Skilaboðum var komið á framfæri við stærstu kröfuhafa Glitnis fyrir nokkrum vikum að fyrra tilboð þeirra um stöðugleikaframlag myndi ekki fullnægja stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Það var Seðlabanki Íslands, sem hefur það hlutverk að meta hvort slit búa föllnu bankanna hafi neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands, sem kom skilaboðunum á framfæri. Þessi samskipti áttu sér stað áður en fundarhöld stærstu kröfuhafa Glitnis og framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta hófust á ný 25. september síðastliðinn, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í morgun var tilkynnt að íslenska ríkið væri að fara að eignast annan banka, Íslandsbanka, að öllu leyti. Fyrir á ríkið Landsbankann. Eini stóri viðskiptabankinn sem verður ekki nánast að fullu í ríkiseigu að loknu slitaferli gömlu bankanna verður því Arion banki. Þetta var niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna.
Talið að skilyrðin væru uppfyllt en svo var ekki
Þegar áætlun um losun hafta var kynnt 8. júní síðastliðinn var samtímis greint frá því að framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta hefði þróað svokölluð stöðugleikaskilyrði með tilliti til greiðslujafnaðar. Þau eru þríþætt. Í fyrsta lagi þurftu slitabú föllnu bankanna að gera ráðstafanir til að draga nægilega úr neikvæðum áhriflum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum. Í öðru lagi að öðrum innlendum eignum þeirra í erlendum gjaldeyri yrði breytt í langtímafjármögnun „að því marki sem þörf krefur“. Í þriðja lagi að tryggt yrði að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði yrði endurgreidd.
Til að mæta þessum skilyrðum áttu slitabúin að greiða svokallað stöðugleikaframlag.
Viðræður milli stjórnvalda og stærstu kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, sem að mestu eru risastórir bandarískir fjárfestinga- og vogunarsjóðir, hófust með mikilli leynd í lok febrúar 2015. Sumir sjóðanna eiga kröfur á alla þrjá bankana og ýmsa aðra hagsmuni í íslensku viðskiptalífi. Þeim viðræðum lauk með tillögum sem lögð voru fram 7. og 8. júní. Í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem birt var í kjölfarið kom fram framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta teldi að þær aðgerðir sem kynntar voru í tillögum slitabúanna féllu að stöðugleikaskilyrðunum sem mótuð höfðu verið. Því ættu þær að duga til að fá undanþágu frá gjaldeyrislögum til að ljúka nauðasamningi bankanna. Sumar aðgerðanna væru þó skilyrtar og háðar frekari áreiðanleikakönnun.
Fjármála- og efnahagsráðherra gerir ekki ráð fyrir því að Arion banki lendi í fangi ríkisins líka. Hann telur það ennfremur ekki vera framtíðarlausn að íslenska ríkið eigi allt hlutafé í Íslandsbanka.
Skilaboðum komið á framfæri
Slitabúin hafa öll fengið samþykki fyrir því á kröfuhafafundum sínum að greiða stöðugleikaframlag til ríkissjóðs. Samtals á það að lágmarki að nema 334 milljörðum króna. Það gæti hækkað um allt að 50 milljarða króna ef Glitnir fengi gott verð þegar búið myndi selja Íslandsbanka.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru nauðasamningsdrög Kaupþings og gamla Landsbankans nokkuð nálægt því að mæta uppsettum stöðugleikaskilyrðum. Stóra vandamálið hefur verið Glitnir, það slitabú sem á að greiða uppistöðuna í stöðugleikaframlaginu. Og fyrir nokkrum vikum var ljóst að endurskoða þyrfti tilboð búsins.
Skilaboðum var komið á framfæri við stærstu kröfuhafa Glitnis að fyrra tilboð þeirra myndi ekki fullnægja stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Það var Seðlabanki Íslands, sem hefur það hlutverk að meta hvort slit búa föllnu bankanna hafi neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands, sem kom skilaboðunum á framfæri. Þessi samskipti áttu sér stað áður en fundarhöld stærstu kröfuhafa Glitnis og framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta hófust á ný 25. september síðastliðinn. Þær viðræður, sem stóðu yfir til 13. október, lauk með því að kröfuhafarnirbreytt tillögu sinni um stöðugleikaframlag. Samkvæmt breyttu tillögunni mun ríkið eignast 95 prósent hlut Glitnis í Íslandsbanka og þar með eiga bankann að fullu.
Hvað næst?
Það er ekki svo að íslenska ríkið sé búið að eignast Íslandsbanka. Nú er boltinn hjá Seðlabanka Íslands sem þarf að gefa grænt ljós á að nýja tilboðið uppfylli stöðugleikaskilyrðin og í framhaldinu að veita slitabúi Glitnis undanþágu frá gjaldeyrislögum til að ljúka við gerð nauðasamnings síns. Heimildir Kjarnans herma að búist sé við þeirri niðurstöðu innan viku.
Þegar hún liggur fyrir mun slitastjórn Glitnis boða til kröfuhafafundar með þriggja vikna fyrirvara, svo kröfuhafar búsins geti annars vegar samþykkt eða hafnað breytta ráðstöfun eigna og hins vegar samþykkt eða hafnað nauðasamningi. Sá fundur ætti að geta farið fram um miðjan nóvember.
Samþykki kröfuhafar Glitnis nauðsamning á fundinum mun stýrihópur um losun hafta, sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fer fyrir, þurfa að leggja blessun sína yfir hann áður en að nauðasamningurinn verður lagður fyrir dómstóla til samþykktar. Þetta þarf allt að gerast fyrir 31. desember, annars fellur 39 prósent stöðugleikaskattur á Glitni.
Bæði Kaupþing og gamli Landsbankinn þurfa að fara í gegnum sama ferli.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í bréfi til InDefence-hópsins í lok september að álagning stöðugleikaskatts hefði þann annmarka að hún meiri hættu á eftirmálum og lagalegum ágreiningi sem myndi leiða til þess að losun fjármagnshafta myndi ganga hægar en ella.
Lokatalan liggur ekki fyrir
Það er ljóst að mikill vilji er á meðal þeirra ráðamanna sem að ferlinu koma að ljúka slitum búanna með nauðasamningum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði til að mynda í bréfi til InDefence-hópsins í lok september að álagning stöðugleikaskatts hefði þann annmarka að hún meiri hættu á eftirmálum og lagalegum ágreiningi sem myndi leiða til þess að losun fjármagnshafta myndi ganga hægar en ella. Sú skoðun Más rímar við það sem Kjarninn hefur heyrt innan úr röðum kröfuhafa föllnu bankanna: ef skatturinn verður lagður á munu þeir andmæla honum fyrir dómstólum.
Það liggur ekki alveg fyrir hversu stór talan sem íslenska ríkið mun sitja eftir með verður, gangi nauðasamningarferli föllnu bankanna eftir. Það fer í raun allt eftir því hversu mikið íslenska ríkið mun fá fyrir Íslandsbanka þegar það ákveður að selja bankann.