Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir ljóst að umfang þess fjárhagsvanda sem sveitarfélög landsins glíma við vegna aukins kostnaðar í tengslum við málefni fatlaðs fólks sé orðið af þeirri stærðargráðu að tilefni gæti verið til að mæta honum sem fyrst með ráðstöfunum til bráðabirgða, þar til fullnaðaruppgjör og greining liggur fyrir af hálfu sérstakrar nefndar sem hefur málið til umfjöllunar. „Þannig gæti komið til álita að hækka útsvarshlutfallið enn frekar á móti samsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins sem næmi umtalsverðum hluta vandans í því skyni að gera sveitarfélögum kleift að standa við þau meginmarkmið um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar.“ Þar sé um aukningu upp á fimm til sex milljarða króna í tekjur á ári fyrir sveitarfélögin að ræða.
Þetta kom fram í ræðu hans á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun.
Sveitarfélög landsins hafa reiknað sig niður á það að gliðnun tekna og útgjalda í málefnum fatlaðra, sem voru færð frá ríki til sveitarfélaga í byrjun árs 2011, hafi verið orðin níu milljarðar árið 2020. Nýverið hefur komið fram af hálfu sveitarfélaga að gliðnunin stefni í 12-13 milljarða króna á ári. Sveitarfélögin segjast ekki hafa neina getu til að takast á við þessa gliðnun og því þurfi ríkið að koma til með því að tryggja þeim meira fjármagn.
Um tveir þriðju af fráviki tekna og gjalda málaflokksins er hjá Reykjavíkurborg. Þannig nam þetta frávik 5,7 milljörðum króna árið 2020 en var 2,6 milljarðar króna. árið 2018.
Þarf niðurstöðu fyrir 1. desember
Í setningarræðu ráðstefnunnar kom Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi í Reykjavík, inn á þá stöðu sem er uppi vegna málaflokks fatlaðs fólks og sagði vanfjármögnun á honum vera meginorsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. „Við höfum það nú skjalfest að gríðarlegur vöxtur útgjalda í þessum málaflokki er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Hallinn á málaflokknum árið 2020 nam 8,9 milljörðum króna og ætla má að hallinn nemi nú um 12 til 13 milljörðum króna.“
Í yfirstandandi viðræðum sveitarfélaga og ríkisins leggi sambandið þunga áherslu á að þetta verði leiðrétt og sveitarfélögum verði gert kleift að veita fötluðu fólki fyrirmyndar þjónustu án þess að það ógni sjálfbærni fjármála sveitarfélaga. „Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og sveitarfélögum verði strax bætt vanfjármögnun málaflokksins.“
Gera þurfi samkomulag um fjármögnun þjónustunnar í heild og um frekari innleiðingu NPA þjónustu, og einnig um kostnað vegna barna með fjölþættan vanda. Sveitarfélögin vænti þess að Alþingi skilji þessa stöðu og bregðist við áður en það afgreiðir fjárlög í desember. „Ég vil ekki hugsa það til enda hvaða áhrif það kann að hafa á líf íbúa okkar ef við leiðum ekki þetta mikilvæga mál til lykta, þarna eru líf fólks og fjölskyldna undir. “
Vill varna því að hægt verði að efna aftur til ágreinings
Í ræðu sinni sagði Sigurður Ingi að ef gripið verði til þessara ráðstafana ætti eftirstandandi vandi að verða viðráðanlegri. „Einnig gæfist meira svigrúm til að ákvarða fullnaðaruppgjör og þar með hvort réttmætt sé að ríkið taki á sig frekari stuðning að aflokinni skoðun nýs vinnuhóps um kostnaðarskiptingu í málefnum fatlaðs fólks. Hópnum er ætlað að ljúka störfum í desember á þessu ári en hætt er við að það dragist.“
Hann sagði líka að öll hækkun útsvarsprósentunnar þyrfti að ganga til hækkunar á hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvarstekjunum. „Eins og í fyrri samkomulögum væri tilgangurinn með þessu samkomulagi að öll sveitarfélög sjái sér hag í að hækka útsvarið sem og að tryggja að tekjurnar fari í málaflokkinn með því jöfnunarfyrirkomulagi sem felst í sjóðnum [...] Að slíku uppgjöri og styrkingu tekjustofna afloknu kemur það í hlut sveitarfélaga að axla ábyrgð á sinni fjármálastjórn og áframhaldandi útgjaldaþróun málaflokksins.“
Mikilvægt sé að slík fyrirgreiðsla væri gerð með traustum umbúnaði í sérstöku undirrituðu samkomulagi með viðeigandi skilmálum til að tryggja að sveitarfélögin veiti viðeigandi fjármunum í málaflokkinn „og til að útkljá að ríkið sé þar með búið að tryggja ákveðna þætti til að varna því að hægt verði að efna aftur til ágreinings“.
Aukinn launakostnaður sveitarfélaga stór breyta
Innviðaráðherra sagði að skýringarnar á hinum auknu útgjöldum í málaflokknum væru af ýmsum toga. Vafalaust mætti benda á að auknar kröfur ríkisins í gegnum lagasetningu skýri einhvern hluta þeirrar aukningar. „Á móti þarf að hafa í huga að útgjöld málaflokksins eru fyrst og fremst launakostnaður. Sá kostnaður hefur vaxið gríðarlega síðastliðin ár en líkt og kemur fram í skýrslunni hafa laun og launatengd gjöld aukist um 5,3 milljarða króna. eða 33,5 prósent frá árinu 2018 til ársins 2020. Má þar ætla að til viðbótar fjölgunar stöðugildum hafi lífskjarasamningurinn verið málaflokknum afar íþyngjandi. Það verður þó að ætla sveitarfélögum að þau standi straum af kostnaði launahækkana sinna starfsmanna hvort sem það er í þessum málaflokki eða öðrum, enda er uppistaða tekna þeirra byggð á sköttum sem fylgja launaþróun.“
Hann benti svo á að frá árinu 2014 hafi tekjur sveitarfélaga vaxið um 31 prósent á föstu verðlagi en tekjur ríkissjóðs dregist á sama tíma saman um eitt prósent. Á sama tíma hafi gjöld sveitarfélaga vaxið um 33 prósent á föstu verðlagi en gjöld ríkissjóðs um 28 prósent. Frá árinu 2019 til 2021 uxu tekjur sveitarfélaga um þrjú prósent á föstu verðlagi á sama tíma og tekjur ríkissjóðs drógust saman um sjö prósent. „Í ljósi þess að ágætur vöxtur hefur verið í tekjustofnum sveitarfélaga, einnig á tímabili kórónuveirufaraldursins, er ekki annað hægt að segja að sá fjárhagsvandi sem snýr að málaflokki fatlaðs fólks er ekki tekjuvandi heldur fyrst og fremst útgjaldavandi. Í því sambandi má benda á að auknar aðrar tekjur en þær sem markaðar eru málaflokknum ættu að gera þeim kleift að veita auknu fjármagni þangað, t.d. stórauknar tekjur af fasteignasköttum.“