Lögfræðingur í forsætisráðuneytinu sagðist ekki telja vafa um lagaheimild vegna sóttvarnahúsa
Lögfræðingur í forsætisráðuneytinu sagði í minnisblaði til forsætisráðherra 29. mars að það léki ekki vafi á því að lagaheimild væri til staðar til þess að skikka fólk í sóttvarnahús, sem Héraðsdómur Reykjavíkur sagði svo að mætti ekki í öllum tilfellum. Nefndarmenn í velferðarnefnd gagnrýna sumir hverjir hvernig málið var unnið og segja eins og lagagrundvöllurinn hafi verið kannaður á seinustu metrunum og ekkert sérlega djúpt, eftir að búið að var að bóka hótel.
Lögfræðingur í forsætisráðuneytinu sagði í minnisblaði til forsætisráðherra, dagsettu 29. mars, að ekki léki vafi á um hvort lagaheimild væri til staðar til þess að skylda tiltekna komufarþega hingað til lands til þess að vera í sóttkví í húsnæði þar sem hægt væri að hafa með þeim eftirlit.
„Það leikur því ekki vafi á því að lagaheimild er til staðar að kveða á um að ferðamenn skuli við komu til landsins vera í sóttkví í húsnæði þar sem hægt er að hafa með þeim eftirlit og sem uppfyllir sóttvarnarkröfur. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt skilgreining sóttvarnahúss sé fullþröng í 3. mgr. 1. gr. [sóttvarnalaga]. Þar virðist nefnilega ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að sóttvarnahús sé notað fyrir alla ferðamenn sem koma til landsins frá tilteknum svæðum,“ segir í minnisblaðinu, sem er eitt þeirra gagna sem nefndarmenn í velferðarnefnd fengu afhent frá heilbrigðisráðuneytinu í gær.
Það liggur því fyrir að áður en aðgerðirnar tóku gildi var komið fram lögfræðiálit þar sem stjórnvöld fengu þau skilaboð að aðgerðirnar sem boðaðar voru með reglugerð, en Héraðsdómur Reykjavíkur taldi síðar ekki hafa lagastoð, hefðu stoð í sóttvarnalögum.
Seint og lítið spáð í lögmætinu
Nefndarmönnum í velferðarnefnd sem Kjarninn hefur rætt við í morgun þykir þó sumum seint hafa verið farið af stað í þann leiðangur að kanna hvort aðgerðirnar, sem samþykktar voru á ríkisstjórnarfundi 23. mars og útfærðar í reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, væru löglegar.
Bæði Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks eru á þeirri skoðun að yfirvöld hefðu þurft að kanna bæði fyrr og nánar hvort skothelt væri að það stæðist lögin að skikka alla þá sem hingað til lands komu frá ákveðnum svæðum þar sem faraldurinn hefur verið í hvað örustum vexti, til þess að vera í sóttvarnahúsi í sóttkví.
Halldóra segist í raun ekki skilja af hverju það hafi ekki verið betur kannað. Ef önnur gögn sem velferðarnefnd hafi fengið afhent í gær séu skoðuð sjáist að innan stjórnsýslunnar hafi undirbúningur aðgerðanna verið í fullum gangi. Athyglin hafi verið á útfærslunni, hvar skyldi leigja hótel og hvernig skyldi skipuleggja það mikla verkefni sem hin nýja útfærsla sóttvarnahúsanna var.
„Það virðist vera rörsýn,“ segir Halldóra. „Þau gleyma sér í útfærslu framkvæmdarinnar og stoppa ekkert,“ en hún segir af gögnunum að dæma hafi verkið verið unnið í nánu samstarfi þriggja ráðuneyta; heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og forsætisráðuneytis.
„Verkstjórnin virðist dálítið hafa brugðist hjá öllum þessum þremur ráðherrum. Þetta er sameiginlegt klúður og mér þykir persónulega dálítið skrítið að fyrir svona risastórt verkefni og svona frelsisskerðingu að þau hafi bara fengið álit frá einum lögfræðingi í forsætisráðuneytinu,“ segir Halldóra og nefnir að ef hún sjálf hefði verið að útfæra aðgerð sem þessa hefði hún viljað hafa ítarlegri lagalega baktryggingu en eitt álit sem komið hafi fram einungis tveimur dögum áður en aðgerðirnar tóku gildi.
Vilhjálmur tekur í svipaðan streng, en tekur reyndar fram að hann sé ekki búinn að lesa sig í gegnum öll gögnin sem nefndarmennirnir fengu sem áður segir frá ráðuneytinu í gær eftir töluvert japl, jaml og fuður.
„Það er ekki mikið verið að pæla hvort þetta standist lög,“ segir Vilhjálmur og lýsir reyndar rökstuðningi yfirvalda fyrir nauðsyn þeirrar aðgerðar að skylda hluta ferðalanga í sóttvarnarhús sem svo að þær séu í „véfréttastíl“. Hann saknar þess að ítarlegri rökstuðningur hafi verið færður fram um það hverjir hafi verið að brjóta sóttkví og hversu líklegt sé að einhverjir ákveðnir hópar brjóti sóttkví.
Kalla eftir frekari gögnum
Vilhjálmur segir að hann telji að einhver frekari gögn um undirbúning þessarar aðgerðar liggi fyrir í dómsmálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu og hefur kallað eftir því að þau verði lögð fram. Hann segist þó ekki viss um á hvaða stigi máls þau ráðuneyti hafi farið yfir málið.
Hann reiknar með því að velferðarnefnd muni birta þessi gögn á einhvern hátt, en nefndarmenn fengu gögnin í hendur í gær og virðast sumir vera eitthvað óvissir um hverju þeir nákvæmlega megi deila með blaðamönnum sem hringja forvitnir og spyrja spurninga, enda ekki með aðgang að þessum sömu gögnum, sem njóta undanþágu frá upplýsingalögum þar sem þau voru tekin saman fyrir fund ríkisstjórnarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingar, segir að beðið sé eftir leyfi til þess að birta gögnin sem um ræðir á opinberum vettvangi, en auk þessa minnisblaðs lögfræðings í forsætisráðuneytinu sem áður hefur verið vísað til er um að ræða minnisblað frá heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnar og sameiginlegt minnisblað þriggja ráðherra til ríkisstjórnar um opinberar sóttvarnaráðstafanir á landamærum.
Í gögnunum eru samkvæmt því sem nefndarmenn segja við Kjarnann einhver tölvupóstsamskipti frá embættismönnum sem eru að vinna sína vinnu og segir Halldóra Mogensen að hún telji að það þurfi einfaldlega að afmá nöfn embættismanna úr gögnunum áður en þau sé hægt að birta að fullu opinberlega.
Ólafi óraði ekki fyrir því að lagastoð myndi skorta
Ólafur Þór Gunnarson þingmaður Vinstri grænna segir að hann hafi ekki lesið í gegnum gögnin, en að honum sjálfum hafi ekki órað fyrir öðru en að sóttvarnarlögin, sem hann mælti fyrir breytingum á fyrr í vetur, fælu í sér heimildir til þess að ráðast í aðgerðir eins og þær sem farið var í 1. apríl en hafa nú verið aðlagaðar að niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hann segir að í 12., 13. og 14. gr. sóttvarnarlaganna komi fram að sóttvarnalæknir og þar með yfirvöld hafi ríkar heimildir til að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er talið að grípa varðandi sóttvarnir hverju sinni.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hafi skilgreining laganna á því hvað teljist sóttvarnarhús og fyrir hverja þau séu, verið „túlkuð þröngt.“
„Mig óraði ekki fyrir því að þetta gæti orðið túlkunin,“ segir Ólafur Þór og segir miður að ekki hafist fengið efnileg niðurstaða um málið í Landsrétti, en þar var kæru yfirvalda vísað frá.
„Það er náttúrlega aldrei hægt að spyrja dómstóla álits fyrirfram,“ segir Ólafur Þór en bætir við að hann hafi verið „með nefið mikið í sóttvarnamálum“ sem framsögumaður nefndarinnar. Hann hafi talið að reglugerðarheimildir ráðherra samkvæmt lögunum væru það ríkulegar að lagastoð hefði átt að vera til staðar.
Athugasemd ritstjórnar: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að minnisblaðið frá 29. mars hefði verið sett fram af hálfu skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt. Minnisblaðið var sett fram í nafni eins lögfræðings sem starfar fyrir forsætisráðuneytið. Fyrirsögn fréttarinnar, undirfyrirsögn og texta í meginmáli eftir því sem á við hefur verið breytt.
Fleiri fréttir af veiru og tengdum málum
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi