Fyrir rúmri viku, laugardaginn 5. júní, birti dagblaðið Politiken langa umfjöllun um Stúlknakór danska útvarpsins, Pigekoret. Umfjöllun blaðsins vakti mikla athygli og nær allir danskir fjölmiðlar greindu frá umfjöllun blaðsins og því sem þar kom fram.
Kórinn var stofnaður árið 1938, hét þá Radiopigekoret en síðar var nafninu breytt í DR pigekoret. Eins og nafnið gefur til kynna er kórinn eingöngu skipaður stúlkum, á aldrinum 15 – 22 ára, dæmi eru þó um að stúlkur niður í 13 ára gamlar hafi sungið í kórnum. Að jafnaði eru 50 stúlkur í kórnum, flestar þeirra hafa áður sungið í einum eða fleirum þeirra þriggja kóra sem tilheyra kórskóla danska útvarpsins, fyrir yngri stúlkur. Mjög eftirsótt er að komast í stúlknakórinn, sem er virtur og mikils metinn, langt út fyrir danska landsteina. Að jafnaði heldur kórinn árlega í kringum 60 tónleika, flesta í heimalandinu. Einnig ferðast kórinn til annarra landa til tónleikahalds enda mjög eftirsóttur. Líf stúlknanna snýst að verulegu leyti um kórstarfið og það sem því tilheyrir.
Sex stjórnendur
Frá stofnun kórsins árið 1938 hafa aðeins sex stjórnendur, allt karlar, haldið um tónsprotann. Einn þeirra, Tage Mortensen, stjórnaði kórnum í 35 ár, frá 1966 – 2001. Þá tók Michael Bojesen við stjórninni, hann hélt um sprotann til ársins 2010. Núverandi stjórnandi Philip Faber tók við sem stjórnandi árið 2013.
Gátu ekki þagað lengur
Fyrir nokkru hafði fyrrverandi félagi í kórnum, kona sem nú er rúmlega þrítug, samband við blaðamann dagblaðsins Politiken, og sagði frá því sem hún kallaði „leyndarmálið í stúlknakórnum“, í tíð Michael Bojesen. Blaðamaðurinn spurði strax hvort fleiri sem voru í kórnum gætu staðfest frásögn hennar. „Hvað viltu fá mörg nöfn“ var svarið. Í framhaldi af þessu símtali komst blaðamaðurinn í samband við á annan tug kvenna sem verið höfðu í kórnum á árabilinu 2001 – 2010. Þær höfðu allar sömu sögu að segja. „Af hverju viljið þið tala núna“ spurði blaðamaður Politiken. „Við getum ekki þagað lengur“ sögðu konurnar og sögðu að þegar þær voru í kórnum hefðu þær verið ungar og ekki þorað að gera, eða segja, neitt af ótta við að það myndi skaða framtíð þeirra í kórnum.
Michael Bojesen
Eins og nefnt var hér að framan tók Michael Bojesen við stjórn Stúlknakórsins árið 2001. Hann var fertugur að aldri, vel menntaður og reyndur kórstjórnandi. Michael Bojesen tók við góðu búi af Tage Mortensen, sem á sínum 35 kórstjóraárum skapaði kórnum þann virðingarsess sem hann nýtur nú. Danskir fjölmiðlar töluðu um nýtt blóð og ferska vinda sem fylgdu nýjum stjórnanda en hrósuðu jafnframt Tage Mortensen í hástert fyrir hans mikla starf.
Útlitið og klæðnaðurinn skipti máli
Fljótlega eftir að Michael Bojesen tók við stjórn kórsins töldu margar stúlknanna sig skynja ákveðna breytingu. Hún sneri ekki að söng og lagavali, þar varð engin breyting.
Vegna þess að kórinn er aldursblandaður, stúlkurnar á aldrinum 15 – 22 ára endurnýjast hluti kórsins nánast árlega.
Stúlkur sem sóttu um að komast í kórinn, og líka þær sem fyrir voru, veittu því athygli að eftir að Michael Bojesen tók við stjórninni breyttist eitthvað. Þeim fannst sem þær væru skyndilega komnar inn í einhverskonar „karlaklúbb“, orðnar stúlkurnar hans Michael. Það var skyndilega orðin aukin áhersla á útlitið og klæðnaðinn. Ein þeirra sem Politiken talaði við sagði greinilegt að Michael Bojesen hefði veitt þeim stúlkum sem voru djarfari í klæðaburði meiri athygli. Sama hefði gilt um gestasöngvara sem unnu með kórnum. „Það var verið að reyna að ýta okkur út í að vera einhverskonar kyntákn, okkur sem vorum vart af barnsaldri. Það fór ekki fram hjá okkur að athygli gestasöngvaranna beindist að þeim okkar sem voru djarfari í klæðaburði.“
Ekki hlustað á kvartanir
Þegar stúlkurnar fóru að tala um þessi mál heima fyrir var foreldrunum brugðið. Nokkrir þeirra kvörtuðu til yfirstjórnar kórsins en það bar engan árangur. Einn viðmælandi Politiken sagðist hafa fundið andúð stjórnandans þegar hann vissi að foreldrar sínir hefðu kvartað. Hún gafst á endanum upp og hætti í kórnum. Önnur stúlka, 17 ára, kvartaði til yfirstjórnarinnar eftir að hún hafði séð skilaboð sem stjórnandinn sendi jafnöldru hennar.
Íslandsferðin
Eins og áður sagði tók Michael Bojesen við stjórn kórsins árið 2001. Hann hafði reyndar stjórnað kórnum á jólatónleikunum 2020 vegna veikinda Tage Mortensen. Meðal fyrstu verkefna kórsins undir stjórn Michael Bojesen var tónleikaferð til Íslands vorið 2001. Þar söng kórinn meðal annars í Hallgrímskirkju, við góðar undirtektir.
Stúlkurnar í kórnum veittu því athygli að það var eitthvað „í gangi“ milli stjórnandans og einnar stúlku í kórnum. Þetta þótti stúlkunum mjög óþægilegt og gátu vart um annað rætt, stjórnandinn var rétt að verða 41 árs en stúlkan 17 ára. Þegar Michael Bojesen frétti af því að stúlkurnar væru í uppnámi boðaði hann þær til fundar. Hann var að sögn viðmælenda Politiken æstur og reiður, sagði að þær ættu ekki að vera að pískra eitthvað sín á milli og kannski væru einhverjar öfundsjúkar yfir hver fengi að syngja einsöng á tónleikunum.
En skömmu síðar kom í ljós að pískrið var ekki ástæðulaust, þetta sem var „í gangi“ milli stjórnandans og stúlkunnar var upphaf ástarsambands. Stúlkan hætti skömmu síðar í kórnum og þau stjórnandinn giftust og það hjónaband stendur enn.
Karlaveldi
Þegar blaðamenn Politiken spurðu hvers vegna stúlkurnar hefðu ekki snúið sér til hljómsveitarstjórans Per Erik Veng sögðu þær að það hefði ekkert þýtt. Hann hefði verið í „karlaklúbbnum“ með Michael Bojesen. Hann hefði verið klæminn og sent stúlkum í kórnum óviðeigandi skilaboð eins og til dæmis „giftur en til í tuskið“.
Árið 2003 fór kórinn í tónleikaferð til Suður-Afríku. Þeirrar ferðar minnast þær sem Politiken ræddi við, og tóku þátt í ferðinni, vel. Matareitrun kom upp í hópnum og margar urðu mjög veikar. Ein nefndi að þegar stúlkurnar lágu á sundlaugarbakka hefði þær rætt um hvernig karlarnir, kórstjórinn og fleiri, gláptu á þær. „það var ekkert ólöglegt við þetta, en mjög óþægilegt“.
M Magazine
Haustið 2002 fékk yfirstjórn Stúlknakórsins bréf frá ritstjóra tímaritsins M Magazine. Ritstjórinn sagðist hafa fengið um það ábendingu frá Michael Bojesen að ef til vill væri tilvalið að fá stúlkur úr Stúlknakórnum til að sitja fyrir á myndum sem síðar yrðu birtar í blaðinu. Ritstjórinn spurði hvort þessi hugmynd nyti stuðnings yfirstjórnar kórsins. Yfirstjórnin svaraði að engin slík myndataka kæmi til greina. Michael Bojesen sagði að ritstjóri M Magazine hefði haft samband við sig og viðrað hugmyndina.
M Magazine kallaði sig strákablað og þar birtust myndir af fáklæddum stúlkum og ýmiskonar kjaftasögur, heilræði um kynlíf og fleira í þeim dúr. Blaðið kom fyrst út árið 2000 en útgáfunni var hætt árið 2015.
Kínaferðin
Í júlí 2004 fór Stúlknakórinn til Kína og söng í Shanghai og Beijing. Kórinn vakti mikla athygli og Alexandra, þáverandi eiginkona Jóakims prins var með í för. 35 ára gestasöngvari tók sömuleiðis þátt í ferðinni, hann hafði sungið mikið með kórnum eftir að Michael Bojesen tók við sem stjórnandi. Nokkrar stúlkur í kórnum fengu send skilaboð frá honum, með skilaboðum sem ekki var hægt að misskilja. Nokkru eftir heimkomuna skrifaði ein þeirra kvörtunarbréf til yfirstjórnar danska útvarpsins. Í kjölfarið var hún kölluð á fund með kórstjóranum og háttsettum starfsmanni útvarpsins. Í viðtali við Politiken sagðist stúlkan sem blaðið nafngreinir, að hún hafi verið neydd til að draga bréfið til baka. Hún gerði það ekki á staðnum og þegar nokkur tími var liðinn fékk hún orðsendingu frá starfsmanninum þar sem hann bauðst til að hjálpa henni að skrifa bréfið. Undir þessum þrýstingi dró hún bréfið til baka en hætti í kjölfarið í kórnum.
Karlarnir muna ekkert
Einungis tveir karlar eru nafngreindir í umfjöllun Politiken og annarra danskra fjölmiðla. Michael Bojesen og Per Erik Veng. Þeir og aðrir sem nefndir voru í frásögnum stúlknanna kannast ekki við lýsingar þeirra. Michael Bojesen sagðist í viðtali við Politiken ekki kannast við lýsingar stúlkanna á flestu sem fram kom í umfjöllun blaðsins. Varðandi samband hans við stúlkuna, sem síðar varð eiginkona hans, sagði Michael Bojesen að það hefði gert hinar stúlkurnar í kórnum óöruggar að verða vitni að upphafi þessa ástarsambands.
Áberandi í tónlistarlífinu
Mennirnir tveir sem nafngreindir eru í umfjöllun Politiken og annarra danskra fjölmiðla hafa um árabil verið áberandi í dönsku tónlistarlífi.
Per Erik Veng var í tæpa tvo áratugi stjórnandi sinfóníuhljómsveitar danska útvarpsins en var rekinn árið 2007. Þá hafði nemandi við Hafnarháskóla skrifað ritgerð um samskiptavanda í hljómsveitinni. Ári eftir brottreksturinn var hann ráðinn til Dönsku tónlistarakademíunnar. Starf hans þar var að sjá um skipulagningu tónleika og viðburða. Síðar var hann menningarfulltrúi við sendiráð Danmerkur í Berlín og árið 2016 ráðinn forstöðumaður Menningarstofnunar Brusselborgar í Belgíu.
Sagði af sér og kominn í leyfi
Michael Bojesen stjórnaði Stúlknakórnum til ársins 2010.
Á árunum 2012- 2016 var hann framkvæmdastjóri árlegrar tónlistarhátíðar í Kaupmannahöfn, Copenhagen Opera Festival.
Árið 2017 var hann ráðinn stjórnandi óperunnar í Malmö í Svíþjóð. Sama ár var hann jafnframt skipaður stjórnarformaður Listasjóðs danska ríkisins, Statens kunstfond. Sjóður þessi er mjög áhrifamikill í dönsku lista- og menningarlífi og úthlutar á þessu ári um 500 milljónum danskra króna (um 10 milljarðar íslenskir) til lista og menningarmála.
Eftir að dagblaðið Politiken birti umfjöllun sína sagði Michael Bojesen af sér formennsku og jafnframt setu í sjóðsstjórninni.
Stjórn Malmö óperunnar sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar Politiken og lýsti fullu trausti og stuðningi við Michael Bojesen sem óperustjóra. Blekið var varla þornað á undirskrift stjórnarinnar þegar Michael Bojesen tilkynnti að hann færi í ótímabundið leyfi frá óperunni.