Samsett mynd

Meira þurfi til en papparör til þess að bjarga jörðinni

Skiptar skoðanir eru á papparörunum sem tekið hafa við af plaströrum á drykkjarfernum sem og á pappa- og tréskeiðum sem komið hafa í stað plastskeiða. Svo virðist sem fólk skiptist í tvo hópa í umræðunni, annars vegar er hópur sem saknar plastsins og hins vegar er hópur sem fagnar breytingunni vegna jákvæðra umhverfislegra áhrifa. Að mati sölustjóra MS liggur vandamálið í því að plast skili sér ekki að öllu leyti í endurvinnslu. Umhverfisstjórnunarfræðingur segir breytinguna ekki raska núverandi neyslumynstri að neinu ráði.

Ekki eru allir á eitt sáttir með ný papp­arör sem komið hafa í stað plast­röra á drykkj­ar­fernum og arf­takar plast­skeiða í skyr­dósum og í ísbúðum hafa einnig vakið mis­mikla lukku upp á síðkast­ið. Ástæðan fyrir þess­ari nýbreytni er ný Evr­óputil­skipun sem inn­leidd var með breyt­ingum á lögum sem tóku gildi í byrjun júlí þar sem kveðið er á um bann við ýmiss konar einnota plast­vör­um.

Með laga­breyt­ing­unni er lagt bann við því að til­teknar plast­vörur séu settar á mark­að, vörur á borð við einnota hnífa­pör úr plasti, diska úr plasti, hrærip­inna úr plasti fyrir drykkj­ar­vörur og sogrör úr plasti, nema þau falli undir lög um lækn­inga­tæki. Bann við að slíkar vörur séu settar á markað þýðir að fram­leiðsla á slíkum vörum og inn­flutn­ingur á þeim er bann­að­ur. Versl­unum verður því enn heim­ilt að selja sínar birgðir af þessum vörum en ljóst er að þegar þær birgðir eru upp­urnar þá verða þessar vörur ekki í boði úti í búð.

Auglýsing

Það eru ekki bara þessar einnota vörur sem munu hverfa úr hillum búð­anna. Þau áhöld sem fylgja mat­vælum sem við kaupum úti í búð taka breyt­ing­um. Líkt og áður segir hverfa plast­rörin af drykkj­ar­fernum og papp­arör koma í stað­inn. Þá víkja plast­skeiðar fyrir pappa- og tré­skeiðum í skyr­dós­um. Það sama er uppi á ten­ingnum í ísbúðum og á stöðum sem selja safa og svokölluð boozt þar sem papp­inn kemur í stað plast­s­ins, svo dæmi séu tek­in.

Breyt­ing­arnar fara mis­vel í fólk

Í Face­book-hópnum Mat­ar­tips! sem telur hátt í 50 þús­und með­limi hefur fólk skipst á skoð­unum um rörin frá því að þau komu fram á sjón­ar­sviðið og svo virð­ist sem fólk skipt­ist í tvo hópa í við­brögðum sínum við breyt­ing­un­um. Ann­ars vegar þau sem sakna plast­s­ins og segja nýju áhöldin alls ekki jafn góð og þau gömlu. Fólk kvartar yfir því að nýju rörin henti ekki vökva jafn vel og plast­rör­in, þau mýk­ist mikið upp og að bragð úr rör­unum skili sér í drykk­ina, þá henti þau alls ekki til þess að drekka þykk­ari drykki á borð við mjólk­ur­hrist­ing.

Skjáskot af Facebook-hópnum Matartips!
Skjáskot

Svo eru aðrir sem fagna breyt­ing­unum vegna þess að þær muni hafa jákvæð umhverf­is­leg áhrif, þær dragi úr óþarfa plast­notkun og fólk í þessum Face­book-hópi bendir gjarnan á að ekki sé nauð­syn­legt að nota rör til þess að drekka drykki á borð við Kókó­mjólk og Svala.

Áhug­inn á þessum breyt­ingum virð­ist vera mik­ill, fjöldi athuga­semda við færslur í hópnum sem fjalla um þessar breyt­ingar skipta iðu­lega tug­um, ef ekki hund­ruð­um. Inn á milli má svo finna húmorista sem birta myndir af ónot­uðum plast­skeiðum og plast­rörum með orð­un­um: „Selst hæst­bjóð­anda!“

Meðal þeirra sem lagt hafa orð í belg í umræð­unni um papp­arörin er fjöl­miðla­mað­ur­inn Atli Fannar Bjarka­son en hann tók þau fyrir á Twitt­er-­síðu sinni í vik­unni. Í vin­sælli færslu sagði Atli Fannar breyt­ing­una gera lítið í stóra sam­heng­inu og að verið væri að færa ábyrgð­ina á ham­fara­hlýnun til fólks­ins í stað stór­fyr­ir­tækja.

Við­búið að mis­vel yrði tekið í breyt­ing­arnar

Meðal þess sem er und­an­skilið banni eru mat­ar­í­lát sem ætluð eru undir mat­væli til neyslu þar sem mat­ar­ins er alla jafna neytt beint úr ílát­inu og hann til­bú­inn til neyslu strax. Þetta á til að mynda við um jógúrt- og skyr­dósir og því verða þær enn um sinn úr plasti, þrátt fyrir að plast­skeið­inni verði skipt út fyrir pappa­skeið.

Vinna stendur yfir hjá Mjólk­ur­sam­söl­unni við það að skipta bæði skeiðum og rörum úr plasti út fyrir pappa­á­höld, að sögn Aðal­steins H. Magn­ús­sonar sölu­stjóra. „Við erum að klára gamlar fram­leiðslur og þetta er í raun­inni að ger­ast þessa dag­ana og vik­urn­ar. Þannig að það fara í alla nýja fram­leiðslu hjá okkur papp­arör á Kókó­mjólk, Hleðslu og Nær­ingu og það allt sam­an. Síðan erum við með þessar pappa­skeiðar í skyr­inu, þannig að þetta er bara í vinnslu.“

Auglýsing

Aðal­steinn segir að fyrir fram hafi verið vitað að breyt­ing­arnar ættu eftir falla fólki mis­jafn­lega vel. Þau pappa­á­höld sem nú fylgja vörum MS voru ein­fald­lega bestu lausn­irnar sem í boði voru. „Við erum líka alveg viss um það að með tím­anum þá munu lausnir án plasts verða betri. Menn munu örugg­lega halda áfram að þróa papp­arör þannig að þau verði enn þá betri en þau eru í dag og það verður örugg­lega þróun í ein­hvers konar pappa­skeiðum sem eru betri,“ segir hann.

Spurður að því hvort fyr­ir­tækið sé að leita ein­hverra ann­arra leiða til þess að minnka plast­notkun segir Aðal­steinn að þau hvetji fólk til þess að koma plast­inu í end­ur­vinnslu. „Það er í raun­inni alltaf aðal­at­riðið ef að allir gætu hirt um plastið og sett það í rétta hringrás þá væri ekk­ert vanda­mál. En við erum auð­vitað alltaf að skoða með okkar birgjum alls konar lausnir og okkur er eng­inn akkur í því að vera með plast­um­búðir en hingað til hafa þær verið mjög góður mið­ill til þess að geyma mat og tryggja end­ing­ar­tíma og svo­leið­is.“

Plastskeiðarnar eru á leið úr skyrdósunum.
Skyriceland.com

Aðal­steinn gat hvorki full­yrt um það hversu mikil minnkun yrði á notkun plasts hjá fyr­ir­tæk­inu eftir breyt­ing­arn­ar, né hversu mikið plast fyr­ir­tækið not­aði á hverju ári. Hann ítrek­aði að lokum mik­il­vægi þess að end­ur­vinna efn­ið. „Plast sem slíkt er ekki endi­lega slæmt, heldur að fólk hendi því út í nátt­úr­una. Umgengni fólks um plastið er ekki til fyr­ir­myndar oft og tíð­u­m.“

Breyt­ing sem er ekki til þess fallin að breyta neyslu­mynstr­inu

Kjarn­inn ræddi einnig við Stefán Gísla­son umhverf­is­stjórn­un­ar­fræð­ing um þessa nýju breyt­ingu sem mun minnka fram­boð á einnota vörum úr plasti. Hann telur breyt­ing­una ekki skipta mikla máli í hinu stóra sam­hengi. „Þetta er sýni­legt, þetta er eitt­hvað sem fólk skilur og raskar ekk­ert rosa­lega mikið neyslu­mynstri,“ segir Stef­án. „Fólk sættir sig kannski við þetta og þetta lítur fyrir að vera rosa merki­legt en ég held að þetta skili okkur ekk­ert langt fram á veg­inn.“

Stefán Gíslason er umhverfisstjórnunarfræðingur og stofnandi Environice, fyrirtækis sem veitir ráðgjöf um umhverfismál og sjálfbæra þróun.

Spurður að því hvort pappi í umbúða­notkun sé mun betri fyrir umhverfið en plast segir Stefán það skipta veru­legu máli hvernig það sé reikn­að. Hann bendir á að ef horft sé á málið út frá lofts­lags­málum þá geti umbúðir og áhöld úr pappa þurft að veri efn­is­meiri en sam­bæri­legir hlutir úr plasti og þar af leið­andi þyngri og þá tap­ist eitt­hvað af ávinn­ingnum í fram­leiðslu og flutn­ingi.

„Það er pínu vin­sælt að ráð­ast á plastið því við erum að missa þetta út um allt og þetta liggur alls staðar og rekur á fjörur og endar í sjónum og er ein­hvers staðar á flæk­ingi í þús­und ár því þetta brotnar ekki nið­ur. Ef við gætum lokað fyrir þann straum að tapa þessu út í nátt­úr­una, þá horfir málið öðru­vísi við,“ segir Stefán en kostur pappans er sá að hann brotnar niður í nátt­úr­unni ólíkt plast­inu.

Auglýsing

„Ef þetta væri með­höndlað eins og sið­uðu fólki bæri að gera og þetta færi þá í brennslu til orku­vinnslu þá er það bara milli­stig fyrir olí­una sem ann­ars væri brennt bein­t,“ segir Stefán en plast er búið til úr olíu­af­urð­um. „Svo þetta er þyngdar sinnar virði í olíu þegar það er brennt.“

Þessi breyt­ing er ekki til þess fallin að breyta neyslu­mynstri fólks, nema að litlu leyti, sem er að mati Stef­áns stóra vanda­málið þegar umhverf­is­mál eru ann­ars veg­ar. „Með því að skipta út ein­hverju einu efni fyrir annað sem að er erfitt að full­yrða, án frek­ari skoð­unar og án þess að vita for­send­urn­ar, að það sé betra en það gamla þá ertu bara að auð­velda fólki að halda áfram í sams konar neyslu­mynstri sem er bara einnota neyslu­menn­ing.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar