Bjartsýni og góður andi einkenna upphafsdaga loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að mati Tinnu Hallgrímsdóttur, forseta Ungra umhverfissinna.
Tuttugasta og sjöunda loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP27, hófst í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi á sunnudag. Þetta er í þriðja sinn sem Tinna tekur þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og mun hún taka þátt í viðburðum og umræðum alla ráðstefnuna, sem lýkur 18. nóvember.
Töp og tjón í brennidepli
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í upphafsræðu sinni á ráðstefnunni að heimurinn væri á „hraðri leið til loftslagshelvítis“ og valkostirnir væru skýrir – loftslagssamkomulag eða samkomulag um dauða fjölda fólks.
„Guterres setti svolítið tóninn og hann var mjög harðorður varðandi þennan dagskrárlið Töp og tjón,“ segir Tinna.
Töp og tjón (e. Loss and Damage) snýr að fjárveitingum til ríkja í framlínu loftslagskreppunnar sem þurfa að glíma daglega við afleiðingar loftslagsbreytinga. Samkomulag náðist í upphafi ráðstefnunnar að koma málefninu á dagskrá, meðal annars með því að ræða hvort stofna ætti sérstakan bótasjóð til ríkja sem verða fyrir óbætanlegum skaða vegna hlýnunar jarðar.
Ljóst er að töp og tjón verða í brennidepli í samningaviðræðum á ráðstefnunni, málefni sem Tinna hefur sérstakan áhuga á. „Þetta eru þær afleiðingar loftslagsbreytinga sem ekki er hægt að aðlagast. Við erum alltaf að tala um samdrátt í losun og aðlögun, en svo er það næsta skref eða þriðji vinkillinn, að sumar þjóðir hafa hreinlega ekki getuna til að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga, annað hvort vegna ónægra innviðatrygginga eða af því að loftslagshamfarirnar eru af það stórum skala,“ segir Tinna og nefnir gríðarleg flóð í Pakistan í lok ágúst sem dæmi um raunveruleika loftslagsbreytinga vegna hlýnunar jarðar. Mestu þurrkar í fjóra áratugi sem geisa nú í Eþíópíu er annað, og enn nýlegra, dæmi.
„Gríðarlega mikill skaði er að eiga sér stað – mannslíf, innviðir, efnahagslegt tjón – bara nefndu það. Það var krafa þróunarlanda að fá þetta formlega samþykkt á dagskrá og það náðist í gegn. En það skiptir miklu máli hvernig það þróast,“ segir Tinna, sem fagnar því að stofnun bótasjóðs verði rædd, en að það skipti máli að fjármagnið í sjóðnum fari sérstaklega í sjóðinn en verði ekki tekið úr öðrum framlögum, svo sem þeim sem verja á í að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga.
Þurfum ekki enn einn samráðsvettvang
Tinna segir að það verði áhugavert að fylgjast með hvernig samningaviðræðurnar þróast. „Hvort við fáum virkilega það sem þróunarríkin hafa verið að krefjast eða hvort við endum eins og síðast, að ná í gegn samráðsvettvangi eða fleiri tæknilegum umræðum um það hvernig við munum mögulega fjármagna þessar aðgerðir.“
Áframhaldandi frestun á aðgerðum er eitthvað sem þarf að yfirstíga að mati Tinnu. „Við erum komin á þann punkt að þróunarlöndin eru farin að kalla virkilega mikið eftir þessu og sérstaklega í ár, þegar ráðstefnan er á afrískri grundu, og nú er þetta komið formlega á dagskrá og það skiptir máli hvernig það mun þróast.“ Samráðsvettvangur er góður sem slíkur en Tinna segir meiri þörf á beinu fjármagni en enn einum samráðsvettvangi.
Þó fjármagnið sé mikilvægt snýst aðstoðin einnig um að sýna samkennd og samhug að mati Tinnu. „Fólk er að verða fyrir hræðilegum hamförum vegna loftslagsbreytinga núna sem er sameiginlegt vandamál. Við verðum að sýna að við erum ein heild í þessu og það er það sem rammasamningurinn snýst um. En það vantar svolítið upp á að við sjáum þetta jafnvægi á milli ríkjanna.“
„Það verða alltaf önnur vandamál“
Simon Stiell tók nýverið við sem yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum. Í upphafsræðu sinni sagðist hann óttast að önnur mál væru ofar á forgangslista þjóðarleiðtogar heimsins. Þar ber hæst að nefna stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess; orkukreppu sem hefur meðal annars aukið eftirspurn eftir kolum.
Tinna segir orkukreppuna ákveðna birtingarmynd aðgerðaleysis í loftslagsmálum. „Ef við værum búin að byggja upp innviði og annað fyrir endurnýjanlega orkugjafa fyrr værum við í minni vandræðum.“
Þá segir hún það ekkert nýtt að benda á önnur mál sem þykja mikilvægari en áhrif loftslagsbreytinga hverju sinni. „COVID var notað sem ákveðin afsökun til að vera ekki að einblína á loftslagsaðgerðir, svo kemur þetta núna. Það verða alltaf önnur vandamál. En stærsta vandamálið, sem stigmagnar öll önnur vandamál, eru loftslagsbreytingar. Því lengur sem við bíðum með að takast á við þær, því erfiðara verður það.“
Vonar að sjónarmið Ungra umhverfissinna nái inn í samningaviðræður
Auk Tinnu er Egill Ö. Hermannsson, varaforseti Ungra umhverfissinna, fulltrúi á ráðstefnunni. Þá er Finnur Ricart Andrason ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsmála á ráðstefnunni og Steffi Meisl er á vegum Háskóla Íslands. Öll sitja þau í stjórn Ungra umhverfissinna. Finnur sat einnig COP26 í Glasgow á síðasta ári.
Markmið Ungra umhverfissinna á COP27 er að hafa áhrif á ákvarðanatöku, miðla upplýsingum heim til Íslands og mynda tengsl sem gætu nýst félaginu og málstaðnum. „Það sem við viljum hafa áhrif á hérna úti er til dæmis að hafa bein áhrif á íslensku sendinefndina. Við erum að koma okkar sjónarmiðum inn þar sem vonandi smitast út í samningaviðræður,“ segir Tinna.
Félagið mun einnig kynna Sólina, verkefni sem félagið stóð fyrir í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga þar sem loftslags- og umhverfisstefnu stjórnmálaflokka var gefin einkunn. Tinna segir það mikið tilhlökkunarefni að kynna verkefnið.
Von er á 120 þjóðarleiðtogum á ráðstefnuna og alls um 30 þúsund gestum á meðan henni stendur. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra verður fulltrúi íslenskra stjórnvalda og eini ráðherrann sem sækir COP27. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fótbrotnaði í síðasta mánuði og fékk ekki leyfi læknis til að ferðast til Egyptalands.
Svandís verður viðstödd seinni hluta ráðstefnunnar og mun hún ávarpa ráðherrafund á þinginu 15. eða 16. nóvember. Einnig er gert ráð fyrir að hún taki þátt í hliðarviðburðum, hringborðsumræðum ráðherra og eigi beinar viðræður við aðra ráðherra á þinginu, m.a. um jökla, fjármögnun loftslagsaðgerða og fleira.