Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Fyrir einu ári síðan héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í gær að það hlutfall er nú komið upp í rúmlega 67 prósent.
Samhliða þessari þróun hefur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja aukist gríðarlega. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út síðasta ár var alls um 665 milljarðar króna á umræddu tímabili, samkvæmt sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Þrjár blokkir í sérflokki
Miðað við nýjasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 9,41 prósent hans. Þá keypti Síldarvinnslan útgerðarfyrirtækið Berg Huginn í fyrra en það heldur á 1,03 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar, sem var skráð á hlutabréfamarkað fyrr á þessu ári, eru Samherji hf. (32,64 prósent) og Kjálkanes ehf. (17,44 prósent), félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Auk þess á Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, fjögur prósent hlut. Samanlagt halda því þessir þrír aðilar á um 54,1 prósent hlut í Síldarvinnslunni og skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum þess.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,1 prósent kvótans.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, halda því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Brim yfir lögbundnum mörkum
Brim, sem er skráð á markað, er sú útgerð sem heldur beint á mestum kvóta, eða 13,2 prósent hans. Það er eina sjávarútvegsfyrirtækið sem heldur á hærri hlutdeild af verðmæti kvóta en heimilt er samkvæmt lögum. Brim hefur nú sex mánuði til að leysa úr þeirri stöðu.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 2,23 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 0,76 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 16,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Kaupfélagsblokkin og Ísfélagið ekki langt frá mörkunum
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 3,4 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með sjö prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 1,1 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,17 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja 11,7 prósentum, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Ísfélag Vestmannaeyja, sem á meðal annars hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins, fékk um 20 prósent af nýlega stórauknum loðnukvóta í sinn hlut. Fyrirtækið rýkur upp listann yfir þær útgerðir sem halda á mestum heildarkvóta. Í fyrrahaust var hlutdeild Ísfélagsins 3,78 prósent. Hún er nú 10,05 prósent.
Samanlagt halda þessar fjórar blokkir: Þær sem kenndar eru við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.