Mannkynið farið yfir þolmörk sex af níu lykilkerfum jarðar
Þolmörk jarðar hafa verið skilgreind af hópi vísindamanna og vísa þau til níu lykilkerfa sem gera jörðina lífvænlega. Um leið og ágangur á kerfin verður of mikill og farið er yfir þolmörkin aukast líkur á óafturkræfum breytingum á vistkerfi jarðar. Í dag er ágangur á auðlindir jarðar orðinn svo mikill að vísindamenn telja ljóst að mannkynið hafi þegar farið yfir þolmörk sex af níu lykilkerfum jarðar.
Mannkynið gengur á auðlindir jarðar sem aldrei fyrr. Meðalhitastig jarðar hefur hækkað um 1,2°C frá iðnbyltingu, skógareyðing á sér stað á ógnarhraða, níu af hverjum tíu jarðarbúum anda að sér menguðu andrúmslofti og hefur dýrategundum fækkað um rúmlega sjötíu prósent frá árinu 1970. Vistkerfi jarðar hafa nú orðið fyrir svo miklum breytingum vegna athafna mannsins að þau standa ekki lengur undir sér.
Þolmörk jarðar – „mikilvægasta vísindalega uppgötvun okkar tíma”
Árið 2009 skilgreindi hópur vísindamanna, undir forystu sænska vísindamannsins Johan Rockström, níu þolmörk jarðar (e. planetary boundaries) sem nauðsynlegt er að virða. Þolmörk jarðar vísa í raun til þolmarka þeirra lykilkerfa sem gera jörðina byggilega. Þessi níu lykilkerfi eru undirstaða stöðugra og heilbrigðra vistkerfa og hafa þau haldist stöðug síðustu tíu þúsund árin, eða allt frá upphafi siðmenningar. Hópurinn komst að því að um leið og ágangur verður of mikill og farið er yfir þolmörkin aukast líkur á skyndilegum, stórfelldum og óafturkræfum breytingum á vistkerfum jarðar.
Þolmörkin níu sem Johan Rockström og félagar skilgreindu eru eftirfarandi: Loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, eyðing ósonlagsins, röskun á náttúrulegri hringrás niturs og fosfórs, ferskvatnsnotkun, landnotkun, tap líffræðilegrar fjölbreytni, loftmengun og efnamengun.
Hugtakið þolmörk jarðar hefur haft mikil áhrif innan fræðasamfélagsins og utan. Rockström hefur verið margverðlaunaður fyrir störf sín og árið 2021 kom út Netflix heimildarmyndin Breaking Boundaries sem fjallar einmitt um þolmörk jarðar. Í myndinni, sem David Attenborough talar inn á, segir hann að þolmörk jarðar séu „mögulega mikilvægasta vísindalega uppgötvun okkar tíma“.
Í dag er ljóst að mannkynið hefur, vegna athafna sinna, farið yfir þolmörkin á sex af níu sviðum. Þau eru tap líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsbreytingar, landnotkun og röskun á náttúrulegri hringrás niturs og fosfórs. Á fyrstu mánuðum ársins 2022, komust vísindamenn að því að mannkynið hefur farið yfir tvö þolmörk til viðbótar; ferskvatnsnotkun og efnamengun.
Þolmörk ferskvatnsnotkunar brostin
Hingað til var ferskvatnsnotkun talin undir öruggum jarðfræðilegum mörkum en nýjar niðurstöður, sem birtust í tímaritinu Nature Reviews Earth & Environment í apríl 2022, benda til þess að mannkynið hafi nú einnig farið yfir þolmörk ferskvatnsnotkunar.
Höfundar greinarinnar segja að við útreikning þessara þolmarka hafi fyrst og fremst verið tekið tillit til vinnslu vatns úr ám og vötnum og ekki nægilegt tillit tekið til ferskvatns sem nauðsynlegt er fyrir plöntur og lífríki. Sérstaklega hafi þolmörkin ekki náð að fanga nægilega hlutverki jarðvegsraka (e. soil moisture) til að tryggja stöðugleika lífrríkja, binda kolefni og stjórna hringrás andrúmsloftsins. Því leggja höfundarnir til að breyta heiti þolmarkanna um ferskvatnsnotkun í ferskvatnsbreytingar.
Arne Tobias, einn höfunda rannsóknarinnar, nefnir Amazon regnskóginn sem sýnilegt dæmi um brostin jarðfræðileg þolmörk ferskvatnsnotkunar. Amazon regnskógurinn treystir á jarðvegsraka en vegna loftslagsbreytinga og skógareyðinga er skógurinn að tapa jarðvegsraka. Það leiðir til þess að hlutar skógarins eru að þorna upp og talið er líklegt að Amazon regnskógurinn sé að nálgast ákveðinn vendipunkt (e. tipping point), þar sem stór svæði geta hreinlega breyst úr regnskógi í eyðimörk.
Höfundar rannsóknarinnar benda á að þetta eigi ekki einungis við um Amazon regnskóginn heldur sé um að ræða alheimsvandamál. Jarðvegsraki er að breytast og óeðlilega blautur eða þurr jarðvegur er að verða sífellt algengari.
Þolmörk efnamengunar metin í fyrsta skipti
Fyrr á þessu ári birtist grein í tímaritinu Environmental Science and Technology þar sem áhrif efnamengunnar, eða „kokteil gerviefna“ og annara nýrra efna, á stöðugleika vistkerfa var í fyrsta skipti metin. Niðurstöðurnar bentu til þess að mannkynið hafi farið yfir þolmörk hvað þetta varðar, og hafa vísindamenn sérstakar áhyggjur af plastmengun.
Þolmörkin, sem bera nú heitið „ný efni“ (e. novel entities) í stað „efnamengunar“, vísa til efna sem eru ný í jarðfræðilegum skilningi. Áætlað er að um 350 þúsund mismunandi tegundir framleiddra efna séu á heimsmarkaði, svo sem plast, skordýraeitur, iðnaðarefni, efni í neysluvörum, sýklalyf og önnur lyf. Allt eru þetta „ný efni”, búin til af mönnum, og geta haft stórfelld áhrif á vistkerfi jarðar.
„Framleiðsla og notkun á nýjum og skaðlegum efnum á sér stað á slíkum hraða að þolmörk jarðar eru ekki virt“ segir Patricia Villarubia-Gómez, vísindamaður við Stockholm Resilience Center.
Áætlað er að heimsframleiðsla og neysla nýrra hættulegra og manngerðra efna muni halda áfram að aukast á komandi árum. Heildarmagn plasts á jörðinni er nú þegar tvöfalt meira en massi allra lifandi spendýra. Á sama tíma eru einungis níu prósent af öllu plasti sem framleitt er endurunnið. Örplast er að finna í öllum krókum og kimum jarðar og hefur m.a. fundist í fiskinum sem við borðum, kranavatninu sem við drekkum og í loftinu sem við öndum að okkur.
„Ekkert lifir eitt í náttúrunni“
Fyrir sextíu árum varaði sjávarlíffræðingurinn Rachel Carson réttilega við skelfilegum áhrifum efnamengunar í bók sinni Raddir vorsins þagna.
Carson benti á áhrif skordýraeitursins DDT á lífríkið og gagnrýndi óhóflega notkun efnis sem lítið væri vitað um. Hún taldi að mikil notkun á DDT og öðrum varnarefnum myndi ekki einungis drepa óæskileg skordýr heldur einnig hafa áhrif á aðrar lífverur og þannig koma lífríkinu úr jafnvægi.
Skilaboð Carson fyrir 60 árum voru þau að mannkynið geti ekki einfaldlega útrýmt þeim dýrategundum sem þeim líkar ekki við án alvarlegra aukaverkana. Í náttúrunni er allt nátengt, eða eins og Carson sagði: „Ekkert lifir eitt í náttúrunni.“ Sem dæmi eru þolmörk jarðar háð hvert öðru - þegar farið er yfir ein þolmörk getur það breytt stöðu annara þolmarka. Jarðvegsraki tengir þolmörk ferskvatnsnotkunar við landnotkun, líffræðilega fjölbreytni og loftslagsbreytingar. Að sama skapi getur efnamengun eins og plastframleiðsla haft áhrif á loftslagsbreytingar með notkun jarðefnaeldsneytis.
Þegar þolmörk eru yfirstigin er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að „stíga til baka“. Þolmörk jarðar voru meðal annars í upphafi skilgreind til að auðvelda stjórnvöldum að átta sig á ástandi jarðarinnar og forgangsraða aðgerðum eftir ástandi hverra þolmarka fyrir sig. Til dæmis tókst stjórnvöldum með tilkomu Montreal-bókunarinnar árið 1987 að halda mannkyninu innan öruggra marka ósoneyðingar.
Í heimildamyndinni Breaking boundaries segir Johan Rockström að með róttækum aðgerðum sé hægt að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar. Gluggi tækifæranna sé opinn, en það þurfi að hafa hraðar hendur. Hann nefnir að með öflugu hringrásarhagkerfi sé hægt að snúa blaðinu við hvað varðar þolmörk loftslagsbreytinga, tap líffræðilegs fjölbreytileika, efnamengun, og loftmengun. Hringrásarhagkerfið sé lykillinn að því að minnka ágang á þolmörk jarðar og uppfylla lífsþarfir allra.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind