Margir Danir trúðu vart sínum eigin augum og hafa líklega þurft að lesa tvisvar eða þrisvar uppsláttarfréttir dönsku netmiðlanna síðastliðinn mánudag, 10. janúar, til að trúa því að þeir læsu rétt. Nefnilega því að Lars Findsen yfirmaður leyniþjónustu danska hersins væri kominn í fangelsi, grunaður um að leka mikilvægum trúnaðarupplýsingum. Hann hafði ásamt þremur öðrum háttsettum embættismönnum úr Leyniþjónustu lögreglunnar og Leyniþjónustu hersins verið handtekinn, með leynd, 8. desember síðastliðinn.
Nöfn hinna handteknu voru ekki gefin upp þegar handtökurnar fóru fram. Fjölmiðlar vissu reyndar þann sama dag að einhverjir tengdir leyniþjónustunum hefðu verið handteknir en fæsta trúlega grunað að einn þeirra væri stærsti fiskurinn í leyniþjónustufiskabúri hersins (orðalag Politiken), áðurnefndur Lars Findsen. Þremur, sem hafa stöðu grunaðra, var sleppt eftir yfirheyrslur en Lars Findsen úrskurðaður í gæsluvarðhald. Nafn hans var svo, eins og áður sagði gert opinbert síðastliðinn mánudag. Í tilkynningu Leyniþjónustu lögreglunnar kom fram að hinir grunuðu væru taldir hafa lekið viðkvæmum trúnaðarupplýsingum. Refsing við slíku getur kostað 12 ára fangelsi.
Í Danmörku starfa tvær leyniþjónustur: Leyniþjónusta lögreglunnar, PET, og Leyniþjónusta hersins, FE. PET sinnir því sem flokkast undir innanríkismál en FE málum sem varða herinn og öryggi dönsku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Sérstök stofnun, TET, sinnir eftirliti með báðum þessum leyniþjónustum.
Harðorð fréttatilkynning
Þann 24. ágúst 2020 sendi eftirlitsstofnunin, TET, frá sér fréttatilkynningu. Þar kom fram að leyniþjónusta hersins, FE, hefði safnað, og látið öðrum í té, verulegt magn upplýsinga, eins og það var orðað, um danska ríkisborgara. Athygli vakti hve fréttatilkynningin var harðorð, þótt hún væri stutt. Danska varnarmálaráðuneytið sendi sömuleiðis frá sér tilkynningu þennan sama dag, þar sem fram kom að fimm háttsettir starfsmenn FE hefðu verið sendir í leyfi. Einn þessara fimm var yfirmaður FE, Lars Findsen. Einn fimmmenninganna var fljótlega hreinsaður af öllum grun um að hafa gert eitthvað misjafnt.
Varnarmálaráðuneytið sendi síðar þennan sama dag, 24. ágúst 2020, frá sér aðra tilkynningu. Þar var greint frá því að í skýrslu TET hefðu komið fram alvarlegar ásakanir um misbresti í starfsemi leyniþjónustu hersins. FE.
Samvinnan við NSA
Danskir fréttamenn sökktu sér niður í þetta mál til að finna út hvað fælist hefði í tilkynningum ráðuneytisins og eftirlitsstofnunarinnar. Og komust fljótt á sporið. 27. ágúst síðastliðinn greindi danska útvarpið, DR, frá náinni samvinnu Leyniþjónustu hersins og National Security Agency (NSA) einni stærstu, ef ekki stærstu, leyniþjónustu Bandaríkjanna. FE hafði heimilað NSA aðgang að flutningslínum tölvugagna (ljósleiðara) en sá aðgangur gerir NSA mögulegt að fylgjast með símtölum, sms skilaboðum og tölvupósti. Sem sé öllum rafrænum sendingum og samskiptum dönsku þjóðarinnar.
Þótt FE hafi heimild danskra stjórnvalda til samvinnu við erlendar leyniþjónustur nær þessi galopni aðgangur NSA að samskiptaupplýsingum langt út fyrir þau mörk. Stjórnmálaskýrandi DR, sagði að þetta mál yrði líklega mesti skandall í sögu danskrar leyniþjónustu, á síðari tímum. Nú virðist ljóst að þetta verði ekki síðasti skandallinn.
Haustið 2020 hóf sérstök nefnd undir forystu þriggja landsréttardómara, skipuð af dönsku leyniþjónustunni PET, umfangsmikla rannsókn sem beindist að báðum leyniþjónustunum. Nefndin starfaði með mikilli leynd, nánar um niðurstöður hennar aftar í þessum pistli.
Ritstjórar boðaðir á fund
Fyrsta og tólfta desember í fyrra, rúmum 15 mánuðum eftir áðurnefnda fréttatilkynningu eftirlitsstofnunarinnar, voru ritstjórar dagblaðanna Berlingske, Jótlandspóstsins og Politiken, ásamt fréttaritstjóra danska útvarpsins, DR, boðaðir á fund yfirmanna leyniþjónustanna. Síðar voru ritstjóri Weekendavisen og fleiri boðaðir á samskonar fund. Ritstjórarnir voru undrandi á þessu fundarboði og ekki síður fundarefninu. Þeim var tilkynnt að fjölmiðlar gætu sætt hörðum refsingum fyrir að segja frá leynilegum upplýsingum sem varða þjóðaröryggi, sbr. grein 109 í dönsku refsilöggjöfinni. „Það var beinlínis haft í hótunum við okkur,“ sagði einn ritstjóranna eftir fundinn. Síðar voru átta blaðamenn boðaðir á fund hjá yfirmönnum leyniþjónustanna, fundarefnið það sama, greina frá hugsanlegum afleiðingum þess að birta leynilegar upplýsingar.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar
Fyrir rúmum mánuði, nánar tiltekið 13. desember, skilaði rannsóknarnefndin sem fyrr var getið skýrslu sinni. Nefndin hafði þá starfað í tæpa 15 mánuði. Í skýrslunni voru embættismenn FE, hreinsaðir af öllum ásökunum. Hvítþvegnir. Einn þeirra embættismanna sem var til rannsóknar var yfirmaður FE, Lars Findsen. Nöfn þeirra sem rannsóknin beindist að voru ekki gerð opinber.
Þegar nefndin skilaði skýrslu sinni voru liðnir fimm dagar frá því að Lars Findsen var handtekinn. Nafn hans kom fyrst fram í dagsljósið 10. janúar eins og áður sagði.
Í hópi hæst settu embættismanna
Lars Findsen er 57 ára. Hann lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla árið 1990 og hóf þá störf í dómsmálaráðuneyti Danmerkur. Árið 2002 varð hann yfirmaður Leyniþjónustu lögreglunnar, PET. Fimm árum síðar, 2007, tók hann við starfi ráðuneytisstjóra varnarmálaráðuneytisins sem hann gegndi til ársins 2015. Þá tók hann við yfirmannsstarfinu í Leyniþjónustu hersins og sat í því embætti til 24. ágúst 2020, en var þá sendur í leyfi eins og fram er komið.
Í september árið 2009, þegar Lars Findsen var ráðuneytisstjóri, reyndi varnarmálaráðuneytið að hindra útgáfu bókarinnar „Jæger i krig með eliten“ sem fyrrverandi hermaður í Írak og Afganistan hafði skrifað. Ástæða þess að ráðuneytið vildi koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar var, að sögn Søren Gade varnarmálaráðherra sú, að í henni kæmi ýmislegt fram sem gæti gagnast óvinum Danmerkur og Nato. Dagblaðið Politiken lét hins vegar prenta bókina og lét hana fylgja prentútgáfu blaðsins 15. september 2009. Á fundi með fréttamönnum sagði ráðherrann að bókin hefði þegar verið gefin út á arabísku. Síðar kom í ljós að léleg arabísk þýðing bókarinnar hefði verið unnin í danska varnarmálaráðuneytinu. Søren Gade varnarmálaráðherra sagði af sér nokkrum mánuðum síðar. Lars Findsen sat áfram en í mikilli embættismannahringekju árið 2015 fluttist hann úr ráðuneytinu í yfirmannsstól FE, og gegndi því starfi þangað til hann var sendur heim í ágúst 2020.
Á sér ekki hliðstæðu
Danskir fjölmiðlar lýsa þessu máli sem stærsta njósnaskandal í sögu Danmerkur. Mál sem eigi sér enga hliðstæðu. Að æðsti yfirmaður leyniþjónustu hersins skuli sitja í gæsluvarðhaldi grunaður um að leka mikilvægum upplýsingum sem varðað geta öryggi danska ríksins er lygilegra en svæsnasta lygasaga sagði fréttaskýrandi Berlingske. Ekki hefur verið upplýst hvað það er nákvæmlega sem Lars Findsen er grunaður um.
Lars Findsen hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. febrúar næstkomandi.