Samtök iðnaðarins vilja að stjórnvöld haldi áfram að endurgreiða 100 prósent virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað til að stuðla að aukinni húsnæðisuppbyggingu.
Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um fyrirliggjandi fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027 sem skilað var inn til fjárlaganefndar í síðustu viku. Um er að ræða endurgreiðslur undir hatti átaks sem kallast „Allir vinna“ og felur í sér endurgreiðslu á virðisaukaskatt vegna ýmiss konar iðnaðarvinnu, þar á meðal byggingar og viðhald húsnæðis og bílaviðgerðir.
Átakinu var fyrst hrundið af stað í kjölfar fjármálahrunsins frá 2010 til 2015, en það var svo komið aftur á árið 2020, þegar búist var við hruni í byggingariðnaðinum vegna heimsfaraldursins.
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lagt var fram í desember í fyrra kom fram að auknar og útvíkkaðar endurgreiðslur á virðisaukaskatti frá byrjun faraldursins til ársloka 2021 hafi numið 16,5 milljörðum króna. Þar sagði einnig að ef úrræðin yrðu framlengd í óbreyttri mynd út árið 2022 gæti ríkissjóður orðið af 12 milljörðum króna á næsta ári.
Ráðuneytið lagðist gegn framlengingu
Þegar fjárlög vegna ársins 2022 voru til umfjöllunar á Alþingi í fyrra var þó ákveðið að framlengja úrræðið í takmarkaðri mynd út ágústmánuð 2022 í kjölfar beiðni um slíkt frá Samtökum iðnaðarins. Það gerðist í nefndarstörfum innan efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði hins vegar mælt gegn slíkri framlengingu í áðurnefndu minnisblaði sem það sendi til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, en þar stóð að hún fæli í sér innspýtingu á fjármagni í hagkerfi sem sé nú þegar þanið.
Áætlaður tekjumissir ríkissjóðs vegna þessara breytinga nemur 7,2 milljörðum króna á árinu 2022. Til þess að setja þá tölu í samhengi, þá er það sambærileg upphæð og áætlað er að verja til byggingar nýs Landspítala á árinu.
Vinni gegn svartri atvinnustarfsemi
Nú vilja Samtök iðnaðarins að 100 prósent endurgreiðslan verði lengur við lýði. Í umsögn sinni um fjármálaáætlun segja þau að átakið hafi leitt til þess að uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis var betur sinnt en áður bæði hjá neytendum og ekki síður sveitarfélögum á faraldurstímanum. „Verkefninu hefur einnig fylgt ávinningur í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi, ásamt því að skapa störf og viðhalda verðmæti eigna.“
Samtökin segja að óhætt sé að fullyrða að átakið hafi átt sinn þátt í því að niðursveiflan í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hafi verið minni en oft áður í fyrri efnahagsniðursveiflum. „Átakið hefur verið vel nýtt af neytendum sem hafa með viðhaldi og endurbótum stutt við starfsemi einyrkja og minni fyrirtækja sem starfa á viðhaldsmarkaði. Á þeim markaði eru faglærðir iðnaðarmenn oft í samkeppni við réttindalausa aðila og svarta atvinnustarfsemi en átakið dregur í eðli sínu úr slíkum viðskiptaháttum og styður því við fyrirtæki sem vinna eftir lögum og reglum.“
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram formlega fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra þann 17. janúar síðastliðinn um hvernig endurgreiðsluupphæðir vegna verkefnisins „Allir vinna“ árin 2020 og 2021 skiptust eftir sveitarfélögum, lögaðilum, einstaklingum og tekjutíundum. Auk þess spurði hún hvort meintur ávinningur ríkissjóðs vegna átaksins, sem Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að væri „óyggjandi“, hefði verið metinn.
Nú, fjórum mánuðum eftir að fyrirspurnin var lögð fram, hefur henni enn ekki verið svarað.
Fjármálaáætlun er á dagskrá fundar fjárlaganefndar í dag þegar Alþingi tekur aftur til starfa að loknum sveitarstjórnarkosningum.