Viðskiptabankarnir og Sparisjóðirnir bjóða upp á fjölmarga, mismunandi sparnaðarreikninga, samtals yfir fimmtíu talsins. Þegar kemur að vali á sparnaðarreikningi er spurningin einföld: Hvaða reikningur hentar mínum sparnaði best?
Svarið er aðeins flóknara, en ekki svo. Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga þegar við veljum reikning fyrir sparnað. Sum atriðanna eru vafalaust augljósari en önnur. Í töflunni fyrir neðan má síðan bera saman og skoða hvaða vaxtakjör og binditíma reikningarnir bera. Taflan miðast við upplýsingar fengnar af vefsíðum bankanna í byrjun febrúar 2015.
Allar leiðir hentar ekki öllum
Margir innlánsreikninganna eru sérsniðnir að ákveðnum sparnaði eða að ákveðnum aldurshópi. Nöfn reikninganna gefa oft til kynna hvað um ræðir, en þó ekki alltaf. Sem dæmi eru Framtíðarreikningar Íslandsbanka og Arion banka og Framtíðargrunnur Landsbankans handa börnum til 18 ára aldurs. Það má síðan ímynda sér hvers konar sparnaður á sér stað á reikningunum Húsnæðissparnaður hjá Íslandsbanka og Fasteignagrunnur hjá Landsbankanum. Báðir reikningarnir eru auðvitað handa þeim sem eru að safna fyrir íbúð.
Tími og upphæð hefur áhrif
Binditími: Eftir því sem þú bindur peninganna lengur inn á bankabók, því betri vextir fást hjá bankanum. Binditími getur verið allt frá engum eða örfáum dögum til 60 mánaða, eða fimm ár.
Fjárhæð innláns: Flestar sparnaðarleiðir krefjast engrar lágmarksfjárhæðar. Á því eru þó undantekningar og sumar sparnaðarleiðir bankanna eru aðeins fyrir fjárhæðir hærri en til dæmis hundrað þúsund krónur, fimm hundruð þúsund krónur eða ein milljón króna. Því hærri fjárhæð sem þú sparar, því hærri vexti ber innlánsreikningurinn.
Þumalputtareglan er því sú að vaxtakjör batna eftir því sem binditími lengist og fjárhæð sparnaðar hækkar.
Verðtryggt eða óverðtryggt?
Binditími verðtryggðs sparnaðar er jafnan lengri en óverðtryggðs. Langtímasparnaður á borð við framtíðarreikninga bankanna er þannig verðtryggður. Vilji maður verðtryggja sparnaðinn þá þarf að binda hann til að minnsta kosti 36 mánaða.
Uppgefin vaxtakjör á verðtryggðum reikningum eru lægri en á sambærilegum, óverðtryggðum reikningum. Til þess að gera vaxtakjör þessara ólíku sparnaðarleiða samanburðarhæf er hægt að draga verðbólguna frá vaxtakjörum óverðtryggðra lána. Verðbólgan er í dag 0,8% en rétt eins og fyrri daginn þá er ómögulegt að spá fyrir um með fullri vissu hver verðbólgan verður eftir nokkra mánuði eða ár. Með því að binda sparifé sitt á verðtryggðum reikningum er það tryggt að verðbólgan rýri ekki sparnaðinn.
Samanburður á reikningum
Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar valin er sparnaðarleið. Oft spörum við fyrir einhverju ákveðnu og bankarnir bjóða leiðir ætlaðar slíkum sparnaði. Þá er til dæmis líklegt að langur binditími henti einfaldlega ekki. Sparnaður til efri áranna gæti aftur á móti hentað vel til þess að binda til langs tíma, með verðtryggingu og sem hæstum vöxtum.
Taka ber að taflan sýnir kjörin eins og þau birtast á vefsíðum bankanna. Vaxtakjör eru breytileg og uppfæra bankarnir kjörin mánaðarlega. Til þess að kynna sér þessar leiðir nánar eru frekari upplýsingar að finna á vefsíðum bankanna og sparisjóðanna.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.