Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlar á síðustu tveimur árum í embætti að beita sér fyrir skattabreytingum sem ætlað er að auka jöfnuð í bandarísku samfélagi. Áform forsetans eru meðal annars að leggja á hærri bankaskatta, hækka þak fjármagnstekjuskatts, loka glufum í skattkerfinu sem forsetinn segir hina efnameiri hafa getað nýtt sér, og bjóða námsmönnum og barnafjölskyldum skattaafslætti.
Skattkerfið og jöfnuður í samfélaginu voru meðal áhersluatriða í stefnuræðu Obama sem hann flutti í gærkvöldi, svokallaðri State of the Union ræðu. Forsetinn vill með breytingunum auka skatta á hina efnameiri en lækka skattbyrði á millistétt og lágtekjufólk. Það er alls óvíst hvort þessu baráttumáli forsetans verði veitt brautargengi, en Repúblikanar eru í meirihluta á bæði löggjafarþinginu og í öldungardeild þingsins.
Aukinn þungi í umræðunni
Það má velta fyrir sér orðum Obama í stærra og smærra samhengi hlutanna. Undanfarin misseri hefur aukinn ójöfnuður í samfélaginu, þar sem hinir ríkir verða ríkari, verið í sviðsljósi hagfræðinnar og stjórnmálanna. Bókin Fjármagn á 21. öldinni eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty vakti mikla athygli á síðasta ári og þrátt fyrir að hafa hlotið bæði lof og mikla gagnrýni er óumdeilt að bókin hefur hrist upp í umræðunni um ójöfnuð svo um munar. Megin kenning Piketty er sú að yfir lengri tíma þá ávaxtist fjármagn hraðar heldur en vöxtur landsframleiðslu. sem leiði óumflýjanlega til samþjöppunar auðs.
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur einnig lagt aukna áherslu á rannsóknir og stefnumál tengd jöfnuði og misskiptingu auðs. Í fyrra var birt skýrsla þar sem fullyrt var að ójöfnuður dragi úr hagvexti. Ýmis gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á samþjöppun auðs og aukinn ójöfnuð. Meðal annars var nýlega haft eftir Lawrence Summers, prófessor við Harvard háskóla og efnahagsráðgjafa Obama, að ef tekjuskipting í Bandaríkjunum í dag væri eins og árið 1979, þá ættu neðstu 80% samfélagsins einni billjón meira, eða ellefu þúsund dollurum meira á hverja fjölskyldu, og ríkasta eina prósent fólks ætti einni billjón minna, eða 750 þúsund dollurum minna hver.
Þá hefur nýútgefin skýrsla Oxfam samtakanna vakið mikla athygli í liðinni viku, en þar er litið til auðs ríkustu einstaklinga heimsins. Samtökin segja bil milli hinna ofurríku og annarra fara vaxandi. Á sama hraða muni þessi fámenni hópur eiga 50% alls auðs fyrir lok næsta árs. Skýrsla Oxfam kemur út í aðdraganda Alþjóðlega efnahagsþingsins, World Economic Forum í Davos. Þingið hófst í dag, miðvikudag.
Kári Stefánsson í viðtali hjá Helga Seljan í þáttunum Ferð til fjár.
Kári og forsetinn sammála
Umræðan um jöfnuð, misskiptingu auðs, skattbyrði og réttlæti er ekki einskorðuð við Bandaríkin. Ummæli Kára Stefánssonar í fyrsta þættinum af Ferð til fjár vöktu mikla athygli í síðustu viku. Þar sagði Kári íslenska skattkerfið óréttlátt og það hygla hinum efnameiri. Það fælist meðal annars í mishárri skattlagningu á fjármagnstekjur og launatekjur, og leiði til ójöfnuðar sem íslenskt samfélag þoli verr en stærri samfélög.
Heyra má samhljóm í málflutningi Kára og Bandaríkjaforseta. Báðir tala fyrir að hinir efnameiri beri aukinn skattbyrði sem verði á móti lækkuð á tekju- og eignalægri hópa samfélagsins. Þetta verði meðal annars gert í gegnum hærri fjármagsntekjuskatt. Ólíkt hafast þeir þó að, því á meðan Obama leggur brátt fram frumvarp með tillögum að skattabreytingum, þá sagði Kári í viðtali við Helga Seljan að „kannski, guði sé lof fyrir ykkur, þá hef ég afskaplega lítil áhrif á þetta samfélag“.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 22. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.