„Herra forseti, eftir allt sem við höfum séð, ertu reiðubúinn að fullyrða að Pútín sé stríðsglæpamaður?“ Að þessu spurði blaðamaður þegar Joe Biden var að yfirgefa blaðamannafund í Hvíta húsinu í gær. Svarið hans, í fyrstu, var stutt: „Nei.“
Hann sneri hins vegar við örskömmu síðar og virtist ekki hafa náð spurningu blaðamannsins eða samhengi hennar. Blaðamaðurinn endurtók spurninguna og Biden svaraði afdráttarlaust: „Að mínu mati er hann stríðsglæpamaður.“
Bandaríkjaforseti bætist þannig í hóp þeirra þjóðarleiðtoga sem hafa sakað Vladimír Pútín Rússlandsforseta um stríðsglæpi, en það hafa Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þegar gert.
Orð „beint frá hjartanu“ frekar en formleg yfirlýsing
Þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjaforseti kemst svo að orði og fordæmir Pútín. Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, segir orð Biden hafa „komið beint frá hjartanu“, frekar en um formlega yfirlýsingu hafi verið að ræða.
Viðbrögð rússneskra stjórnvalda létu ekki á sér standa. „Við teljum fullyrðingu eins og þessa frá þjóðarleiðtoga óviðunandi og ófyrirgefanlega. Sprengjur hans hafa orðið mörg hundruð þúsund manns að bana um heim allan,“ segir Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda í samtali við ríkisreknu fréttastofuna Tass.
En hvað er stríðsglæpur í raun og veru? Zelenskí hefur ítrekað sakað Pútín um stríðsglæpi, meðal annars fyrir loftárás rússneska hersins á spítala í Mariupol þar sem þrír létu lífið og 17 starfsmenn og sjúklingar særðust. Rússneskar hersveitir hafa einnig verið sakaðar um að beina árásum að óbreyttum borgurum á flótta og þá eru dæmi um að klasasprengjum, sem innihalda margar smásprengjur sem dreifast yfir stórt svæði þegar aðalsprengjan springur, í nágrenni borgarinnar Kharkív. Aðgerðir á borð við þessar kunna að brjóta gegn alþjóðalögum.
Það kann að hljóma einkennilega en, líkt og Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur ítrekað bent á, gilda reglur í stríði. Reglurnar byggja meðal annars á Genfar-sáttmálanum, sem samþykktur var eftir seinni heimstyrjöld og með frekari viðbótum árið 1977. Markmið sáttmálans er að vernda þau sem ekki taka beinan þátt í stríði eða átökum fyrir afleiðingum þeirra. Genfarsáttmálinn eru alþjóðleg mannúðarlög og gilda einungis á ófriðartímum, ólíkt mannréttindareglum sem gilda einnig á friðartímum.
Innrásin ein og sér flokkist sem stríðsglæpur
Loftárás á spítala, beinar árásir á óbreytta borgara og notkun klasasprengja geta flokkast sem stríðsglæpir en sérfræðingar hafa einnig bent á að innrás Rússa í Úkraínu, ein og sér, sé stríðsglæpur þar sem hún flokkist sem árásargjarn hernaður.
Það er í höndum hvers ríkis fyrir sig að rannsaka ásakanir um stríðsglæpi. Önnur ríki stunda það í ríkara mæli en önnur og hafa löggæsluyfirvöld í Bretlandi boðist til að safna saman sönnunargögnum um hugsanlega stríðsglæpi í Úkraínu.
Alþjóðadómstóllinn (ICJ) og alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn (ICC) gegna því hlutverki að viðhalda reglum sem gilda í stríði. Alþjóðadómstóllinn sker úr deilumálum milli ríkja en getur ekki sakfellt einstaklinga. Úkraína hefur þegar höfðað mál á hendur Rússlandi vegna stríðsglæpa.
Ef Alþjóðadómstóllinn mun sakfella Rússland verður það í höndum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að framfylgja dómnum. Þar flækjast hins vegar málin þar sem Rússland er meðal þeirra fimm ríkja sem hafa neitunarvald í ráðinu.
Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn getur rannsakað og ákært einstaklinga fyrir stríðsglæpi. Dómstólnum var komið á fót eftir Nürnberg-réttarhöldin þar sem 24 leiðtogar nasista í seinni heimstyrjöldinni voru sakfelldir fyrir stríðsglæpi. Með Nürnberg-réttarhöldunum var komið á því fordæmi að ríki geti látið reyna á alþjóðalög fyrir sérstökum dómstól.
Heimsleiðtogar komi á fót sérstökum dómstóli vegna stríðsins í Úkraínu
Aðalsaksóknari alþjóðalega stríðsglæpadómstólsin, breski lögfræðingurinn Karim Khan, segir að margt bendi til þess að stríðsglæpir hafi verið framdir í Úkraínu. Rannsóknin sem nú stendur yfir nær allt aftur til 2013, áður en Rússar innlimuðu Krímskaga. Ef nægar sannanir eru fyrir hendur getur dómstóllinn gefið út handtökuskipun og boðað sakborninga til réttarhalda í Haag.
Völd dómstólsins eru þó takmörkunum háð þar sem hann þarf að treysta á ríki til að framkvæma handtökur. Líkt og Bandaríkin er Rússland ekki aðildarríki að alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum, sem, enn og aftur, flækir málin.
Leiðtogar heimsins geta því sakað Rússlandsforseta um stríðsglæpi að vild en það mun reynast þrautinni þyngri að fá hann sakfelldan. Philippe Sands, prófessor og sérfræðingur í alþjóðalögum við University College í London, er meðal þeirra sérfræðinga sem hafa kallað eftir því að þjóðarleiðtogar heims sammælist um að koma á fót sérstökum dómstól sem leiði til sakfellinga um stríðsglæpi sem framdir hafa verið í Úkraínu.