Ólögleg viðskipti grafa undan loftslagsávinningi
F-gös eru manngerðar gróðurhúsalofttegundir sem hafa mikinn hnatthlýnunarmátt. Evrópusambandið hefur um árabil unnið að útfösun á þessum efnum sem einna helst eru notuð sem kælimiðlar. Í kjölfarið hefur verð á F-gösum hækkað sem ásamt ónógu eftirliti hefur leitt til svartamarkaðsviðskipta með F-gös. Loftslagsáhrif þessara viðskipta eru talin jafngilda útblæstri 6,5 milljón bíla á hverju ári.
F-gös, eða flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, eru manngerðar gastegundir sem framleiddar hafa verið undanfarna áratugi til notkunar í margvíslegum iðnaði og vörum. Langstærsti hluti F-gasa sem er í umferð á Íslandi er notaður sem kælimiðill, svo sem kælikerfi í skipum, stórverslunum, veitingastöðum og til kælingar tæknirýma. Einnig finnast þessi efni í loftræsingum, varmadælum, frauðplasti og úðabrúsum. Þessar gastegundir eru gríðarlega öflugar gróðurhúsalofttegundir en þrátt fyrir það hefur lítið farið fyrir áhrifum þessara efna í loftslagsumræðunni.
F-gös voru tekin í notkun á sínum tíma til að bregðast við aðkallandi vandamáli - eyðingu ósonlagsins. Árið 1987 samþykktu þjóðir heims Montreal-bókunina sem snerist um að vernda ósonlagið með því að hætta notkun ósoneyðandi efna t.d. freons. Með því að banna freon og önnur ósoneyðandi efni tókst heimsbyggðinni að stöðva eyðingu ósonlagsins og er þetta talinn árangursríkasti alþjóðasamningurinn sem gerður hefur verið á sviði umhverfismála. Þessum góða árangri má þakka F-gösunum sem komu í stað ósoneyðandi efnana. F-gösin eru þó ekki gallalaus og stuðla að öðru ekki síður flóknara máli, þ.e. loftslagbreytingum.
Öflugari gróðurhúsalofttegundir en CO₂
F-gös eru, eins og áður segir, mörg hver öflugar gróðurhúsalofttegundir og hafa stórkostlegan hnatthlýnunarmátt. Um er að ræða fjölbreyttan gasahóp og eru efnin misskaðleg en skaðlegustu F-gösin geta verið allt að 23 þúsund sinnum öflugri gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur.
Árið 2014 samþykkti Evrópusambandið tilskipun um að draga úr losun á F-gösum um 60% fyrir árið 2030, meðal annars með því að banna notkun F-gasa í ákveðinn búnað og vörur og skerða heildarmagn F-gasa sem sett eru á markað. Árið 2016 var síðan Kigali-viðbótin við Montreal-bókunina samþykkt en með henni er gert ráð fyrir því að framleiðsla og notkun F-gasa dragist saman um 80% til ársins 2050. Ef ríki heims framfylgja Kigali-viðbótinni er talið að hægt sé að koma í veg fyrir allt að hálfrar gráðu hlýnun á þessari öld og spilar útfösun F-gasa því stórt hlutverk í því að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðu.
Umhverfisrannsóknastofnunin EIA (e. Environmental Investigation Agency) gaf út skýrslu síðastliðið sumar sem bendir til þess að svartamarkaðsviðskipti á kælimiðlum í Evrópu grafi nú undan slíkum loftslagsávinningi.
Stærsti umhverfisglæpur Evrópu
Eftir að Evrópusambandið hóf útfösunartímabilið á F-gösum hefur verðið á vetnisflúorkolefnum (HFC), ákveðinni tegund F-gasa sem er að mestu leyti notuð sem kælimiðlar, stóraukist. Með hækkandi verði, minna framboði og veiku eftirliti hafa glæpasamtök séð sér leik á borði og hafa svartamarkaðsviðskipti á kælimiðlum blómstrað innan Evrópu undanfarin ár.
EIA telur umfang þessara ólöglegu viðskipta vera umtalsverða. Verulegt misræmi er á milli tilkynninga um útflutning HFC-efna frá Kína og tilkynninga um innflutning á HFC-efnum til Evrópu. Það gefur til kynna að mun meira af þessum efnum séu að koma inn í álfuna en heimild er fyrir. Samkvæmt EIA leiða viðskiptin sem eiga sér stað á svartamarkaðnum til þess að þriðjungi meira af HFC-efnum er í umferð en heimild er fyrir innan Evrópusambandsins.
Ferðalag kælimiðlana
HFC-efnin eru að mestu leyti framleidd í Kína og komast inn á evrópskan markað í gegnum m.a. Rússland, Tyrkland og Úkraínu. Rúmenía virðist síðan vera vinsæll áfangastaður fyrir efnin sökum þess hve auðvelt er að koma þeim í gegnum landamærin.
Starfsmenn EIA fóru til Rúmeníu til að rannsaka þessi ólöglegu viðskipti og áttu ekki í vandræðum með að finna einstaklinga sem tilbúnir voru að brjóta lög til að útvega þeim HFC-efni. Efnunum hafði verið smyglað til Rúmeníu, oft í einnota ílátum sem eru ólögleg í Evrópusambandinu. Frá Rúmeníu er kælimiðlunum síðan smyglað um alla Evrópu, m.a. til Belgíu, Ítalíu, Spánar og Englands.
Clare Perry, leiðtogi loftslagsherferða hjá EIA, segir tímann til að takast á við loftslagsbreytingar á þrotum og því megi mannkynið ekki við mistökum sem þessum. „Stærðargráða ólöglegra viðskipta á vetnisflúorkolefnum innan Evrópusambandsins ætti að hringja viðvörunarbjöllum - þetta er stærsti umhverfisglæpurinins sem enginn hefur heyrt um.“
Perry segir einnig að ólögleg viðskipti á HFC-efnum hafi hingað til ekki verið forgangsatriði hjá yfirvöldum og séu viðurlögin við slíkum glæpum smávægileg samanborið við hagnaðinn af því að fremja glæpinn.
Til að meta umfang vandans sendi EIA spurningalista til breiðs hóps af fólki sem starfar m.a. með kælimiðla og loftræstingar. Af þeim sem tóku þátt í könnuninni sögðust 83% vita um eða gruna ólöglega HFC notkun og 78% sögðust hafa séð eða verið boðið kælimiðla í einnota ílátum. Á sama tíma sögðust fáir vita til þess að ríkisstjórnin í þeirra landi væri að gera eitthvað til að taka á ólöglegum viðskiptum á HFC-efnum.
Engin mál um smygl komið upp á Íslandi
Áætlað er að um 7% af losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda komi frá F-gösum, en það er sambærilegt allri losun frá úrgangi á Íslandi. Í dag eru til umhverfisvænni staðgöngukostir sem ættu í flestum tilfellum að geta komið í stað kerfa sem krefjast notkunar F-gasa.
Ísak Sigurjón Bragason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að hingað til hafi engin mál um smygl á F-gösum hafi komið upp á Íslandi svo staðfest sé. Það sé þó ekki hægt að fullyrða með vissu að smygl eigi sér ekki stað. Hann segir að hið umfangsmikla smygl inn í Evrópu þrífist að hluta til á forsendum þess að ekki er athugað við hvern flutning milli landa hvort viðkomandi sending eigi sér samsvörun í evrópsku kvótunum. Hér á landi hafi verið reynt að koma í veg fyrir smygl með því að gera kröfu um að innflutningsheimildir séu staðreyndar áður en sendingar eru afgreiddar úr tolli.
„Í því njótum við þess ef til vill líka að vera eyja. Það er hins vegar til að mynda hægt að gera sér í hugarlund að smygl gæti átt sér stað milli skipa úti á rúmsjó fjarri eftirlitsyfirvöldum. Við höfum hins vegar ekki séð nein sönnunargögn þess að slíkt eigi sér stað,“ segir Ísak.
Ísak bendir á að Ísland sé ekki hluti af evrópska kvótakerfinu heldur hafi verið sett á fót kvótakerfi hér á landi sem byggir á ákvæðum Montreal-bókunarinnar. Hér á landi fer eftirlitið með F-gösum fram þannig að innflutningur er vaktaður af Umhverfisstofnun með fulltingi Tollstjóra. Fyrir hverja sendingu þurfa innflytjendur að fá staðfestingu Umhverfisstofnunar á að það magn vetnisflúorkolefna sem þeir hyggjast flytja inn rúmist innan þeirra innflutningsheimilda sem þeim hefur verið úthlutað fyrir árið, áður en hún fæst afgreidd úr tolli.
Að sögn Ísaks er eftirlitið á Íslandi ólíkt því sem gerist í mörgum öðrum löndum Evrópu þar sem ekki er kannað hvort heimildir liggi fyrir innflutningi áður en sendingum er hleypt í gegn. Hann bætir við að stundum séu gerðar handahófskenndar skoðanir á sendingum hér á landi til að sannreyna að innihaldið sé í samræmi við gögnin sem þeim fylgja.
Ísak bendir á að ef einhver hefur upplýsingar um eitthvað misjafnt varðandi viðskipti með kælimiðla á Íslandi er hægt að senda Umhverfisstofnun ábendingu í gegnum vefinn. Einnig sé hægt að senda nafnlausa ábendingu ef fólk kýs það heldur.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna