Leitarsveitir á frönsku eyjunni Réunion í vestanverðu Indlandshafi hafa fundið meira af flugvélabraki á ströndum eyjunnar heldur en brotið úr væng Boeing 777-þotu Malaysian Airlines sem hvarf 8. mars í fyrra. Ekki er víst að nýfundið brakið tilheyri MH 370 þó staðfest hafi verið að vængbrotið hafi tilheyrt þotunni.
Réunion-eyja er undan austurströnd Madagaskar og því hinu megin í Indlandshafi frá leitarsvæðinu undan ströndum Ástralíu. Samhæfingarmiðstöð Ástralíu gaf frá sér yfirlýsingu þegar brakið fannst sem segir að sérfræðingar séu vissir um að vélin hafi farið í hafið á skilgreindu leitarsvæði, miðað við hafstrauma í Indlandshafi. Í grófum dráttum liggja þeir rangsælis í hring í hafinu, upp með strönd Ástralíu og Indónesíu, vestur fram hjá Indlandi og suður með strönd Afríku.
Hvarf MH 370 á korti
Smelltu á lituðu fletina til að lesa meira.
Leitarsvæðið er þó um 4.000 kílómetra frá Réunion. Svæðið var síðast stækkað í apríl og þá tvöfaldað í 120.000 ferkílómetra. Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, hefur sagt að leitin kosti nú þegar meira en 100 milljónir ástralskra dollara, sem nemur um það bil 100 milljörðum íslenskra króna. „Allar þær hundruð milljóna manneskja sem fljúga eiga þetta inni hjá okkur. Það er undir okkur komið að reyna að tryggja að flugferðir séu eins öruggar og hægt er, til þess þurfum við að komast til botns í þessum ömurlega harmleik,“ sagði Abbott.
Eftir að brakið fannst fyrir helgi, var það sent til Toulouse í Frakklandi til rannsóknar á herrannsóknarstofu. Frönsk yfirvöld vildu hins vegar ekki staðfesta að brakið væri úr MH 370 jafnvel þó aðeins ein Boeing 777-þota hafi farist í sögunni. Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, fullyrti þó að þarna hefðu fyrstu vísbendingarnar um þetta dularfulla hvarf fundist.
Þessi misvísandi svör og sú óvissa sem þau skilja eftir hefur reitt aðstandendur þeirra sem fórust með malasísku þotunni. „Ég hef ekki heyrt staðreyndir. Ég hef ekki heyrt neitt,“ sagði eiginmaður konu sem var um borð. „Svo ég velti fyrir mér hvort hér hafi fólk kastað sér á fyrirfram gefna niðurstöðu í kapphlaupinu um skýringar.“
Ástæða þess að frönsk yfirvöld vilja ekki taka af allan vafa um að hér sé um brak úr MH 370 að ræða er að svo virðist sem að ekkert sýnilegt raðnúmer sé á brakinu. Það kemur hins vegar heim og saman við þjónustubækur Malaysian Airlines, til þess að sannreyna þetta þarf hins vegar frekari rannsóknir.
Þá er allt eins mögulegt að brakið sé úr annari flugvél, enda enginn skortur á flugvélabraki á floti í heimshöfunum. BBC greinir frá því að þó nokkrar þotur hafi farist í Indlandshafi og í nágreni Réunion síðustu tvo áratugi. Tvær stórar þotur hafa farist á þessu svæði; Yemensk þota af gerðinni Airbus 310 fórst 2009 og eþjópísk Boeing 767-þota fórs árið 1996.
Ástralskir leitarflokkar hafa kempt hafflötinn vestan Ástralíu í leit að braki úr vélinni. Sú leit hefur engan árangur borið.
Verður ráðgátan leyst?
Brakið úr vélinni sem fannst er svokallað vængbarð sem fest er aftan á væng þotu. Brakið sem hefur síðan fundist eru minni hlutir eins og gluggahlífar og sætispúðar en strendur eyjunnar Réunion eru nú kembdar eftir frekari vísbendingum.
Haffræðingar hafa reiknað líkön af því hvar brak vélarinnar ætti að hafa lent. Þar spila vindar, hafstraumar og öldur saman. David Griffin, haffræðingur hjá ástralskri rannsóknarstofnun, segir strendur Madagaskar hafa verið líklegasta lendingarstað flugvélabraksins. „Réunion er ekki svo langt frá því, séu hlutirnir settir í samhengi,“ sagði hann.
Dæmi eru um bát sem hvarf undan vesturströnd Ástralíu í fyrra og fannst átta mánuðum síðar, nærri heill vestan Madagaskar. Svo leitarsveitir eru nú nokkuð sannfærðar um að þær séu að leita á réttum stað, með sónartækjum, á skilgreinda leitarsvæðinu. Þar telja þeir að skrokkur vélarinnar sé.
Talið er að ýmiskonar brak úr vélinni sé á floti á risastóru svæði í Indlandshafi. Ástæðan fyrir því að vængbarðið er komið svo lang er vegna þess að það er holt að innan, svo það flýtur vel. Staðsetning þessa braks gæti því hjálpað til við að áætla nánari brotlendingarstaðsetningu.
Sónartækni er notað til að kanna hafsbotninn í leit að skrokki vélarinnar sem enn er talið að sé á fyrirfram skilgreindu leitarsvæði, þrátt fyrir fund braks úr vélinni í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.
Það eitt er hins vegar mikill vandi. „Ég hef rakið ferðir braks á hafi og fundið staðsetningu skipsflaka, en þá hefur aðeins liðið einn til tveir dagar,“ segir David Mearns, skipsskaðafræðingur, og bendir á að nú séu nærri 16 mánuðir síðan MH 370 fórst.
Ljóst er að ekki verður komist til botns í því hvað fór úrskeiðis þegar flug MH 370 hvarf fyrr en flugritar vélarinnar finnast. Stöku brak úr þotunni mun ekki leysa neinar ráðgátur, segir Greg Waldon, hjá flugfréttavefnum Flightglobal, í samtali við BBC.
Eftir að flugvélin og allir um borð hurfu sporlaust fyrir nærri einu og hálfu ári síðan spruttu margar kenningar um hvað gerðist. Sé brakið sannarlega úr þotu Malaysian Airlines eru margar þeirra ólíklegustu úr sögunni. Kjarninn tók saman helstu kenningarnar um hvarf vélarinnar stuttu eftir að hún hvarf.
Malasian Airlines hefur misst tvær af vélum sínum með fullfermi farþega síðustu 16 mánuði. MH 370 hvarf sporlaust 8. mars 2014 og MH 17 var skotin niður yfir Donetsk í Úkraínu 17. júlí 2014. 537 fórust með þessum tveimur vélum. Í júlí 2015 var nýr framkvæmdastjóri ráðinn til flugfélagsins og hefur hann sagt félagið „tæknilega gjaldþrota“ og að árið 2017 verði allt merki fyrirtækisins endurskoðað.