Reykjavík ber uppi félagslega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu
Íbúar Reykjavíkur borga tvöfalt hærri upphæð en allir hinir íbúar höfuðborgarsvæðisins í veitta félagsþjónustu. Um 29 prósent af öllum skatttekjum höfuðborgarinnar fara í slíka þjónustu á meðan að þeir sem búa í Kópavogi borga undir 15 prósent. Til viðbótar er Reykjavík í sérflokki þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa.
Íbúar Reykjavíkur borga tvöfalt hærri upphæð en allir hinir íbúar höfuðborgarsvæðisins í veitta félagsþjónustu. Um 29 prósent af öllum skatttekjum höfuðborgarinnar fara í slíka þjónustu á meðan að þeir sem búa í Kópavogi borga undir 15 prósent. Til viðbótar er Reykjavík í sérflokki þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa.
Í fyrra fóru 29,1 prósent af þeim skatttekjum sem höfuðborg landsins, Reykjavík, innheimti af fólki og fyrirtækjum í að standa undir félagsþjónustu af ýmsum toga. Hlutfallið hækkaði umtalsvert milli ára, en það var 26 prósent árið áður. Heildarupphæðin sem fór í að greiða fyrir félagsþjónustu í Reykjavík var 32,9 milljarðar króna. Í höfuðborginni bjuggu alls 133.290 manns um síðustu áramót. Það þýðir að hver og einn Reykvíkingur greiddi 246.830 krónur í félagsþjónustu á síðasta ári.
Um er að ræða fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við fatlað fólk og aldraða og ýmislegt annað sem fellur undir málaflokkinn.
Þetta mál lesa úr talnaefni sem birt hefur verið á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aukning var í flestum hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en þau eru hins vegar öll langt frá því að verja jafn miklum fjármunum og Reykjavíkurborg í félagsþjónustu. Raunar er hlutfallið af skatttekjum sem fer í félagsþjónustu undir 20 prósent hjá þeim öllum.
Hjá nágrannasveitarfélögunum var hlutfallið hæst hjá Mosfellsbæ, 19,8 prósent og hjá Garðabæ og Hafnarfirði þar sem það var 19,7 prósent. Seltjarnarnes kom þar á eftir með 18,3 prósent og Kópavogur rekur sem fyrr lestina með 14,8 prósent.
Samtals greiddu önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu 15,3 milljarða króna í félagsþjónustu, eða tæplega helming þeirrar upphæðar sem íbúar Reykjavíkur greiddu fyrir slíka. Í þessum fimm sveitarfélögum bjuggu alls 103.230 manns um síðustu áramót sem þýðir að meðalgreiðsla á hvern íbúa þeirra var 148.213 krónur. Hver einasti Reykvíkingur greiðir því næstum eitt hundrað þúsund krónum meira á ári í félagsþjónustu en íbúar hinna fimm sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu gera að meðaltali.
Lægsta framlagið í Kópavogi
Hafnarfjörður er sem stendur það nágrannasveitarfélag höfuðborgarinnar sem kemst næst því að axla álíka hluta af félagslegu þjónustunni en kostnaður á hvern íbúa þar var 168.564 þúsund krónu í fyrra. Hver íbúi í Reykjavík borgaði samt sem áður 46 prósent meira í félagslega þjónustu en hver íbúi í Hafnarfirði á árinu 2020.
Lægsta framlagið á hvern íbúa var í Kópavogi, þar sem það dróst saman milli ára. Þar greiddi hver íbúi 120.830 krónur í félagsþjónustu í fyrra, sem þýðir að Reykvíkingar borga rúmlega tvisvar sinnum meira fyrir tilurð hennar en sveitungar þeirra í næst stærsta sveitarfélagi landsins.
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar, 14,52 prósent. Hafnarfjörður, Kópavogur og Mosfellsbær eru ekki langt undan, þau rukka 14,48 prósent í útsvar, en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi er útsvarsprósentan 13,7 prósent. Það þýðir einfaldlega að íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur greiða lægri skatta á sama tíma og íbúar Reykjavíkur axla meiri ábyrgð á félagsþjónustu, og greiða fyrir vikið hærri skatta.
Reykjavík í sérflokki
Það er sama hvar er drepið niður, Reykjavík er alltaf að veita langmestu félagslegu þjónustuna. Mest sláandi er munurinn þegar kemur að fjárhagsaðstoð sem sveitarfélögin veita íbúum.
Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í Reykjavík getur fjárhagsaðstoð til einstaklings verið allt að 212.694 krónur á mánuði og hjón eða sambúðarfólk getur fengið samtals allt að 340.310 krónur á mánuði. Í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eru greiðslur að jafnaði lægri. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er til að mynda sjö prósent hærri en í Kópavogi og tæplega fimm prósent hærri en í Garðabæ.
Það þýðir að það borgar sig beinlínis fyrir þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda að flytja sig til Reykjavíkur. Þar af leiðandi eru mun fleiri sem þurfa á henni að halda búsettir þar en í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar.
Hver íbúi í Reykjavíkurborg borgaði tæplega 35 þúsund krónur með sköttum sínum í það sem flokkast undir félagslega aðstoð í fyrra. Þar er að uppistöðu um fjárhagslega aðstoð að ræða. Kópavogur kemur þar næst með tæplega 27 þúsund krónur á hvern íbúa, sem þýðir að hver íbúi í Reykjavík greiðir um 30 prósent meira vegna þessa málaflokks en sá sem býr í Kópavogi.
Á sama tíma greiddi íbúi á Seltjarnarnesi um sex þúsund krónur vegna félagslegrar aðstoðar og hver íbúi í Mosfellsbæ greiddi um sjö þúsund krónur. Með öðrum orðum borgaði hver Reykvíkingur fimm sinnum meira fyrir að halda uppi þessum málaflokki fyrir þá íbúa borgarinnar sem þurftu á henni að halda en íbúar á Seltjarnarnesi gerðu.
Sinna öldruðum og fötluðum betur
Ljóst er að félagslegar áherslur nágrannasveitarfélaganna liggja mun frekar í þjónustu við aldraða og fatlaða en þá sem glíma við félagslegan eða framfærsluvanda. Þegar kostnaður á hvern íbúa vegna veittrar þjónustu við aldraða er skoðaður kemur í ljós að hann var hæstur í Garðabæ, eða 43.394 krónur. Reykjavík er þó skammt undan en kostnaður á hvern íbúa þar í fyrra var 42.452 krónur að meðaltali. Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var hann lægstur í Kópavogi, um 16 þúsund krónur á hvern íbúa. Mosfellsbær og Hafnarfjörður voru skammt undan með kostnað uppá um 17 þúsund krónur á hvern íbúa. Það þýðir að hver íbúi í Garðabæ og Reykjavík greiddi tæplega 170 prósent meira vegna þjónustu við aldraða en íbúi í Kópavogi á síðasta ári.
Þegar kemur að þjónustu við fatlaða er kostnaður á íbúa hæstur í Mosfellsbæ, tæplega 133 þúsund krónur. Reykjavík kemur þar næst með 114 þúsund krónur og í Hafnarfirði er kostnaðurinn á hvern íbúa 104 þúsund. Í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er kostnaðurinn undir 81 þúsund krónum á hvern íbúa og lægstur er hann í Kópavogi, tæplega 57 þúsund krónur á hvern íbúa. Það þýðir að hver Reykvíkingur borgar að jafnaði tvisvar sinnum meira fyrir þjónustu við fatlaða en hver íbúi í Kópavogi.
Borgin með 78 prósent félagslegra íbúða
Reykjavík dregur líka vagninn í uppbyggingu á húsnæði fyrir þá hópa sem eru með lægstu tekjurnar. Kjarninn greindi frá því í gær að hlutdeild Reykjavíkurborgar í framboði félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafi vaxið frá árslokum 2017, er um 76 prósent af félagslegum leiguíbúðum voru í eigu eða umsjá borgarinnar. Hlutfallið nú er yfir 78 prósent.
Alls eru félagslegar íbúðir í eigu eða umsjá sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu 3.798 talsins, en þetta geta verið félagslegar leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.
Í Reykjavík eru 22 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa. Það sveitarfélag sem kemur næst er Kópavogur með tæplega 12 íbúðir á hverja þúsund íbúa en félagslegum íbúðum þar hefur fækkað á undanförnum árum þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað.
Garðabær (1,6 félagsleg íbúð á hverja þúsund íbúa), Seltjarnarnes (3,8 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa) og Mosfellsbær (3,9 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa) eru í sérflokki þegar það kemur að því að bjóða upp á lítið félagslegt húsnæði.
Nánast allar almennar íbúðir í Reykjavík
Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Hið nýja íbúðakerfi er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Kjarninn greindi frá því fyrir ári síðan að íslenska ríkið hefði þá alls úthlutað 15,3 milljörðum króna í stofnframlög vegna almennra íbúða á landinu öllu frá árinu 2016, þegar lög um slík framlög voru sett. Þær tölur hafa ekki verið uppfærðar á þessu ári, en Kjarninn hefur kallað eftir nýjum tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Í umfjöllun Kjarnans í nóvember í fyrra kom fram að 11,2 milljarðar króna hefðu farið í framlög vegna uppbyggingar á íbúðum í Reykjavík sem nýtt hefðu verið til annað hvort að kaupa eða byggja alls 1.923 íbúðir.
Allt í allt þá hefðu verið veitt stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja 2.625 íbúðir á landinu öllu, sem þýðir að 73 prósent af almennu íbúðunum sem höfðu á þeim tíma annað hvort verið keyptar, byggðar eða voru í byggingu voru í Reykjavík.
Það þýðir að Reykjavík hefur verið að taka á sig næstum tvöfaldan hluta af uppbyggingu almenna íbúðakerfisins en hlutfall íbúa borgarinnar segir til um.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars