Námslánaskuldir Bandaríkjamanna hafa þrefaldast á undanförnum áratug og eru nú 1.200 milljarðar Bandaríkjadala (1,2 trillion), eða sem nemur tæplega 160 þúsund milljörðum króna. Upphæðin er ógnarhá, hvernig sem á hana er horft, og hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum miklar áhyggjur af því hvernig þær hafa þróast.
Það sem setti þær í miðpunkt umræðunnar um það bil sem árlegar útskriftir úr bandarískum háskólum fóru fram, í maí og júní, var sú mikla athygli sem málið fékk hjá Hillary Clinton, sem berst nú fyrir því að fá útnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi flokksins. Hún kynnti þá áætlun sína um minnka skuldirnar um 350 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega þrjátíu prósent. Með því vildi hún augljóslega, að mati fréttskýrenda hér í Bandaríkjunum, ná vel til ungra kjósenda og háskólanema.
Niðurgreiða lánin með sköttum á ríkasta fólkið
„Enginn ætti að þurfa að taka lán fyrir námi sínu í háskóla á vegum hins opinbera [...] Og öll þau sem skulda námslán ættu að geta fjármagnað þau á lægri vöxtum,“ sagði Hillary Clinton þegar hún ræddi um áætlun sína við nemendur í Exeter High School í New Hampshire í síðustu viku. Samkvæmt áætluninni sem hún hefur kynnt verður horft til þess að fólk geti endurfjármagnað námslánin með nýjum lánaflokki sem er með niðurgreiddum vöxtum frá ríkinu. Sú niðurgreiðsla verður fjármögnuð með sérstökum sköttum sem lagðir verða á ríkasta fólkið í Bandaríkjunum og fyrirtæki með sterkasta efnahaginn. Hugmyndir eins og þessar eru nú þegar til umræðu í bandaríska þinginu og hafa bæði Demókratar og Repúblikanar lagt til lausnir eins og þær sem Hillary Clinton horfir til, það er að ríkið nálgist málaflokkinn í gegnum niðurgreidda vexti, endurfjármögnun á lánum og síðan að búa þannig um hnútana að opinberir skólar séu þannig uppbyggðir að ekki þurfi að koma til þess að nemendur takir himinhá lán fyrir kostnaði.
Hér má sjá mynd sem birtist í fagtímaritinu The Economist í síðustu viku. Hún sýnir þróun námslánaskulda í Bandaríkjunum, en þær hafa þrefaldast á árunum 2005 til dagsins í dag. Mynd: The Economist.
Minna er meira
Eitt af því sem komið hefur í ljós þegar þróun námslánaskuldanna hefur verið greind, er að líkur á vanskilum aukast eftir því sem lánsupphæðin er lægri. Í umfjöllun The Economist í gær, segir að ástæðan fyrir þessu séu almennt sú að þau sem taki hæstu námslánin séu yfirleitt með stöðugri og betri tekjur og ráði því betur við lánin. Þau sem lægri lán taki lendi oft fyrr í vandræðum, vegna vandræða við að afla tekna að námi loknu.
Námslánaskuldir einnig stórt mál hér á landi
Líkt og í Bandaríkjunum hafa námslánaskuldir vaxið hratt hér á landi þó hlutfallslega sé aukningin töluvert meiri í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í ársskýrslu LÍN fyrir síðasta ár, þá hefur vöxturinn á heildarlánum verið frá því að vera 135 milljarðar árið 2009 í 213 milljarðar í lok árs í fyrra. Bókfært virði útlána er hins vegar 171,4 milljarðar króna og núvirði 132,9 milljarðar króna eða 62 prósent af nafnvirði lánasafnsins. Útlán á nafnvirði hafa því aukist um 82 prósent frá árinu 2008 til 2014 eða úr 116,9 milljörðum í 213,1 milljarð.
Þessi mikli vöxtur skýrist ekki síst af því að mikil fjölgun varð á námsmönnum við háskóla landsins eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og þrenginga í efnahagslífinu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur talað fyrir því að nauðsynlegt sé endurskoða hlutverk LÍN.
Námsmönnum á lánum hjá LÍN hefur fjölgað um 21 prósent síðastliðin tíu ár og þó meira á Íslandi en erlendis. Veruleg aukning varð á skólaárunum 2008-2010 í kjölfar kreppunnar en frá árinu 2012 hefur námsmönnum hins vegar farið fækkandi, að því er fram kemur í ársskýrslu LÍN. Á skólaárinu 2013-2014 voru 11.768 námsmenn á námslánum. Mesta fækkunin er í Danmörku en á hinum Norðurlöndunum er fjölgun, einkum í Svíþjóð. Ein ástæðan fyrir fækkun íslenskra nemenda á námslánum hjá LÍN í Danmörku er vegna SU-styrkja frá danska ríkinu. Á síðasta skólaári voru um 900 íslenskir námsmenn á slíkum styrkjum.
Ólík staða en vaxandi áhyggjur
Þó staðan hvað námsmannaskuldir í Bandaríkjunum og Íslandi sé ólík þá er hún lík að því leyti að stjórnmálamenn eru uggandi yfir því hvernig best sé að haga námslánahlutverkinu til framtíðar litið, og stuðla að skynsömum fjárhagslegum stuðningi við háskólanám fólks. Það segir sitt um hversu ofarlega þetta mál er í forgangsröðinni í Bandaríkjunum að Hillary Clinton skuli setja það á oddinn í kosningabaráttunni, en það verður að koma í ljós hvort hið sama gerist hér á landi fyrir kosningarnar 2017.
✔️ Lower interest rates ✔️ Never pay more than you can afford Hillary’s plan will relieve the burden of student debt: http://t.co/A4pWb3fOf4
— Hillary Clinton (@HillaryClinton) August 15, 2015