Í gær urðu miklar vendingar í máli sem staðið hefur yfir árum saman á milli Símans og Samkeppniseftirlitsins, er Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að fella skyldi niður þá 200 milljóna króna stjórnvaldssekt sem lögð hafði verið á Símann vegna meintra brota fyrirtækisins gegn skilyrðum í sátt við Samkeppniseftirlitið.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina niður í áðurnefnda upphæð með úrskurði þann 13. janúar 2021, en í maí árið 2020 hafði Samkeppniseftirlitið talið rétt að slengja 500 milljóna króna sekt á Símann, sem skaut málinu til áfrýjunarnefndarinnar í beinu framhaldi.
Síminn skaut svo málinu til dómstóla sumarið 2021 – og nú er niðurstaðan komin: 500 milljóna sektin, sem er með hærri sektum sem nokkru sinni hafa verið lagðar á í samkeppnismáli á Íslandi, er orðin að engu.
Svo virðist að minnsta kosti vera sem stendur, en Samkeppniseftirlitið segir á vef sínumað það hyggist fara ítarlega yfir forsendur dómsins og taka í framhaldi ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Dómur héraðsdóms í málinu er ítarlegur og settur fram á 63 blaðsíðum.
Brotið sem Samkeppniseftirlitið, og svo áfrýjunarnefnd samkeppnismála, töldu Símann hafa framið, fólst í því að hafa farið gegn skilmálum sáttar sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2015 um að tvinna ekki saman fjarskiptaþjónustu og línulegri sjónvarpsþjónustu.
Það átti Síminn að hafa gert með því að bjóða ólík viðskiptakjör við sölu á enska boltanum á sjónvarpsstöðinni Símanum Sport, eftir því hvort hann var boðinn innan svokallaðs Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift.
Samkeppniseftirlitið réðist í rannsókn á málinu eftir kvörtun frá fjarskiptafyrirtækinu Sýn, sem er einn helsti keppinautur Símans á bæði fjarskipta- og sjónvarpsafþreytingarmarkaði.
Eftir að Síminn byrjaði að sýna frá enska boltanum haustið 2019 hækkaði fyrirtækið verðið á bæði Heimilispakka sínum og sjónvarpsþjónustunni Sjónvarp Símans Premium um þúsund krónur frá því sem áður hafði verið. Neytendur þurftu hins vegar að greiða 4.500 krónur fyrir það eitt að vera með áskrift að fótboltarásum Símans Sport, ef þeir voru ekki með annað hvort Heimilispakkann frá Símanum eða Sjónvarp Símans Premium.
Sekt Símans þótti ósönnuð
Í dómi héraðsdóms segir að dómari telji rétt að fella sektina úr gildi, þar sem Samkeppniseftirlitið hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir sektinni á Símann. Að mati dómara kaus Samkeppniseftirlitið að „greina málið fyrst og fremst út frá orðalagi í ákvæði sáttarinnar, fremur en að leiða fram áhrif háttsemi [Símans] á markaðinn, á viðskiptavini [Símans] og keppinauta.“
Dómarinn taldi þannig að Samkeppniseftirlitið hefði ekki risið undir sönnunarbyrði sinni um sekt Símans svo fullnægt væri grundvallarréttindum samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar (sem kveður á um að hver skuli saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð) og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (sem kveður m.a. á um hið sama).
Viðskiptavinum ekki settir afarkostir um kaup á Heimilispakkanum
Í dómnum er meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að með því að setja Símann Sport inn Sjónvarp Símans Premium, sem svo var boðið sem hluti af Heimilispakkanum, hafi Síminn ekki sett viðskiptavinum afarkosti um að kaupa áskrift af Sjónvarpi Símans Premium sem hluta af Heimilispakkanum.
„Viðskiptavinurinn sem hefur áhuga á hinni títtnefndu ensku knattspyrnukeppni þyrfti að greiða umtalsvert meira fyrir aðgang að efnisveitunni heldur en ef hann keypti efnið stakt, sem hann gerir eðli máls samkvæmt ekki ef hann hefur ekki áhuga á efni efnisveitunnar. Velji viðskiptavinurinn að kaupa áskrift að Sjónvarpi Símans Premium væri hann á hinn bóginn búinn að leggja í kostnað sem næmi þriðjungi af verði Heimilispakkans áður en hann kæmist í tæri við þá hagsmuni sem verja eigi viðskiptavininn gegn; að fjarskiptaviðskipti yrðu skilyrt við kaup sjónvarpsþjónustu sem misnotuð væri í þessu skyni í andstöðu við [skilyrði sáttarinnar frá 2015]. Ekki verður séð að við þessar aðstæður væri raskað þeim hagsmunum sem eru verndarandlag þessa ákvæðis,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þar er einnig fjallað um þá viðskiptavini sem „engan áhuga hafa á knattspyrnu karla í efstu deild á Englandi“ og sýnist dómara hagsmunir þeirra ekki vera sérstaklega verndaðir af skilmálum sáttarinnar frá 2015.
Dómari bendir á að skilyrði ákvæðisins gangi í raun út á að sjónvarsþjónusta sé falboðin með því skilyrði að fjarskiptaþjónusta sé keypt. „Ef viðskiptavinurinn vill ekki sjónvarpsefnið er slíku skilyrði ekki til að dreifa þannig að fari í bága við [ákvæði sáttarinnar]. Viðkomandi er á engan hátt þvingaður í eitthvað sem hann kærir sig ekki um. Hvort hann sætti sig við að þurfa að borga hærra verð þrátt fyrir að hafa hvorki gagn né gaman af viðkomandi sjónvarpsefni er síðan hagsmunamat sem hann stendur frammi fyrir, hvort sé fjárhagslega hagstæðara að halda áskriftinni eða segja henni upp og leita annarra tilboða á markaði án þess að svo óæskilegt sjónvarpsefni fylgi,“ segir í dómnum.
Fjölgun í bæði fjarskiptaþjónustu og sjónvarpsþjónustu
Þar er einnig farið yfir að ekkert liggi „fyrir um það í málinu að ljón séu þannig í vegi að það sé hvorki raunhæft né mögulegt fyrir viðskiptavin að kaupa þjónustu [Símans] án vöndlunar, annað hvort án sjónvarpsþjónustu eða án fjarskiptaþjónustu,“ sem Samkeppniseftirlitið hafi sjálft lagt til grundvallar að hafi haft þýðingu við túlkun sambærilegs ákvæðis í máli sem varðaði keppinaut Símans.
Dómari segir tölfræðilegar upplýsingar um kaup á þjónustu frá Símanum raunar tala því máli að viðskiptavinir getið valið ýmsa kosti í þeim efnum og að í málsskjölum komi fram að þeim sem einungis keyptu fjarskiptaþjónustu, sem og áskrifendum Sjónvarps Símans Premimum eingöngu, hafi fjölgað, en ekki einungis áskrifendum Heimilispakkans.