Eignir vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, stærsta einstaka kröfuhafa fallinna íslenska banka, jukust um 65 prósent í fyrra. Alls nema bókfærðar eignir hans tæplega þúsund milljörðum króna. Virði eignarsafns hans á Íslandi dróst hins vegar lítillega saman.
Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins vegna ársins 2014 sem nýverið var skilað inn til írsku fyrirtækjaskráarinnar, en Burlington, sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, er með heimilsfesti þar í landi.
Bókfærðar eignir hærri en árlegar tekjur íslenska ríkisins
Burlington er risavaxinn sjóður. Alls eru eignir hans bókfærðar á 7,4 milljarða dali, eða 938 milljarða króna. Stærstur hluti þeirra er í Írlandi og Bretlandi. Til að setja þá tölu í samhengi má nefna að allar tekjur ríkissjóðs Íslands á næsta ári eru áætlaðar 696,3 milljarðar króna á næsta ári samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi, eða 74 prósent af eignum Burlington. Eignir sjóðsins jukust gríðarlega á síðasta ári, en þær voru um 565 milljarðar króna í lok árs 2013.
Uppistaðan í eignum sjóðsins eru fjárfestingaeignir, meðal annars skuldabréf útgefin af bönkum og ýmis konar fasteignir. Allar eignir eru bókfærðar á gangvirði í gegnum rekstrarreikning. Þær eru því ekki færðar á markaðsvirði, enda eina leiðin til að vita hvert markaðsvirði þeirra er að selja þær. Miðað við þróun á bókfærðu virði eigna Burlington á Íslandi í ársreikningum sjóðsins undanfarin ár virðast þær mun frekar vera bókfærðar á því verði sem eignirnar voru keyptar á.
Á miklar eignir á Íslandi
Og Burlington á gríðarlega mikið af eignum á Íslandi. Þær hefur hann sankað að sér í gegnum árin. Á árinu 2013 jók sjóðurinn til að mynda eignir sínar á Íslandi um 70 prósent og í lok þess árs voru 18 prósent af fjárfestingaeignum hans á Íslandi. Bókfært virði þeirra var 738 milljónir dala, eða um 95 milljarðar króna.
Eignir sjóðsins á Íslandi drógust lítillega saman á síðasta ári án þess að það sé sérstaklega útskýrt í ársreikningnum. Í lok síðasta árs voru þær um bókfærðar á um 700 milljónir dali, eða um 90 milljarða króna. Til samanburðar voru bófærðar eignir Burlington hérlendis 55,5 milljarðar króna í lok árs 2012. Alls voru eignir Burlington á Íslandi um tíu prósent af fjárfestingareignum hans í lok síðasta árs.
Markaðsvirðið mun hærra en bókfært virði
Markaðsvirði eigna Burlington á Íslandi er mun hærra en 90 milljarðar króna. Miðað við væntar endurheimtir í þrotabú Glitnis eru nafnvirði krafna Burlington í bú bankans, samkvæmt nýjustu upplýsingum Kjarnans um umfang þeirra, til að mynda að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarð króna. Miðað við að kröfuhafar Glitnis geta búist við að fá allt að 33 prósent af nafnvirði krafna sinna greitt, gangi áform um greiðslu stöðugleikaframlags eftir, má áætla að raunvirði þeirra krafna sem Burlington á á slitabú Glitnis sé um 81 milljarður króna, miðað við síðustu birtu upplýsingar um umfang krafna sjóðsins.
Burlington er stærsti einstaki kröfuhafi slitabús Glitnis.
Sjóðurinn er einnig einn stærsti kröfuhafi slitabús Kaupþings. Í nóvember 2012 átti hann kröfur í búið að nafnvirði 109 milljarðar króna. Miðað við væntar endurheimtir kröfuhafa Kaupþings ætti sú eign að skila Burlington um 29 milljörðum króna þegar búinu verður slitið. Vert er að taka fram að eignir Burlington og tengdra aðila gætu hafa aukist eða dregist saman frá því að fjölmiðlar komust síðast yfir upplýsingar um umfang krafna í búið. Heimildir Kjarnans herma þó að þessir aðilar séu enn á meðal stærstu kröfuhafa í bú Kaupþings.
Til viðbótar á Burlington fullt af öðrum eignum hérlendis. Sjóðurinn á umtalsverðar kröfu í bú Landsbankans, er á meðal eiganda ALMC (áður Straumur fjárfestingabanki), á beint 13,4 prósent hlut í Klakka (sem seldi stóran hlut í VÍS í fyrra og á allt hlutafé í Lýsingu) og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir áramót 2013. Auk þess hefur sjóðurinn verið að kaupa hluti í Bakkavör í Bretlandi af miklum móð, en þær eignir eru skráðar sem breskar þótt aðrir stórir eigendur séu að mestu íslenskir og rætur fyrirtækisins liggi hérlendis.
Því er ljóst að markaðsvirði eigna Burlington á Íslandi, það fé sem myndi fást fyrir þær ef eignirnar yrðu seldar, er miklu hærra en það virði sem þær eru bókfærðar á í bókum sjóðsins.
Er fjármagnaður af Davidson Kempner
Burlington sjóðurinn er fjármagnaður af Davidson Kempner European Partners í London, sem er dótturfélag bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner, eins stærsta vogunarsjóðs í heimi. Sjóðir Davidson Kempner eru með um 25,4 milljarða dali, tæplega 3.300 milljarða króna, í stýringu. Til samanburðar var verg landsframleiðsla Íslands á síðasta ári 1.989 milljarðar króna, eða 60 prósent af því sem sjóðir Davidson Kempner stýra.
Fyrirtækið sérhæfir sig meðal annars í að hagnast á viðskiptum með kröfur í gjaldþrota fyrirtækjum. Hlutir í Burlington eru í eigu alls tólf sjóða Davidson Kempner. Hverjir endanlegir eigendur hlutdeildarskirteina í þeim sjóðum eru veit enginn nema stjórnendur Davidson Kempner.
Burlington, sem er skráður til heimilis á Írlandi, var stofnaður 24. apríl 2009. Hann er í raun skráð í eigu þriggja góðgerðarsamtaka. Í ársreikningi Burlington kemur his vegar líka fram að stjórnandi sjóðsins (e. corporate administrator and company secretary) sé dótturfélag þýska bankarisans Deutsche Bank, Deutsche International Corporate Services Limited á Írlandi.
Deutsche Bank átti mikið undir í íslenska efnahagshruninu. Og virðist enn eiga mikið undir við lausn á þeim vandræðum sem hrunið olli.
Mikil samskipti við Deutsche Bank
Samkurl Burlington við Deutsche Bank hefur því verið nokkuð mikið. Dótturfyrirtæki þýska bankarisans, Deutsche Bank AG í Amsterdam, heldur til að mynda á 99 prósent af hlutdeildarskirteinum í ALMC. Heimildir Kjarnans herma að Burlington eða sjóðir Davidson Kempner séu endanlegir eigendur hluta þeirra skirteina. Þá keypti Burlington 26 milljarða króna skuldir Lýsingar af Deutsche Bank skömmu fyrir síðustu áramót.
Deutsche Bank var einn stærsti, ef ekki stærsti, lánveitandi íslensks efnahagslífs fyrir hrun. Það vakti því athygli sumarið 2014 þegar hollenski seðlabankinn tilkynnti að hann hefði selt Deutsche Bank það sem eftir stóð af Icesave-kröfum bankans, alls um 700 milljónir evra. Kjarninn greindi frá því 29. ágúst 2014 að bankinn hefði keypt kröfurnar fyrir aðra, og væri búinn að selja þær áfram.
Kaupendurnir voru fleiri en tveir og á meðal þeirra voru þekktir vogunarsjóðir sem eiga aðra hagsmuni á Íslandi. Tilgangurinn er að styrkja stöðu þeirra sem eiga mest undir þegar kemur að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna. Þar á enginn meira undir en Burlington Loan Management.
Sala hollenska seðlabankans á Icesave-kröfum kom í kjölfarið af því að bresk sveitarfélög, sem áttu einnig slíkar kröfur, seldu þær í febrúar síðastliðnum. Þegar tilkynnt var um þá sölu kom ekki fram hverjir kaupendur krafnanna væru.
Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að Deutsche Bank væri orðin þriðji stærsti kröfuhafi í slitabú Glitnis með kröfur að nafnvirði upp á 157,1 milljarð króna. Bankinn hefur bætt við sig miklu magni krafna frá byrjun árs 2013. Þeir sem vel þekkja til í kröfuhafaiðnaðinum telja öruggt að Deutsche Bank sé að halda á þessum kröfum sem bankinn er skráður fyrir á Glitni fyrir einhverja aðra. Bankinn sé milliliður, ekki endanlegur eigandi þeirra.
Sátu nær örugglega við samningsborðið
Í aðdraganda þess að íslensk stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum höfðu átt sér stað viðræður við stærstu kröfuhafa föllnu bankanna í nokkra mánuði. Lee Buchheit, ráðgjafi framkvæmdahóps um losun hafta sem lék lykilhlutverk í þeim samningum sem nú liggja fyrir um greiðslu stöðugleikaframlags og losun hafta, sagði í viðtali við Kjarnann í júní að viðræðurnar hafi verið við þrjá til fjóra stærstu kröfuhafa í hverju slitabúi fyrir sig, sem taldir voru leiðandi í kröfuhafahópi þeirra.
Lee Buchheit og félagar ræddu við þrjá til fjóra stærstu kröfuhafahópanna í hverju slitabúi fyrir sig. Burlington hefur nær örugglega átt þar fulltrúa.
Telja verður nær öruggt að fulltrúar Burlington hafi verið í þessum hópi, þar sem sjóðurinn er án efa stærsti einstaki kröfuhafi föllnu íslensku bankanna.
Sá sem stýrir málum Burlington og Davidson Kempner hérlendis heitir Jeremy Clement Lowe. Innan kröfuhafaiðnaðarins eru allir sammála um að Lowe sé langvirkastur allra kröfuhafa hérlendis. Hann dreifi hins vegar verkefnum á milli innlendra aðila, notast við þjónustu að minnsta kosti þriggja fjármálafyrirtækja og nokkurra mismunandi lögmannstofna.
Þessi taktík gerir það að verkum að enginn hefur heildarmynd af því sem Lowe og Burlington eru að gera á Íslandi nema hann sjálfur og þeir sem með honum starfa.