Fjölgun starfsfólks á síðasta ári var mest meðal ósérhæfðs starfsfólks og starfsfólks í þjónustu- og verslunarstörfum, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Snörp fækkun mældist á fjölda stjórnenda og embættismanna, sem fækkaði um ellefu prósent mili áranna, eftir svipaða aukningu milli áranna 2012 og 2013.
Alls fjölgaði störfum á Íslandi um 2.800 í fyrra, þar af um 1.900 í þjónustu- og verslunargeiranum, um 1.700 meðal ósérhæfðs starfsfólks og um 1.400 meðal sérfræðinga. Á móti fækkaði stjórnendum og embættismönnum um 2.100. Breytingar á fjölda starfsmanna annarra starfsstétta voru minni milli ára, og má sjá í línuritunum hér að neðan.
Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2014 var birt í lok janúar. Áður hefur verið greint frá því á vef Kjarnans, í samstarfi við Stofnun um fjármálalæsi, að fjölgun nýrra starfa á íslenskum vinnumarkaði 2014 hafi nær öll verið á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur einnig komið fram að fjölgun starfa megi að nær öllu leyti rekja til stækkandi ferðamannaiðnaðar.
- Um 86 prósent nýrra starfa árið 2014 eru á höfuðborgarsvæðinu.
- Um 96 prósent af 2.800 fjölgun starfa árið 2014 má rekja til ferðaþjónustunnar.
- Ný störf eru flest meðal ósérhæfðra og verslunar- og þjónustufólks.
Eftirspurn eykst á ný
Ólafur Már Sigurðsson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands og annar umsjónarmanna vinnumarkaðsrannsóknarinnar segir eina skýringu á fjölgun ósérhæfðs starfsfólks vera betra árferði á vinnumarkaði. Margir hafi leitað sér menntunar þegar atvinnuleysi jókst í kjölfar bankahrunsins, en nú eykst eftirspurnin á ný eftir ósérhæfðu starfsfólki.
Ólafur Már bendir réttilega á vikmörk rannsóknarinnar sem hafa þarf í huga, en í tilviki stjórnenda og embættismanna, þar sem lækkun milli ára mældist ellefu prósent eða um 2.100 manns, getur skekkjan verið um 1.100 manns. „Kannski náðum við ekki í fleiri stjórnendur,“ segir Ólafur Már. Vinnumarkaðsrannsóknin hefur verið gerð allt frá árinu 1991 og er úrtakið 4.030 einstaklingar í hverjum ársfjórðungi.
Þótt ekki sé hægt að fullyrða um að fækkun stjórnenda og embættismanna hafi verið eins afgerandi og vinnumarkaðsrannsóknin bendir til, þá er augljóst einhver breyting hafi orðið þar á. Þá má einnig sjá yfir lengri tíma hvernig þjónustu- og verslunarstörfum fer fjölgandi á Íslandi, bæði í þúsundum talið og sem hlutfall af starfandi einstaklingum.