Alþingi kemur saman á ný á þriðjudag eftir jólafrí. Kjarninn tók saman nokkur af stærstu málunum sem munu koma til kasta þingsins á vorþinginu.
1. Kvótafrumvörp
Til stendur að breyta lögum um fiskveiðistjórnunarkerfið og um veiðigjöld. Frumvarpið hefur ekki verið kynnt formlega, en í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar kemur fram að áfram verði unnið á grunni tillögu sáttanefndar í sjávarútvegi, sem starfaði á síðasta kjörtímabili.
Gert er ráð fyrir því að gerðir verði nýtingasamningar til 23 ára um aflaheimildir og álagning veiðigjalda verði einfölduð, þannig að þau verði aðeins lögð á útgerðir og verði innheimt miðað við aflaverðmæti. Ekki verða gerðar breytingar á pottum fyrir byggðakvóta, strandveiðar og leigukvóta.
Þá hefur komið fram að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst mögulega leggja fram sérstakt frumvarp um kvótasetningu makríls, „vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru um stjórn makrílveiða.“
2. Evrópusambandsaðild dregin til baka
Á síðustu vikum hafa Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra allir tjáð sig um framlagningu þingsályktunartillögu um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Tillagan var lögð fram á síðasta þingi, vakti mjög hörð viðbrögð og fór aldrei úr nefnd.
Sigmundur Davíð sagðist í upphafi árs búast við því að ný tillaga yrði lögð fram á vorþingi, Gunnar Bragi segir að afstaða hans hafi ekki breyst frá því hann lagði tillöguna fram síðast og Bjarni segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni styðja tillöguna komi hún fram. Gunnar Bragi hefur þó sagt að mögulega verði gerðar einhverjar breytingar á tillögunni.
Búast má við alveg jafn hörðum viðbrögðum við tillögunni nú eins og síðast þegar hún var lögð fram. Nú þegar hafa aðstandendur útifundanna sem haldnir voru þá sent frá sér yfirlýsingu um málið þar sem þess er enn krafist að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda eigi viðræðum við Evrópusambandið áfram.
3. Breytingar á húsnæðiskerfinu
Fjögur frumvörp sem tengjast húsnæðiskerfinu eiga eftir að koma fram á þinginu. Helst ber að nefna frumvarp til laga um húsnæðismál, húsnæðissamvinnufélög og breytingar á húsaleigulögum. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra er með þessi mál á sinni könnu, og til stendur að breyta skipulagi húsnæðislána,efla húsnæðissamvinnufélög og breyta umgjörð leigumarkaðar. Frumvörpin byggja á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.
Þá hefur Eygló Harðardóttir boðað að staðið verði við kosningaloforð Framsóknarflokksins um að afnema verðtryggingu, þrátt fyrir að meirihluti starfshóps um afnám verðtryggingar hafi komist að því að ekki ætti að banna verðtryggingu með öllu.
4. Náttúruverndarlög og rammaáætlun
Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á að leggja fram breytingar á lögum um náttúruvernd, sem síðasta ríkisstjórn kom í gegn en Sigurður Ingi Jóhannsson vildi fella úr gildi. Niðurstaða þess máls var að gildistöku laganna var frestað til 1. júlí á þessu ári, en að breytingar yrðu lagðar fram. Það kemur því væntanlega í hlut Sigrúnar Magnúsdóttur, nýs umhverfis- og auðlindaráðherra, að leggja þessar breytingar fram.
Rammaáætlun, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, er í endurskoðun og meirihluti atvinnuveganefndar vill að átta virkunarkostir séu færðir úr biðflokki í nýtingarflokk, en áður hafði verið lagt til að virkjanakostur í Þjórsá yrði færður. Þessi mál eiga eftir að koma til annarrar umræðu í þinginu.
5. Náttúrupassinn
Ragnheiður Elín Árnadóttir lagði fram hið umdeilda frumvarp um náttúrupassann í desember en það hefur ekki verið tekið til umræðu á þinginu. Það verður væntanlega gert fljótlega eftir að þingið kemur saman. Þrátt fyrir að formleg umræða sé ekki hafin í þinginu hefur frumvarpið verið gagnrýnt talsvert. Samkvæmt frumvarpinu mun þurfa að kaupa náttúrupassa fyrir 1500 krónur til þess að heimsækja ferðamannastaði á Íslandi.
6. Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni
Þrjú ár eru liðin síðan Alþingi ályktaði að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Samkvæmt þeirri tillögu átti að leggja fram frumvarpið svo fljótt sem verða mætti, og nú hafa drög að frumvarpi verið birt og til stendur að leggja frumvarpið fram nú í vor.
Þennan langa tíma sem liðið hefur má líklega skýra með því að verkefnið þykir mjög flókið og nefndin sem samdi það stóð frammi fyrir mörgum erfiðum úrlausnarefnum. Búast má við átökum í þinginu þvert á flokkslínur þegar málið kemur þangað.
7. Afnám lágmarksútvars
Fyrstu sex málin á listanum eru öll mál sem ráðherrar hafa eða munu leggja fram. Frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem gerir ráð fyrir því að lágmarksútsvar verði afnumið, er lagt fram af sex stjórnarþingmönnum. Það eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Bjarnason og Vilhjálmur Árnason. Frumvarp af þessu tagi hefur tvisvar verið lagt fram en ekki náð fram að ganga, en munurinn nú er sá að kveðið er á um afnám lágmarksútsvars í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Því verður að teljast líklegt að það nái lengra en fyrri frumvörpin.