Sprenging í nýtingu á séreignarsparnaði til að borga niður húsnæðislán skattfrjálst
Alls hafa Íslendingar ráðstafað 110 milljörðum króna af séreignarsparnaði sínum inn á húsnæðislán frá 2014. Þessi ráðstöfun hefur fært þeim sem geta og kjósa að nýta sér hana tæplega 27 milljarða króna í skattafslátt. Þeir sem tóku út séreignarsparnað til að eiga meira ráðstöfunarfé í heimsfaraldri hafa hins vegar borgað milljarða króna í skatt.
Þeim sem hafa nýtt sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislánið sitt fjölgaði mikið mikið á árinu 2021. Í byrjun þess árs höfðu 62.952 einstaklingar, um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra á vinnumarkaði, nýtt sér úrræðið frá því að það var fyrst kynnt til sögunnar um mitt ár 2014. Í nýliðnum janúar var sá fjöldi hin vegar kominn í 79.747 talsins. Þeim hafði því fjölgað um tæp 27 prósent á einu ári. Það þýðir að 38 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, eða 21 prósent þjóðarinnar í heild, hefur nýtt sér hið skattfrjálsa úrræði.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið sem byggja á upplýsingum frá Skattinum.
Þessi hópur hefur alls ráðstafað 109,9 milljörðum krónum af séreignarsparnaði inn á húsnæðislánin sín frá árinu 2014. Í samantektinni sem Kjarninn hefur fengið afhenta kemur fram að hópurinn sem hefur nýtt sér úrræðið hafi alls fengið skattafslátt upp á samtals 26,8 milljarða króna fyrir að nýta séreignarsparnað sinn á þennan hátt.
Framlengt aftur og aftur og aftur
Um er að ræða tvö úrræði. Annars vegar það sem felur í sér að hver sem er geti ráðstafað séreignarsparnaði sínum skattfrjálst inn húsnæðislánið sitt og hins vegar það sem kallast „Fyrsta fasteign“.
Fyrra úrræðið var hluti af „Leiðréttingunni“ svokölluðu, en hluti hennar fólst í því að að ríkissjóður greiddi 72,2 milljarða króna inn á verðtryggð húsnæðislán hóps landsmanna sem hafði verið með slík lán á árunum 2008 og 2009. Samtals voru greiddir 72,2 milljarðar króna inn á lánin og greiðslurnar fóru að mestu til tekjuhærri og eignarmeiri hópa samfélagsins.
Hin hliðin á „Leiðréttingunni“ fól síðan í sér að landsmönnum áttu að vera gert kleift að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán sín í þrjú ár, frá miðju ári 2014 og fram til 30. júní 2017. Búið er að framlengja þessa nýtingu þrívegis síðan: fyrst fram á sumarið 2019, svo, í tengslum við gerð lífskjarasamninganna, fram á mitt ár 2021 og loks var hún framlengd í tvö ár í viðbót í fyrra. Úrræðið er því í boði út júní 2023 sem stendur.
Langflestir í almenna úrræðinu
Alls hafa 62.400 manns nýtt sér almenna úrræðið frá því var hleypt af stokkunum um mitt ár 2014. Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun sem unnin var í aðdraganda þess kom fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri mun hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orðrétt í skýrslunni.
Samanlagt hefur þessi hópur fengið að ráðstafa 93,4 milljörðum króna inn á húsnæðislánin sín skattfrjálst á sjö og hálfu ári. Því er 85 prósent þeirrar upphæðar sem Íslendingar hafa notað af séreignarsparnaði sínum til að borga niður húsnæðislán vegna þessa úrræðis.
Hitt úrræðið kallast „Fyrsta fasteign“ og hefur verið á boðstólunum frá árinu 2017. Samkvæmt úrræðinu geta þeir nýtt séreignarlífeyrissparnað til að safna fyrir innborgun á fyrstu íbúðarkaup eða greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns. Alls er heimilt að ráðstafa að hámarki 500 þúsund krónum á ári í mest tíu ár með ofangreindum hætti samkvæmt ákveðnum skilmálum.
Samtals hafa 17.347 manns nýtt sér „Fyrstu fasteignar“-úrræðið og greitt alls 16,5 milljarða króna inn á húsnæðislán sín, eða notað sem útborgun fyrir fyrstu íbúð, frá því að það tók gildi.
Framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga hafa skerst um 26,8 milljarða
Þar sem ofangreind notkun á séreignarsparnaði er skattfrjáls þá skerðir hún tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þau þurfa ekki að takast á við það tekjutap í dag þar sem skattur af séreignarsparnaði er vanalega borgaður þegar fólk fer á eftirlaun. Þegar stærsti hluti þess hóps sem nýtir skattfrjálsa úrræðið kemst á þann aldur verða stjórnmálamenn nútímans líkast til flestir löngu hættir og aðrir teknir við ábyrgð á ríkisfjármálunum.
Samkvæmt svörum sem bárust við fyrirspurn Kjarnans er áætluð lækkun tekjuskatts vegna úrræðanna tveggja 17,1 milljarður króna fyrir árinu 2014 til 2021 og áætlun lækkun á útsvarsgreiðslum til sveitarfélaga er 9,7 milljarðar króna. Því nemur skattafsláttur þeirra landsmanna sem geta nýtt sér úrræðið samtals 26,8 milljörðum króna.
Í ljósi þess að búið er að framlengja gildistíma almenna úrræðisins fram á mitt ár 2023 áætlar fjármála- og efnahagsráðuneytið að tekjutap ríkis og sveitarfélaga verið á bilinu fimm til sex milljarðar króna til viðbótar.
Þeir sem nota séreign til að koma sér í gegnum faraldur greiða skatt
Þetta eru ekki einu hóparnir sem opnað hefur verið fyrir að geti nýtt séreignarsparnað sinn áður en þau fara á eftirlaun. Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem kynntur var 21. mars 2020, var ein af aðgerðunum sem kynnt var til leiks sú að landsmönnum gert kleift að taka út séreignasparnað til að takast á við skammtímafjárhagsvanda. Þeir sem nýttu sér þetta úrræði þurftu þó að greiða skatt af sparnaðinum þegar hann var tekinn út. Því var líka um tekjuskapandi aðgerð að ræða fyrir ríkissjóð.
Þegar aðgerðin var kynnt til leiks kom fram að ríkisstjórnin reiknaði með að teknir yrðu út tíu milljarðar króna af séreignarsparnaðinum. Um síðustu áramót höfðu landsmenn alls tekið út um 37 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum síðan slíkar úttektir, en hægt var að sækja um nýtinguna út síðasta ár. Nýtingin hefur því verið næstum fjórföld umfram áætlanir.
Því má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs vegna skattgreiðslna af nýtingu séreignarsparnaðar sem hluta af aðgerðapakka til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldurs verði um 13,4 milljarðar króna.
Það er tíu milljörðum krónum meira en upphaflega var áætlað.
Ekki hefur verið birt neitt niðurbrot á þeim hópi sem hefur nýtt sér þetta úrræði en ætla má að þar sé, að minnsta kosti að hluta, um að ræða fólk sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Þeir sem fóru úr vel launuðum störfum á atvinnuleysisbætur eru líklegri til að tilheyra þessum hópi en aðrir, þar sem tekjuhærri hafa almennt verið líklegri til að spara séreign en tekjulægri.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars