Kepler-sjónaukinn hefur komið auga á plánetu í fjarlægu sólkerfi sem er einna líkust Jörðinni af þeim plánetum sem NASA hefur þegar kannað. Plánetan sem kölluð er Kepler-452b er á sporbraut um sól í lífbelti þess sólkerfis, þar sem hvorki er of heitt né of kalt til þess að vatn sé á fljótandi formi. Með öðrum orðum, uppfylli forsendur lífs eins og þekkist á Jörðinni.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir of snemmt að draga ályktanir um þennan fjarlæga heim og bendir á að það tekur ríflega 24 milljónir ára fyrir okkur að ferðast þangað á þeim hraða sem við ráðum við í dag.
Fjallað var um Kepler-sjónaukann og uppgvötanir sem vísindamenn hafa gert í gegnum hann í Hlaðvarpi Kjarnans í febrúar. Smelltu hér til að hlusta á spjall við Sævar Helga um fjarlæga lífvænlega heima.
Kepler-452b svipar nokkuð til Jarðarinnar. Fyrir það fyrsta eru ytri aðstæður þannig að þær svipa nokkuð til okkar heimaplánetu; Árið er 385 dagar og sólin þar svipar til okkar. Vísindamenn hafa getið sér til um að nýja plánetan sé líka úr grjóti, það er að hún hafi fast yfirborð.
Það er hins vegar hættulegt að draga of miklar ályktanir um hvernig þessi heimur lítur út, enda eru lykilstærðir um plánetuna ekki vitaðar, til dæmis eins og massi hennar. Vitum við ekki massan getum við ekki vitað úr hverju hnötturinn er og þar fram eftir götunum.
Samkvæmt tilkynningu frá NASA er Kepler-425b 60 prósent stærri og nokkuð eldri en Jörðin. Áætlað er að hún hafi fimm sinnum meiri massa en Jörðin. Stæði maður á yfirborði Kepler-452b væri maður helmingi þyngri en á Jörðinni. Samt sem áður er þetta minnsta plánetan sem fundist hefur í lífbeltum annarra sóla hingað til.
Sævar Helgi bendir á á Facebook að Kepler-452b geti allt eins verið líkari Neptúnusi en Jörðinni. „Annars er ég engan veginn sannfærður um að þessi pláneta líkist jörðinni okkar jafn mikið og látið er í veðri vaka,“ skrifar hann.
Kepler-sjónaukinn er á sporbraut um sólina okkar nærri Jörðinni og er beint að ákveðnum bletti í Vetrarbrautinni þar sem vísindamenn telja að hægt sé að koma auga á plánetur líkar Jörðinni. Helsta verkefni Kepler-sjónaukans síðan hann var sendur á loft árið 2009 hefur einmitt verið að finna lífvænlegar plánetur í fjarlægum sólkerfum.
Á þeim hraða sem New Horizons-geimfarið, sem nýverið kannaði yfirborð Plútó eftir níu ára ferðalag frá jörðu, tæki það geimfar frá Jörðinni 25,8 milljónir ára að komast til Kepler-452b. „Pössum Jörðina okkar. Hún er einstök,“ skrifar Sævar Helgi.
Það tæki ríflega 24 milljónir ára fyrir okkur að ferðast til Kepler 452b á þeim hraða sem við ráðum við í dag. Pössum Jö...Posted by Sævar Helgi Bragason on 23. júlí 2015