Síldarvinnslan hefur keypt útferðarfyrirtækið Vísi í Grindavík á 31 milljarð króna. Félagið greiðir 20 milljarða króna fyrir allt hlutafé í Vísi auk þess sem það tekur yfir ellefu milljarða króna af vaxtaberandi skuldum. Alls verður 30 prósent af kaupverðinu, sex milljarðar króna, greiddir með reiðufé en 14 milljarðar króna verða greiddir með nýju hlutafé í Síldarvinnslunni. Vísir er í eigu sjö einstaklinga sem öll tengjast fjölskylduböndum. Stærstan hlut á Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis, sem mun halda áfram sem aðalframkvæmdastjóri félagsins eftir sameiningu. Pétur á 20,14 prósent hlut og því fær hann rúma fjóra milljarða króna í sinn hlut við söluna. Fjórar systur hans eiga 15,97 prósent hlut hver og fá um 3,2 milljarða króna í sinn hlut. Hjónin Guðmunda Kristjánsdóttir og Páll Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og bróðir Péturs, eiga líka samtals 15,97 prósent og fá sömu upphæð.
Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, því að áreiðanleikakönnun skili fullnægjandi niðurstöðu og að hluthafafundur Síldarvinnslunnar samþykki kaupin. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verði í Grindavík gangi áformin eftir.
Þetta eru önnur risaviðskipti Síldarvinnslunnar á skömmum tíma. Fyrir mánuði síðan var tilkynnt um kaup á 34,2 prósent hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um 13,7 milljarða króna. Það félag á allt hlutafé í Arctic Fish ehf. sem er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó.
Fara yfir löglegt kvótaþak
Bæði Síldarvinnslan og Vísir eru risastór útgerðarfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Það fyrrnefnda var skráð á markað í fyrra, velti rúmlega 30 milljörðum króna á árinu 2021 og hagnaðist um ellefu milljarða króna. Því er sá hluti sem Síldarvinnslan greiðir í reiðufé fyrir Vísi, sex milljarðar króna, um 55 prósent af hagnaði eins árs í rekstri Síldarvinnslunnar.
Vísir velti um tíu milljörðum króna í fyrra og hagnaðist um liðlega 800 milljónir króna.
Verði þessi viðskipti staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitinu munu núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar fara yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta. Vísir hélt á 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta þegar greint var frá því hvernig hann skiptist á milli útgerða í nóvember í fyrra. Síldarvinnslan var þá skráð með 9,41 prósent af úthlutuðum kvóta og því ljóst að annað hvort félagið, eða bæði, hafa bætt við sig kvóta síðan þá.
Mikil samþjöppun í geiranum
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent. Samþjöppunin eykst enn við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi.
Samhliða þessari þróun hefur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja aukist gríðarlega. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út árið 2020 var alls um 665 milljarðar króna á umræddu tímabili, samkvæmt sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna. Gera má ráð fyrir að hagnaður geirans hafi verið gríðarlegur í fyrra og að hann verði mjög mikill í ár líka.
Samherji og mögulega tengdir aðilar með næstum fjórðung
Miðað við nýjasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 9,41 prósent hans. Þá keypti Síldarvinnslan útgerðarfyrirtækið Berg Huginn á árinu 2020 en það heldur á 1,03 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Samkeppniseftirlitið birti þá niðurstöðu frummats síns í febrúar 2021 að til staðar væru vísbendingar um um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni. Síðan að sú niðurstaða var birt hefur, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið kallað eftir gögnum frá stjórnvöldum, Samherja, Síldarvinnslunni og öðrum tengdum aðilum vegna málsins. Sú gagnaöflun hafi gengið vel en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í formlega rannsókn á málinu.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar, sem var skráð á hlutabréfamarkað í fyrra, eru Samherji hf. (32,64 prósent) og Kjálkanes ehf. (17,44 prósent), félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Auk þess á Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, 3,79 prósent hlut. Samanlagt halda því þessir þrír aðilar á um 53,9 prósent hlut í Síldarvinnslunni og skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum þess.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,1 prósent kvótans.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, héldu því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra. Nú bætist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fer upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.