Þrír stjórnarandstöðuflokkar hafa lagt fram sex ítarlegar og umfangsmiklar breytingartillögur á frumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum. Tillögurnar voru lagðar fram eftir að Jón leitaði samtali við andstöðuflokka á þingi við að koma frumvarpinu í gegn og ljúka þingstörfum, en þinglok eru áætluð á föstudag. Meginþorri stjórnarandstöðuflokkanna hefur hingað til neitað að semja um þinglok nema að frumvarpinu verði breytt verulega eða það einfaldlega dregið til baka.
Tillögunum var komið til Jóns í gær og formenn þingflokka allra þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi eru einnig með þær undir höndum.
Það er ekki einungis innan raða þeirra sem andstaða er við frumvarp Jóns. Þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi það til að mynda með fyrirvara. Mjög langt er á milli yfirlýstrar útlendingastefnu flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og þeirrar sem Sjálfstæðisflokkurinn rekur. Stutt er síðan að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sá sig knúinn til að mæta í tíufréttir RÚV til að segja að Jón Gunnarsson væri að segja ósatt þegar hann sagði að samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um brottvísun stórs hóps flóttamanna sem hefur ekki verið hægt að senda burt vegna Covid-19 tengdra mála. Guðmundur Ingi, sem er varaformaður Vinstri grænna, sagðist ekki ánægður með þá vegferð sem Jón væri á í málinu og að hann, og fleiri ráðherrar, hefðu gert alvarlegar athugasemdir við hana á ríkisstjórnarfundi.
Útlendingapólitík sitjandi dómsmálaráðherra er gríðarlega óvinsæl í grasrót Vinstri grænna og sú ólga bætist við bankasöluhneykslið sem hefur gengið mjög á pólitíska inneign flokksins og forsætisráðherra. Kannanir sýna að Katrín hefur tapað um fjórðungi þess trausts sem hún naut í lok síðasta árs og fjöldi þeirra sem vantreysta henni hefur næstum tvöfaldast á sama tíma. Í nýjustu könnun Gallup mældist stuðningur við ríkisstjórn hennar sá allra minnsti sem hann hefur mælst frá því að hún settist að völdum síðla árs 2017 og fylgi Vinstri grænna hefur ekki mælst minna síðan á fyrstu vikunum eftir að Katrín tók við sem formaður vorið 2013.
Logi fundaði með Jóni
Viðmælendur Kjarnans eru sammála um að það sé því ekki einungis stjórnarandstaðan sem stendur í vegi fyrir framgangi frumvarps Jóns. Verulegur þrýstingur sé á Jón innan úr ríkisstjórnarflokkunum, meðal annars úr hans eigin flokki, að breyta frumvarpinu þannig að það geti náð í gegn.
Jón sagði við RÚV á laugardag að hann hefði rætt við stjórnarandstöðuna um að vinna að lausn og fá efnislegar athugasemdir um ákveðna þætti frumvarpsins. „Þannig að ég hef rétt fram sáttarhönd og átt fundi með ákveðnum forsvarsmönnum úr stjórnarandstöðunni. þau eru að skoða þau mál núna. Ég vona að það verði tekið í þessa sáttarhönd og að við getum sýnt samstöðu um að klára þessi mál vegna þess að það er mjög mikilvægt að koma á þessari skilvirkni gagnvart því fólki sem hingað leitar í þágu Þeirra sem raunverulega þurfa á vernd að halda.“
Heimildir Kjarnans herma að Logi Einarsson og starfsmaður þingflokks Samfylkingarinnar hafi meðal annars átt fund með Jóni nýverið þar sem reynt var að semja um leiðir til að koma útlendingafrumvarpi Jóns í gegnum þingið.
Í gær lágu loks fyrir þær tillögur sem þrír flokkar úr stjórnarandstöðunni: Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, sögðu að Jón þyrfti að taka tillit til ef það ætti að geta komið frumvarpinu í gegn og ljúka þingstörfum. Píratar standa ekki að þeim tillögum sökum þess að þeir eru einfaldlega á móti þeirri aðferðafræði að semja við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um niðurstöðu málsins.
Umfangsmiklar breytingar
Í tillögunum, sem Kjarninn hefur undir höndum, eru sex umfangsmiklar breytingatillögur á frumvarpinu, nokkrar með undirliðum. Í fyrsta lagi er lagt til breyting þess efnis að útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um vernd njóti áfram þjónustu þar til hann yfirgefur landið, en missi hana ekki eftir 30 daga líkt og frumvarp Jóns segir til um. Slík niðurfelling réttinda veltir ábyrgðinni alfarið yfir á sveitarfélögin sem verða að veita útlendingi í neyð lágmarksaðstoð sem og brýtur harkalega á rétti þeirra einstaklinga sem stöðu sinnar vegna geta ekki yfirgefið landið vegna skorts á ferðaheimild.
Í öðru lagi eru lagðar til breytingar um að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti áfram lágmarksverndar stjórnsýslulaga um endurupptöku máls vegna nýrra gagna eða upplýsinga.
Vilja að framkomnar tillögur verði felldar inn í frumvarpið
Í fjórða lagi er lögð til sú breyting að réttur kvótaflóttafólks til fjölskyldusameiningar hér á landi sé til jafns við rétt annarra sem hér hafa fengið vernd. Í fimmta lagi á umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem ekki hefur tekist að endursenda/brottvísa til annars ríkis innan tveggja ára frá umsókn, að eiga kost á að sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum ásamt atvinnuleyfi. Rökin fyrir þessu eru annars vegar mannúð því fólk þarf ella að lifa á jaðri samfélagsins árum saman þar sem ekki er hægt að flytja viðkomandi af landinu og hins vegar skilvirkni fyrir kerfið sem annars þarf að styðja viðkomandi fjárhagslega um alla framtíð.
Í sjötta og síðasta lagi vilja stjórnarandstöðuflokkarnir þrír að lagðar verði inn í frumvarpið áður framkomnar tillögur þeirra þriggja og Pírata til verndar þeim hópi flóttafólks sem hér hefur ílengst vegna Covid-19 takmarkana síðastliðin tvö ár. Þær tillögur, sem voru settar fram í þingsályktunartillögu sem dreift var í síðustu viku, fólu í sér að dráttur sem orðið hefur á brottflutningi, sem kom til vegna heimsfaraldurs, verði ekki sagður á ábyrgð umsækjenda sjálfra. Þannig njóti þeir sömu réttinda og aðrir í sömu stöðu, þannig að þeir flóttamenn sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niðurstaða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnismeðferð og hins vegar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.