Sumarið 2018 tilkynnti Søren Pape Poulsen þáverandi dómsmálaráðherra Dana að glæpasamtökin Loyal to Familia (LTF) yrðu bönnuð. Þá hafði danski ríkislögmaðurinn komist að þeirri niðurstöðu að forsendur væru fyrir banninu. Eftir að ráðherrann tilkynnti bannið formlega kærði LTF ráðherrann. Réttarhöld í málinu hófust árið 2019. Bæjarréttur Kaupmannahafnar úrskurðaði, í janúar 2020 ákvörðun dómsmálaráðherrans lögmæta, LTF áfrýjaði til Landsréttar, sem staðfesti dóm Bæjarréttar, í nóvember sama ár. LTF fékk leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar Danmerkur. Sem hefur nú, eins og áður sagði staðfest að ráðherra sé heimilt að banna starfsemi LTF, og bannið frá 2018 standi.
Spurning um félagafrelsi
Það er síður en svo sjálfgefið að heimilt sé að áfrýja málum til Hæstaréttar. Um slíkt ríkja ákveðnar reglur sem horft var til í þessu tilviki. Málið var talið fordæmisgefandi, því það fjallaði um grundvallaratriði í dönsku stjórnarskránni um félagafrelsi. Þótt í Danmörku ríki félagafrelsi eru í lögum ákvæði sem gera stjórnvöldum kleift að banna slíka starfsemi við sérstakar kringumstæður. Hæstiréttur Danmerkur taldi starfsemi LTF falla undir þessa skilgreiningu.
Banninu er ætlað að binda enda á skálmöld
Søren Pape Poulsen hafði lengi talað fyrir því að gripið yrði til aðgerða í því skyni að binda enda á skálmöld sem ríkt hafði í undirheimum Kaupmannahafnar. Þegar hann greindi frá fyrirhugaðri málssókn kom fram að síðan snemma árs 2015 hefði oftar en 40 sinnum verið hleypt af skotum í átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn. Átök þessi hefðu kostað þrjú mannslíf og tugir særst. Að sögn lögreglu höfðu félagar í samtökunum LTF nær alltaf komið við sögu í þessum átökum, verið annar „stríðsaðilinn“ eins og talsmaður lögreglu komst að orði.
Ætluðu sér stóra hluti í undirheimunum
Samtökin Loyal to Familia urðu til haustið 2012. Stofnendurnir voru flestir innflytjendur eða af erlendu bergi brotnir. Flestir voru þeir fyrrverandi félagar í samtökum sem kenndu sig við Blågårds Plads á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. LTF ætluðu sér frá upphafi stóra hluti í undirheimum höfuðborgarinnar, einkum í nágrenni innflytjendahverfisins Mjølnerparken. Þar voru hins vegar fyrir á fleti nokkur önnur samtök, Brothas, Bandidos og fleiri. Þau tóku þessum nýju samtökum ekki fagnandi. Að mati lögreglunnar voru félagar í LTF haustið 2018, þegar dómsmálaráðherrann bannaði samtökin, talsvert á þriðja hundrað talsins.
Barist um yfirráðin á Norðurbrú
Eins og áður sagði var Norðurbrú frá upphafi „heimavöllur“ LTF. Samtökin Brothas höfðu um árabil litið á Mjølnerparken sem sitt yfirráðasvæði og voru ekki tilbúin að gefa það eftir. Af þeim sökum skarst iðulega í odda með Brothas og LTF. Glæpagengin nota margskonar aðferðir til fjármögnunar. Verslun með eiturlyf vegur þar þungt en enn fremur neyða samtökin eigendur verslana og veitingastaða til að borga það sem þau kalla „verndargjald“. Sé það ekki gert er haft í hótunum og margir sem hafa neitað að borga goldið það dýru verði. Rúður í verslunum og veitingastöðum brotnar, allt innandyra brotið og bramlað og jafnvel kveikt í að næturlagi.
Ekki haldið kyrru fyrir
Þótt LTF samtökin hafi verið bönnuð árið 2018 hafa félagarnir ekki haldið kyrru fyrir. Síðan bannið tók gildi hafa verið gefnar út 87 ákærur á hendur LTF félögum og fjölmargir hlotið dóm. 43 félagar í samtökunum sæta nú farbanni eða sitja í gæsluvarðhaldi. Frá stofnun samtakanna árið 2012 hafa 372, fyrrverandi og núverandi LTF félagar hlotið dóma, samtals 1409 ára fangelsi. Fyrir morð, ofbeldi, hótanir og afbrot tengd eiturlyfjum.
Hvað þýðir bannið?
Það að samtök eins og LTF séu bönnuð þýðir að félagarnir mega ekki láta húðflúra sig með merki og bókstöfum samtakanna, mega ekki vera klæddir fatnaði merktum LTF. Svartar hettupeysur merktar samtökunum í bak og fyrir eru bannaðar og þeir sem sýna sig í þeim verða umsvifalaust handteknir og mega búast við refsingu. Sama gildir um húfur og buxur. Lögmaður samtakanna sagði, eftir að dómur Hæstaréttar féll, að hægt væri að banna allt mögulegt en vináttubönd fólks sem hefði þekkst frá barnæsku breyttust ekki.
David Sausdal, sérfræðingur við háskólann í Lundi í Svíþjóð, sagði í viðtali við danskt dagblað að erfitt væri að meta áhrifin af banninu. „Bannið er táknrænt en það getur líka haft þau áhrif að samtökin eigi erfiðara með að fá til sín nýja félaga. Ímyndin er hluti aðdráttaraflsins og ómerkt hettupeysa hefur ekki sömu áhrif og sú sem er kirfilega merkt.“
Dómsmálaráðherra og lögregla ánægð með dóminn
Nick Hækkerup dómsmálaráðherra Dana lýsti ánægju með niðurstöðu Hæstaréttar. Hann kvaðst vona að þessi dómur væri aðeins fyrsta skref í upprætingu skipulagðrar glæpastarfsemi í Danmörku. Ráðherrann sagði að þótt dómurinn tæki aðeins til LTF gæfi hann ákveðna vísbendingu gagnvart öðrum samtökum af svipuðum toga. Torben Svarrer yfirlögregluþjónn í Kaupmannahöfn sagði að lögreglan fagnaði dómsniðurstöðunni. „Við þurfum ekki að sjá merktar peysur til að þekkja LTF félaga en gagnvart almenningi er mikilvægt að samtökin hafi verið bönnuð og geti ekki auglýst sig með sama hætti og áður.“