Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, lauk í Glasgow í gær, degi á eftir áætlun, þegar leiðtogar hátt í 200 ríkja heims samþykktu lokaútgáfu yfirlýsingar um aðgerðir í loftslagsmálum. Loftslagsráðstefnan var sú 26. í röðinni og þetta er í fyrsta sinn sem skýrt er kveðið á um að draga úr kolanotkun. Orðalagi varðandi kolaákvæðið var hins vegar breytt í lokaútgáfu samkomulagsins og hefur það varpað skugga á niðurstöðu ráðstefnunnar.
Kína og Indland þurfa að útskýra mál sitt
Ekkert jarðefnaeldsneyti veldur jafn mikilli losun gróðurhúsalofttegunda og kol. Í lokadrögum samkomulagsins sagði að „horfið yrði frá“ notkun kola sem eldsneytis. Í lokaútgáfu samkomulagsins stendur hins vegar að „dregið verði úr“ notkun kola. Kínverjar og Indverjar þrýstu mest á orðalagsbreytinguna og höfðu að lokum erindi sem erfiði. Alok Sharma, forseti loftslagsráðstefnunnar, segir niðurstöðu ráðstefnunnar „brothættan sigur“ og að hans mati skulda Kína og Indlandríkjum sem viðkvæm eru fyrir loftslagsbreytingum útskýringu á áherslunni sem ríkin lögðu á breytingu orðalags um kolanotkun.
Sharma hét því við upphaf ráðstefnunnar fyrir um tveimur vikum að Glasgow myndi uppfylla það sem lofað var í París. „COP26 er okkar síðasta, farsælasta von til að vera innan 1,5 gráðu markanna,“ sagði Sharma í setningarræðu sinni í Glasgow. Sharma var með grátstafina í kverkunum við lok ráðstefnunnar í gær þegar hann baðst afsökunar á framþróun mála. Hann sagðist skilja vonbrigðin en að hans mati var breyting á orðalagi um kol nauðsynleg til að vernda önnur ákvæði samningsins. Það sem skipti máli er, að hans mati, að yfirlýsingin tryggir að hægt verði að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tók í sama streng í Silfrinu í dag. „Ríki heims eru að standa við markmiðið um að hlýnun jarðar aukist ekki meira en um 1,5 gráður. Ef að við náum því ekki þá erum við að sjá gríðarlega miklar breytingar á vistkerfum jarðarinnar.“ Guðmundur Ingi fagnaði samkomulaginu í færslu á Facebook í gær. „Ég hefði samt viljað sjá ríki heims setja fram metnaðarfyllri landsmarkmið um samdrátt í losun til að tryggja framtíð jarðarinnar okkar. Ég hefði líka viljað sjá ríki heims ná að tryggja að fullu 100 milljarða loforðið til þróunarríkja, en það vantar víst ekki mikið upp á,“ segir í færslu Guðmundar.
Mikilvægt samkomulag í höfn í Glasgow! Þegar um 200 ríki ná mikilvægu samkomulagi um stærstu málefni samtímans þá er...
Posted by Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra on Saturday, November 13, 2021
Pólitískur vilji ekki til staðar
Megin áfangarnir sem náðust á ráðstefnunni felast í að hægja á loftslagsbreytingum, það er með því að draga úr notkun kola, að horfa aftur til áætlana sem snúa að minnkun útblásturs og aukin fjárhagsleg aðstoð til þróunarríkja.
Leiðtogar þróunarríkja eru einna helst óánægðir með niðurstöðu ráðstefnunnar og hafa kallað eftir aukinni fjárhagsaðstoð sem byggist á þeirri kröfu að efnameiri ríki veiti fátækari ríkjum fjárhagsaðstoð til að bregðast við loftslagsbreytingum sem krefjast aukinna fjárútláta sem ríkin geta ekki sjálf staðið fyrir. Óánægjan snýst einna helst að því að í samkomulaginu sem samþykkt var í gær var horfið frá því orðalagi að tvöfalda fjármagn til þróunarríkja til að berjast við loftslagsbreytingar. Í staðinn á að „auka fjárframlögin“.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fagnaði samkomulaginu en segir heimsbyggðina enn vera á barmi loftslagshamfara. Hann gagnrýndi einnig að á ráðstefnunni reyndist ekki vera pólitískur vilji til að stíga þau skref sem nauðsynleg eru í baráttunni gegn hlýnun jarðar.
Greta Thunberg er meðal þeirra sem gagnrýna niðurstöðu ráðstefnunnar og birti hún stutta samantekt á Facebook í gær: „Bla, bla, bla.“ Thunberg hyggst þó halda baráttunni ótrauð áfram. „Hið raunverulega starf heldur áfram utan þessara fundarsala. Og við munum aldrei nokkurn tímann gefast upp,“ sagði Thunberg.
The #COP26 is over. Here’s a brief summary: Blah, blah, blah. But the real work continues outside these halls. And we...
Posted by Greta Thunberg on Saturday, November 13, 2021