Háskólasamfélagið í Marokkó er nú undirlagt af ásökunum kvenkynsnemenda um kynferðislega misnotkun kennara. Sögur þeirra hafa fyllt samfélagsmiðla í anda #metoo byltingarinnar. Þetta eru mikil tímamót því í hinu íhaldssama Norður-Afríkuríki hafa fórnarlömb kynferðisbrota yfirleitt ekki greint frá.
„Ég var rekin úr háskóla fyrir ári síðan vegna ásakana um að hafa svindlað á prófi,“ hefur AFP-fréttastofan eftir hinni 24 ára gömlu Nadiu. „Sannleikurinn var hins vegar sá að ég hafði neitað að láta undan kynferðislegri kúgun eins kennara míns.“
Einn verið dæmdur
Nadia hefur aftur fengið skólavist í Hassan I háskólanum í Settat í námunda við borgina Casablanca en fleiri konur hafa nú stigið fram og saka fimm kennara skólans um sambærilegar þvinganir.
Einn þeirra hefur þegar verið ákærður og dæmdur fyrir brot sín. Það gerðist fyrr í þessum mánuði en brotin fólust í því að krefja konur úr nemendahópnum um kynlíf gegn því að fá góðar einkunnir. Þetta er fyrsta dómsmál sinnar tegundar í landinu. Hinir fjórir kennararnir hafa einnig verið ákærðir og hefjast réttarhöld yfir þeim á næstu dögum.
Nadia segir að ekki hafi verið hlustað á sig þegar hún greindi frá kúgununum. Hún er í raun ekki fyrsta konan til að greina frá. Á síðustu árum hafa minni fjölmiðlar í landinu nokkrum sinnum fjallað um svipaðar ásakanir en það hefur engu skilað.
En samfélagsmiðlarnir hafa breytt öllu og gefið konunum rödd. Þegar sögur fjölda þeirra fóru að flæða um miðlana fór almenningur – og yfirvöld – að átta sig á hversu víðfeðmt ofbeldið var í háskólunum.
Skjáskotið afdrifaríka
Þetta hófst allt fyrir nokkru er skjáskot af samskiptum kvenkyns nemanda og kennara hennar voru birt á samfélagsmiðlum. Þar krafðist kennarinn þess að konan hefði við hann kynmök. Það var þá sem Nadia ákvað að segja frá. Áður hafði hún ekki ímyndað sér að opinberun á reynslu hennar myndi hafa nokkur áhrif.
En nú var allt breytt. „Ég vildi segja frá og um leið hvetja önnur fórnarlömb til að gera slíkt hið sama.“
Aktívistar í Marokkó stofnuðu Facebook-síðu og hvöttu konur til að segja frá ofbeldi gegn sér, hvort sem það væri undir nafni eða ekki. „Um leið og við ýttum þessu úr vör skall bylgja frásagna á okkur,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Söruh Benmoussa, einum forsprakka hreyfingarinnar.
„Ég bið ykkur að stöðva þá kynferðislegu misnotkun og þær ömurlegu og óásættanlegu aðferðir sem skrímsli dulbúin sem leiðbeinendur beita,“ skrifaði ein konan sem kom ekki fram undir nafni en nafngreindi skólann. Fleiri nemendur við skólann greindu þá frá sambærilegri reynslu sinni. Þetta var til þess að einn kennarinn við skólann var rekinn. Fleiri kennurum var einnig sagt upp, kennurum sem höfðu vitað af brotunum en ekkert aðhafst.
Sumir skólarnir hafa ekki brugðist við ásökunum og hefur menntamálaráðherra Marokkó, Abdelatif Miraoui, sagt að hvorki ofbeldi né áreitni eigi að viðgangast innan veggja háskólanna.
Aðrir skólar hafa sett á laggirnar viðbragðsteymi og gert nemendum kleift að segja frá reynslu sinni og koma málunum í farveg.
Ný lög en fáar kæra
„Það er lykilatriði að styðja fórnarlömb og hjálpa þeim við að leita til dómskerfisins,“ segir mannréttindalögfræðingurinn Karima Nadir. Það hefur vissulega ekki alltaf verið auðvelt að kæra kynferðisbrot í Marokkó. Fyrst árið 2018 var refsilögunum breytt og viðurlögum um fangelsisvist fyrir „áreitni og kynferðislega misnotkun“ bætt inn. Nadir segir að það hafi vissulega verið framför en enn séu fáar konur sem kæri. Því vilji hún breyta.
„Kynlíf gegn einkunnum“ er ekki bundið við Marokkó. Árið 2019 gerði BBC heimildarmynd um það hvernig kennarar við háskóla í Vestur-Afríku, m.a. Nígeríu, misnotuðu aðstöðu sína gagnvart kvenkyns nemendum.
„Ég er 28 ára og hef aldrei lokið námi og það er af einni ástæðu,“ segir Kiki Mordi sem gerði heimildarmyndina. „Það var ekki af því að ég væri ekki klár – ég var framúrskarandi nemandi. En ég gat ekki einu sinni lokið námi. Allt út af kynferðislegri áreitni.“
Mordi greindi svo frá því að einn af kennurunum hennar hafi neitað að gefa henni einkunn á prófi sem hún tók í tvær annir af því að hún hefði neitað að láta undan þvingunum hans um kynlíf. Hún var þá í læknanámi og sagði skólayfirvöldum frá málinu en viðbrögðin voru engin. „Þetta er rán. Ef það er einhver staður á jörðu sem stúlkur eiga að búa við öryggi er það í skólum.“
Mordi og teymi hennar notuðu m.a. faldar myndavélar við gerð myndarinnar og náðu upptökum af því þegar kennarar í virtum háskólum í bæði Gana og Nígeríu, áreittu konur og reyndu að kúga þær til kynlífs.
Í kjölfarið á frumsýningu myndarinnar voru þeir kennarar sem náðust á upptökur reknir frá skólunum. Þá tók Nígeríuþing málið fyrir og færði í lög refsingar kennara misnoti þeir og áreiti nemendur sína.