Seðlabankinn segist ekki þurfa að svara fyrir félag sem hann átti vegna þess að því hefur verið slitið
Það er niðurstaða Seðlabanka Íslands að hann þurfi ekki að afhenda upplýsingar um ráðstöfun hundruð milljarða króna eigna út úr ESÍ, fjárfestingarleið bankans og stöðugleikasamninga sem gerðir voru við kröfuhafa föllnu bankanna. Lagabreyting sem tók gildi fyrir tæpum tveimur og hálfu ári kallar á að bankinn líti til hagsmuna almennings af því að fá að vita þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Niðurstaða Seðlabankans er að hagsmunir viðskiptamanna hans af því að leynd ríki um viðskipti þeirra vegi meira.
Seðlabanki Íslands ætlar ekki að afhenda Kjarnanum afrit af stöðugleikasamningunum sem gerðir voru árið 2015 né upplýsingar um hverjir fengu að nýta fjárfestingarleið hans. Þá segist bankinn ekki telja að hann þurfi að svara beiðnum um gögn sem tengjast Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) þar sem félagið sjálft hafi svarað slíkum beiðnum á starfstíma sínum. Nú þegar búið sé að slíta ESÍ – því var slitið 2019 – sé það ekki hlutverk Seðlabankans að taka við því hlutverki að svara fyrirspurnum til þess.
ESÍ ráðstafaði tæplega 500 milljörðum króna af ríkiseignum sem hið opinbera sat uppi með eftir bankahrunið og var oft kallað „ruslakista Seðlabankans“. Seðlabanki Íslands var eini hluthafi ESÍ og stjórnarformaður félagsins við stofnun var þáverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson. Með honum í stjórn félagsins sátu yfirlögfræðingur Seðlabankans og lykilstjórnandi innan hans. Seðlabankinn hefur árum saman unnið að gerð skýrslu um ESÍ sem átti að koma út árið 2018, en hefur enn ekki verið birt. Því liggur fyrir að bankinn hefur öll gögn um starfsemi félagsins undir höndum. Kjarninn vildi fá að vita hvaða eignir hafi verið færðar inn í ESÍ, hvenær þær voru seldar, á hvaða verði, hverjir voru milliliðir og fá yfirlit yfir kaupendur allra þeirra eigna sem seldar voru út úr ESÍ.
Kjarninn sendi beiðnina um gagnaafhendinguna til Seðlabankans í kjölfar þess að forsætisráðuneytið, sem Seðlabankinn heyrir undir, neitaði að leggja mat á hvort hagsmunir almennings af birtingu ofangreindra gagna vegi þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd. Það gerði ráðuneytið með þeim rökstuðningi að það hefði ekki umrædd gögn undir höndum og gæti því ekki tekið afstöðu til þess hvort þagnarskylduákvæði laga um starfsemi Seðlabankans ætti við. Það væri bankans sjálfs að leggja mat á það hvort hagsmunir almennings af birtingu upplýsinganna vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með leynd. Því þyrfti að beina fyrirspurn Kjarnans þangað.
Kjarninn hefur óskað eftir því að Seðlabankinn tilgreini hvaða einstaklingur geti svarað fyrirspurnum um ESÍ svo hægt sé að senda fyrirspurnir á viðkomandi.
Ráðuneyti vilja ekki leggja sjálfstætt mat á afhendingu
Fyrirspurnir Kjarnans voru sendar eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði „sjálfstætt mat“ á að birta ætti lita yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka þrátt fyrir að Bankasýsla ríkisins, sem heyrir undir það ráðuneyti, teldi þá birtingu ekki standast lög. Kjarninn fór fram á að forsætisráðuneytið legði sambærilegt sjálfstætt mat á opinberun gagna sem Seðlabankinn hefur undir höndum og rök væru fyrir að eigi brýnt erindi við almenning.
Þegar listinn yfir þá sem fengu að kaupa í Íslandsbanka var birtur sagði í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði metið málið þannig að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta falli „ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Í tilkynningu formanna sitjandi stjórnarflokka sem birtist á vef stjórnarráðsins 19. apríl síðastliðinn, stóð svo að traust og gagnsæi verði að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Í þeirri tilkynningu sagði orðrétt: „Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.“
Með sömu rökum var þess óskað að forsætisráðuneytið legði sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram um að þagnarskylduákvæði skuli ríkja yfir nöfnum þeirra sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, mat á afhendingu upplýsinga um ráðstöfun eigna ESÍ og afhendingu stöðugleikasamninganna sem gerðir voru 2015. Fjármála- og efnahagsráðuneytið var sömuleiðis beðið um að leggja sjálfstætt mat á afhendingu stöðugleikasamninganna. Ráðuneytin vildu ekki gera slíkt og bentu á Seðlabanka Íslands. Hann ætti að svara þessum fyrirspurnum.
Lagabreyting sem átti að veita heimild til að aflétta leynd
Seðlabankinn hefur hingað til synjað afhendingu á umræddum gögnum á grundvelli þagnarskylduákvæða laga um starfsemi hans, hvort sem um beiðnir frá þingmönnum eða fjölmiðlum hafi verið að ræða. Auk þess hafa fallið úrskurðir hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem tekið er undir þá afstöðu.
Í svari forsætisráðuneytisins var hins vegar bent á að með nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem sett voru árið 2019 og tóku gildi í byrjun árs 2020, hafi verið bætt við ákvæði þar sem bankanum er veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði, „vegi hagsmunir almennings af birtingunni þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.“
Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögunum segir að áður en ákvörðun sé tekin um slíka afhendingu þurfi að liggja fyrir greining á þeim hagsmunum sem vegast á í hverju tilviki fyrir sig. „Þá beri við mat á hagsmunum almennings af birtingu upplýsinga m.a. að líta til þess hvort þær varði ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem almenningur eigi almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að.“
Kjarninn sendi því fyrirspurnir til Seðlabankans þar sem hann var beðinn um að leggja mat á hagsmuni almennings af birtingu gagnanna og að rökstyðja það mat.
Neita að afhenda stöðugleikasamninga
Seðlabankinn svaraði Kjarnanum í þessari viku. Bankinn neitaði að afhenda stöðugleikasamninganna meðal annars á þeim grundvelli þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi áður neitað að afhenda hann, og að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi staðfest að sú neitun ætti sér stoðir.
Þess ber að geta að Kjarninn hafði áður óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið myndi afhenda miðlinum samningana. Í svari við þeirri beiðni vísaði ráðuneytið á Seðlabanka Íslands sem var samningsaðili við gerð samningana.
Seðlabankinn vísaði í fyrstu málsgrein greinar laga um starfsemi sína sem fjallar um þagnarskyldu þegar hann svaraði fyrirspurn Kjarnans og neitaði að afhenda samningana.
Það ákvæði veitir Seðlabankanum opna heimild til að neita almenningi og fjölmiðlum aðgang að nánast hverju sem er. Vegna þessa var áðurnefndu nýju ákvæði bætt inn í lög um Seðlabankann fyrir þremur árum síðan þar sem honum var veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði.
Hagsmunir almennings látnir víkja fyrir hagsmunum viðskiptamanna
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var opin 2012 til 2015. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvaraði um 206 milljörðum króna. 794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboðin á tíma þar sem ströng fjármagnshöft voru við lýði. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Seðlabankinn hefur aldrei viljað upplýsa um hverjir það voru sem fengu að nýta þessa leið. Í svari hans nú er bent á að beiðni Kjarnans um aðgengi að slíkum upplýsingum hafi áður verið hafnað af úrskurðarnefnd um upplýsingamál með úrskurði 31. janúar 2019.
Sá úrskurður féll hins vegar áður en nýju lögin, sem leggja ríkari skyldur á Seðlabanka Íslands um að afhenda gögn með tilliti til almannahagsmuna, tóku gildi.
Í svari Seðlabanka Íslands segir að það sé nægjanlegt að umbeðnar upplýsingar falli að þagnarskylduákvæði laga um starfsemi bankans, að þær varði hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskylda aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og önnur atriði sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, til að upplýsingaréttur almennings verði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins. „Um hagsmunamat samkvæmt 6. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 er það að segja að eftir skoðun á umbeðnum gögnum er það mat Seðlabankans að þau séu undirorpin sérstakri þagnarskyldu á grundvelli 1. mgr. sama ákvæðis. Í slíku mati felst að meintir hagsmunir almennings af því að fá að kynna sér upplýsingar eru látnir víkja fyrir meiri hagsmunum Seðlabankans sjálfs og í þessu tilviki viðskiptamanna hans að um þær ríki leynd.“
Þagnarskylda trompar almannahagsmuni af því að vita
Þá að brot gegn þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands geti varðað refsingu með sektum eða fangelsi. „Þar sem það er mat bankans að annars vegar stöðugleikasamningar við föllnu bankana og hins vegar gögn um þátttakendur í fjárfestingarleið séu háð þagnarskyldu er honum beinlínis skylt að synja um aðgang að þeim.“
Samkvæmt þessum rökstuðningi virðist Seðlabanki Íslands telja að það viðbótarákvæði sem bætt var inn í lög um starfsemi hans sé í raun marklaust. Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um hvort það sé skilningur bankans og hvort hann telji þar af leiðandi að breytingin á lögunum árið 2019, í frumvarpi lagt fram af forsætisráðherra og samþykkt með meirihluta atkvæða á Alþingi, hafi ekki raunverulega virkni þar sem hagsmunir almennings á að fá að vita séu aldrei raunverulega metnir.
Kjarninn hefur gert athugasemdir við þessi svör og kallað eftir því að Seðlabankinn meti almannahagsmuni af því að veita aðgengi að gögnunum og rökstyðji niðurstöðu sína á grundvelli þess mats, líkt og lög segja til um að honum beri að gera.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði