyrgi.“
Borgarstjórinn í Kænugarði, Vitali Klitschko, flutti sjónvarpsávarp í morgun og bað borgarbúa, sem eru um 2,8 milljónir talsins, að reyna að halda ró sinni. Búðir, bensínstöðvar og bankar væru opin. „Haldið ykkur heima.“
Pólverjar búa sig undir að flóttamannastraumurinn frá Úkraínu verði gríðarlegur. Að flóttafólkið muni jafnvel hlaupa á hundruðum þúsunda.
Síðari ræða Sergiy Kyslytsya, fastafulltrúa Úkraínu hjá SÞ, í heild pic.twitter.com/NOqE6tvJpL
— Axel Helgi Ívarsson (@AxelHelgi) February 24, 2022
Vernd en ekki innrás
Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi var gerð loka tilraun til að koma í veg fyrir stríð. Vasily Nebenzya, sendiherra Rússlands og formaður ráðsins þennan mánuðinn, ítrekaði að Úkraínu væri um að kenna hvernig komið væri. „Ef þið breytið ekki hvernig þið horfið á hið pólitíska landslag þá munið þið aldrei skilja okkur,“ sagði hann m.a. Hann sagði Rússa vera bjargvætti Austur-Úkraínu en ekki óvinaher. „Í okkar huga,“ sagði hann og var þá að meina Rússa og aðskilnaðarsinnanna í Úkraínu, „þá býr þarna fólk; konur, gamalmenni og börn, sem hafa í fleiri ár þurft að skýla sér fyrir sprengjuregni frá Úkraínu.“ Rússar ætluðu sér að „vernda fólkið sem hefur orðið fyrir þjóðarmorði“.
Sá sem síðastur tók til máls á fundi öryggisráðsins var fulltrúi Úkraínu og hann virtist í áfalli eftir ræðu Nebenzya. „Það er hlutverk þessarar samkomu að stöðva stríðið,“ sagði Sergei Kyslitzia. Rödd hans skalf enda hafði Pútín þá lýst yfir stríði. Ræðan sem hann hafði undirbúið var því úrelt. „Ég biðla til ykkar allra að gera það sem þið getið til að stöðva þetta stríð.“
Þeir skiptust svo á hörðum athugasemdum, Rússinn og Úkraínumaðurinn. „Stríðsglæpamenn fara beint til helvítis, sendiherra,“ sagði sá úkraínski. Sá rússneski þagði um stund en sagði svo, yfirvegunin uppmáluð: „Við erum ekki ógnandi við borgara Úkraínu, heldur gegn herforingjastjórninni í Kænugarði“.
Lofar öllum mögulegum stuðningi
Íbúar smábæjarins Sloviansk í einu austurhéraða Úkraínu vöknuðu líkt og fleiri í landinu við sprengjur. Þegar þær þögnuðu og hljótt var um stund gripu margir til þess ráðs að koma sér í skjól – burt úr húsum sínum. Irina Shevtsova flúði ásamt tveimur ungum börnum sínum í klaustur skammt frá heimili sínu. „Hér eru að minnsta kosti þrjár grafhvelfingar.“
Sloviansk var undirlagður af átökum árið 2014. Ástandið þar nú er ekkert í líkingu við það sem þá var en íbúarnir eru uggandi. Lilia Soliak segist ekki telja að bærinn hennar verði skotmark í þetta sinn. „Þeir munu ráðast á borgir þar sem eru mikilvægir flugvellir,“ sagði hún snemma í morgun.
Um klukkan 9 að íslenskum tíma ræddust Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, saman í síma. Sá síðarnefndi óskaði eftir aðstoð og Macron lofaði honum „öllum stuðningi og samstöðu Frakklands.“