Víðtæk notkun á húsnæðisleigumiðlinum Airbnb í San Francisco í Bandaríkjunum hefur leitt til verulegra hækkana á leiguverði í borginni. Borgaryfirvöld eru uggandi um neikvæð áhrif vefsíðunnar á leigumarkaðinn og skoða nú þann möguleika að setja lög sem takmarka enn frekar fjölda leyfilegra gistinátta í skammtímaleigu.
Margir húsnæðiseigendur í San Francisco sjá hag sínum betur borgið með útleigu til skamms tíma í gegnum Airbnb, að hluta eða öllu leyti, í stað þess að leigja íbúðir sínar til lengri tíma. Þetta hefur leitt til samdráttar í framboði á leiguíbúðum fyrir íbúa borgarinnar og tilheyrandi hækkunum á leiguverði, sem hefur rokið upp um 15 prósent á síðasta árinu. Í vinsælum hverfum borgarinnar hefur framboð á leiguíbúðum til lengri tíma dregist saman um allt að 40 prósent.
Í maí síðastliðnum birtu borgarhagfræðingar San Francisco nýja skýrslu um hagræn áhrif Airbnb í borginni. Niðurstaða þeirra er að sá kostnaður sem hlýst af hækkandi íbúða- og leiguverði vegna Airbnb sé mun meiri en tekjurnar af þeim ferðamönnum sem heimsækja borgina og gista í Airbnb íbúðum, greiða fyrir það gjald, eyða peningum í borginni auk þess sem leigusalar greiða gistináttaskatt vegna starfseminnar. Nokkurs konar ábata- og kostnaðargreining hagfræðinganna er því sú að heildaráhrif Airbnb séu neikvæð fyrir borgina í dag.
Lausnin sem litið er til felst í áðurnefndu hámarki á fjölda gistinátta í íbúðahúsnæði. Borgaryfirvöld kanna meðal annars þessar vikurnar möguleika þess að innleiða lög sem setja 60 daga árlegt hámark á fjölda gistinótta. Þannig gæti íbúðaeigandi aðeins leigt íbúð sína í skammtímaleigu í samtals 60 daga á ári. Með lagabreytingunum vilja stjórnvöld draga úr hvata íbúðaeigenda til þess að leigja eign sína í gegnum Airbnb og beina hagsmunum þeirra í langtímaleigusamninga.
Deila við borgaryfirvöld víða
Fyrirtækið Airbnb var stofnað í San Francisco árið 2008 og eru höfuðstöðvar þess í borginni í dag, eins og höfuðstöðvar margra annarra nýrra og ört vaxandi fyrirtækja í tæknigeiranum. Vöxtur Airbnb undanfarin ár hefur verið ótrúlegur. Virði fyrirtækisins miðað við síðustu hlutafjárviðskipti eru 24 milljarðar dollarar og er talið að tekjur Airbnb í ár verði hærri en 900 milljónir dollara.
Vöxturinn hefur ekki komið fyrirtækinu að kostnaðarlausu og viðskiptamódelið, oft kennt við hið svonefnda deilihagkerfi, hefur mætt andstöðu. Þrátt fyrir fyrirhugaðar lagasetningu, þá er skilningur borgaryfirvalda í San Francisco á starfsemi Airbnb töluvert meiri en í mörgum öðrum borgum. Starfsemi félagsins var til að mynda gerð lögmæt í San Francisco seint á síðasta ári. Heimilt er að leigja út íbúð sína í 90 daga í skammtímaleigu á ári og ótakmarkað ef aðeins er um að ræða herbergi eða hluta húsnæðis, og eigandi þess er áfram búsettur í því.
Viðhorfið hefur verið þveröfugt annars staðar í Bandaríkjunum, til dæmis í New York borg, þar sem borgaryfirvöld hafa viljað takmarka starfsemi vefsíðunnar verulega. Raunar þarf ekki að fara vestur um haf til að finna deilur vegna vinsælda Airbnb, í Reykjavík hafa eftirlitsaðilar viljað sporna gegn útleigu í gegnum síðuna.
Borgin yrði af skatttekjum
Viðbrögð stjórnenda Airbnb við skýrslu borgarhagfræðinganna voru meðal annars þau að opinbera um þá skatta sem félagið greiðir í mánuði hverjum til borgarsjóðs, en skattarnir eru innheimtir af þeim sem leigja út íbúðir sínar á Airbnb.com. Í hverjum mánuði greiðir Airbnb rúmlega eina milljón dollara í borgarsjóð, eða jafnvirði um 130 milljóna króna á mánuði. Samkvæmt útreikningum Airbnb yrði San Francisco af um 50 milljónum dollara tekjum á næstu tíu árum, verði lög innleidd sem setja hámark við fjölda gistinátta. Þá benda stjórnendur Airbnb á að fleiri ferðamenn komi til borga þar sem eru Airbnb leiguíbúðir, auk þess sem skammtímaútleiga hjálpi íbúðaeigendum og -leigjendum við að ná endum saman.
Matið þarf að vera rétt
Skýrsla borgarhagfræðinga San Francisco er merkileg fyrir margra hluta sakir, en tekið er fram að skortur á upplýsingum geri það að verkum að ekki sé hægt að reikna nákvæmlega hvaða áhrif Airbnb hefur á leigumarkaðinn í borginni og leiguverðið. Reiknilíkan þeirra sýni þó að neikvæð áhrif þess að missa hverja íbúð af langtímaleigumarkaði yfir á skammtímaleigumarkað séu á bilinu 250 til 300 þúsund dollarar, eða á bilinu 33 til 40 milljónir króna.
Framlögð lausn er áðurnefnt þak á fjölda gistinátta á ári hverju. Þetta þak má ekki vera of hátt, þannig að áhrif þess séu engin, né of lágt, þannig að leiga í gegnum Airbnb yrði gerð nánast ómögulegt, líka þeim sem ekki hafa tekið íbúðir af langtímaleigumarkaðinum heldur leigja aðeins út eigin íbúð af og til. Eins og fyrr greinir er íbúðaeigendum í San Francisco heimilt í dag að leigja út íbúðir sínar í allt að 90 daga á ári í skammtímaleigu.
En stjórnmálamenn vilja lækka þakið og hafa einkum rætt tvær tillögur. Sú fyrri er að hækka þakið í 120 daga en láta það gilda um alla, sama hvort öll íbúðin sé til leigu eða ekki. Hin tillagan gengur mun lengra og myndi setja hámarksfjölda gistinátta í 60 nætur. Vonir borgaryfirvalda standa til að með réttu hámarki gistinátta sjái eigendur leigjuíbúða hag sinn í að leigja þær út í meiri mæli til langs tíma.