Vladímir Pútín er á leið til New York í opinberum erindagjörðum, í fyrsta skipti í áratug, og mun funda með Ban Ki-Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í tengslum við sjötugasta Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í næstu viku og einnig Frans Páfa sem hóf sex daga opinbera heimsókn sína til Bandaríkjanna í fyrradag og hélt rakleiðis til fundar við Barack Obama, forseta. Þá munu embættismenn Putíns funda með embættismönnum stjórnvalda í Bandaríkjunum en formlegur fundur með Obama er ekki á dagskrá Pútíns. Þeir hafa hins vegar mælt sér mót á Allsherjarþinginu og mun eiga stuttan fund, þar sem staða mála í Sýrlandi verður í brennidepli, að því er fram kemur á vef Bloomberg í dag.
Obama to Meet Putin Next Week at United Nations General Assembly http://t.co/YUWMHq1R69 via @bpolitics w/@justinsink
— Angela GreilingKeane (@agreilingkeane) September 24, 2015
Með Pútín í för verður Sergei Lavrov, utanríkisráðherra, sem þykir til marks um að þessi heimsókn eigi að skilja eftir sig varanleg jákvæð spor í þágu starfs Sameinuðu þjóðanna. Það er ef allt gengur að óskum.
Spennuþrungið andrúmsloft
Pútín og stjórn hans á í vök að verjast þessa dagana, en hann á fáa bandamenn á hinum alþjóðapólitíska sviði. Bandarísk stjórnvöld hafa hert viðskiptaþvinganir sínar gagnvart Rússum og Evrópusambandið, ásamt fleiri ríkjum, Íslandi þar á meðal, heldur sínum aðgerðum til streitu. Ástæðan er hernaður Rússa gagnvart grannríkinu Úkraínu og það mat helstu þjóðarleiðtoga heimsins, að Pútín sé „óútreiknanlegur“ eða „stjórnlaus“ eins og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, komst að orði. Hætta sé á því að ófriður brjótist enn meira út og Rússar linni ekki látum fyrr en þeir hafa fengið það fram sem þeir vilja.
Samhliða þessu hefur staða efnahagsmála í landinu versnað. Þar ræður tæplega 60 prósent verðfall á olíu á innan við ári, miklu. Rúblan hefur veikst mikið, innflutningsbann hefur klippt á viðskiptasambönd og landið hefur þannig einangrast. Tunnan af hráolíu (crude oil) hefur fallið úr 110 Bandaríkjadölum í um 50 Bandaríkjadali, svo dæmi sé nefnt. Þá hefur einnig þrengt að fjármálastofnunum í Rússlandi og við því búist, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að staða á fjármálamörkuðum í landinu eigi eftir að versna enn frekar. Eins og Ómar Þorgeirsson greindi frá í ítarlegri fréttaskýringu frá Moskvu, 13. september síðastliðinn, þá er vaxandi þrýstingur á Pútín og hans menn vegna versnandi breytinga á efnahagnum.
Obama og páfinn áttu vinsamlegan fund. Mynd: EPA.
Núna er það Sýrland
Kastljósið í heimsókn Pútíns beinist nú að Sýrlandi. Rússar hafa nú þegar stillt sér upp með stjórnarher Assads forseta, sem berst við uppreisnar- og öfgahópa í landinu. Stríðið í Sýrlandi hefur haft gríðarlegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa landsins, og leitt til mikils straums flóttamanna til nágrannaríkja og Evrópu. Af um 22 milljóna heildaríbúafjölda er talið að 9,5 milljón lifi við ótta og hættulegar aðstæður vegna stríðsins, og stór hluti þess hóps er á flótta. Um fimm milljónir manna eru sagðar á flótta innan landamæra, ýmist undan stjórnarhernum eða uppreisnar- og öfgahópum, sem kenndir eru við Íslam en ættu kannski frekar að vera kenndir beint við ofbeldisfulla glæpi. Trúarlegur boðskapur virðist einhvers staðar víðs fjarri.
Bandaríkin hafa til þessa verið treg til þess að blanda sér í átökin í Sýrlandi og vantreyst Assad. Þau hafa sagt hann standa í vegi fyrir friði og stríðið sé ekki síður á hans ábyrgð en uppreisnarhópsins, eins og John Kerry utanríkisráðherra ítrekaði í sumar, þegar raddir urðu æ háværari um nauðsyn þess að gripið yrði inn í gang mála í Sýrlandi með hernaðaraðgerðum og neyðaraðstoð Bandaríkjahers.
Snýst um að verja alþjóðalög og leita lausna
Pútin kom mörgum á óvart þegar hann skrifaði langa grein í New York Times 11. september 2013, og skýrði hvernig staða mála í Sýrlandi horfði við honum á þeim tíma. Hann varaði við því að Sameinuðu þjóðirnar þvinguðu fram aðgerðir sem gætu leitt til hernaðar gegn stjórnarhernum frá alþjóðlegum her, og sagði slíkt geta verið eins og eldspýta í púðurtunnu. Á þessum tveimur árum hefur staðan versnað til muna og ófriður aukist til muna. Ólíkt því sem Pútín ræddi um grein sinni fyrir tveimur árum, þá er traustið milli hans og Obama ekki eins og það var, og jafnvel ekki fyrir hendi. Viðskiptaþvinganir og vaxandi spenna eru til vitnis um það.
Eftir að Rússar sendu fyrstu herþoturnar til Sýrlands, til þess að aðstoða stjórnarherinn, í síðustu viku, þá virðist óhjákvæmilegt að Bandaríkjamenn og Rússar komi sér saman hvernig framhaldið skuli vera. Bandaríkjamenn eru viðvarandi hernaðaraðgerðir í gangi, en þær eru sértækar enn sem komið er.
Í ljósi hinnar miklu spennu sem nú er í Austur-Evrópu og Mið-Austurlöndum, þar sem nýtt kalt stríð milli austurs og vesturs hefur verið að teiknast upp, þá geta ákvarðanir stjórnar Pútíns, Sameinuðu þjóðanna og ríkisstjórnar Obama, á þessum tímapunkti, haft mikil áhrif á gang mála. Pútín og Obama hittust síðast á fundi 6. júní í fyrra, í París, þegar endalokum Seinni heimstyrjaldarinnar var minnst.
Sýrland er stríðshrjáð svæði, og hörmungar stríðs hafa áhrif á daglegt líf íbúa landsins. Mynd: EPA: