Mikill þrýstingur hefur verið á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vegna áforma evrópskra flugfélaga að stunda svokölluð draugaflug með engum farþegum á milli evrópskra flugvalla til að viðhalda sínum stæðum í vetur.
Hvorki Icelandair né PLAY hafa þurft að grípa til þessara ráðstafana, en Lufthansa segist vera tilneytt til að fljúga tómum vélum á milli evrópskra flugvalla 18 þúsund sinnum í vetur vegna þessa. Forstjóri Ryanair sakar Lufthansa um hræsni í umhverfismálum og hvetur Evrópusambandið til að breyta ekki reglum sínum um lágmarksnýtingu á flugvallarstæðum.
Óþarfa flug til að halda lendingarrétti
Umræðan um draugaflug hófst eftir að Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, tilkynnti áform flugfélagsins um tómar flugferðir til að viðhalda stæðum sínum á evrópskum flugvöllum í desember í fyrra. Samkvæmt Spohr hefur félagið þurft að aflýsa 33 þúsund flugum í vetraráætluninni sinni, eða um tíu prósentum af öllum flugunum sínum.
Þessi dræma eftirspurn hjá Lufthansa getur haft langvarandi áhrif á rekstur félagsins, þar sem reglur Evrópusambandsins kveða nú á um að flugfélög þurfi að nýta að minnsta kosti helming allra lendingartíma sem þeim hefur verið gefinn til að viðhalda sínum lendingarrétti á flugvöllunum. Lufthansa hafi því ákveðið að grípa til þess ráðs að hefja draugaflug með tómum vélum til þess að komast í veg fyrir að þessi réttur skerðist.
Spohr kallaði eftir meiri sveigjanleika í reglum Evrópusambandsins til að koma í veg fyrir að slíkar flugferðir verði farnar. Samkvæmt honum ganga þær í berhöggi við yfirlýst markmið sambandsins um að draga úr losun á næstu árum.
Talsmaður IATA, sem eru alþjóðleg hagsmunasamtök flugfélaga, tekur í sama streng í viðtali við franska fréttamiðilinn Rfi. Þar segir hann að 50 prósenta lágmarksnýting í vetur sé óraunhæf fyrir evrópsk flugfélög, sökum samdráttarins í flugumferð vegna nýrrar bylgju heimsfaraldursins.
Samgönguráðherra Belgíu, George Gilkinet, kallaði sömuleiðis eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins grípi fljótt til aðgerða og lækki lágmarksnýtinguna. Einnig vill Gilkinet að undanþáguheimildir séu veittar til flugfélaga frá þessari lágmarksnýtingu fram eftir sumri, hð minnsta.
Lágmark til að viðhalda samkeppni
Evrópusambandið hefur nú þegar lækkað lágmarksnýtingu á lendingartímum flugfélaga vegna faraldursins, en áður en hann skall á þurftu flugfélög að nýta 80 prósent allra lendingartíma sem þau fengu til að viðhalda lendingarréttinum á evrópskum flugvöllum. Stefnt er svo að því að hækka lágmarkið í 64 prósent í sumar samhliða aukinni flugumferð um álfuna.
Yfirmaður samgöngumála hjá Evrópusambandinu, Adina Valean, sagði að núverandi reglur byðu nú þegar upp á mikinn sveigjanleika svo að hægt sé að komast í veg fyrir draugaflug í viðtali við Financial Times. Einnig benti hún á að vísbendingar væru uppi um að nýtt afbrigði veirunnar hefði ekki jafnslæm áhrif á fluggeirann og áður var talið, en flugumferð þessa stundina er um 79 prósent af venjulegri umferð á sama árstíma.
Samkvæmt Valean eru reglur sambandsins nauðsynlegar til að vernda starfsemi flugvalla og kjör neytenda, þar sem þær viðhalda samkeppni á milli flugfélaga.
Ekki sama hljóð í Icelandair, PLAY og Ryanair
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segist Icelandair ekki hafa þurft að fljúga tómum flugvélum á milli flugvalla til að viðhalda lendingarrétti sínum á evrópskum flugvöllum. Þar þakkar flugfélagið sérstaklega ákvörðun Evrópusambandsins um að lækka lágmarksnýtingu á lendingartímum niður í 50 prósent, auk tímabundinna undanþága í löndum þar sem ferðatakmarkanir gilda.
„Það hefur verið mikilvægt að hafa þennan sveigjanleika og við höfum fulla trú á að komið verði áfram til móts við flugfélög hvað þetta varðar ef faraldurinn dregst enn frekar á langinn,“ bætir flugfélagið við.
PLAY segist heldur ekki hafa haldið úti flugi til að tryggja sér lendingarrétt á flugvöllum í svari við fyrirspurn Kjarnans. Samkvæmt flugfélaginu eru fela draugaflugin svokölluðu ekki í sér góða þróun fyrir neytendur, þar sem þau koma í veg fyrir að önnur flugfélög geti nýtt sér þessa lendingartíma og hamli því samkeppni. Einnig bætir félagið við að ekki megi gleyma umhverfisþættinum, óþarfa flugferðir hafi mjög slæm áhrif á umhverfið.
Michael O’Leary, forstjóri Ryanair var ómyrkari í máli um draugaflug Lufthansa í tilkynningu sem hann sendi til fjölmiðla fyrr í vikunni. Þar hvatti hann framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að hunsa ummæli Carsten Spohr og sagði að lausnin við þessum tómu flugferðum væri einföld: Lufthansa þyrfti einungis að selja fleiri flugmiða.
„Lufthansa elskar að gráta krókódílstárum um umhverfið á meðan það gerir allt í sínu valdi til að halda í lendingarréttinn sinn,“ bætti O’Leary við í tilkynningu sinni. Einungis yrði hægt að auka eftirspurn eftir flugi með lægra verði, en þannig yrði hægt að hraða viðspyrnuna í fluggeiranum í Evrópu.