Stjórn Festi hefur lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við samþykktir félagsins sem er ætlað að auka getu félagsins til að takast á við mál sem varða „orðspor æðstu stjórnenda og rekstraráhættu sem getur tengst því að orðspor þeirra bíði hnekki“.
Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir að verði breytingin samþykkt áformi stjórn að breyta starfsreglum stjórnar, setja stjórn sérstakar siðareglur og setja nýjar reglur um mat á hæfi stjórnarmanna og forstjóra, orðsporsáhættu og hagsmunaárekstra sem saman er ætlað að mynda heildstæða umgjörð um meðferð slíkra mála.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem tillögur sem lagðar verða fyrir komandi aðalfund Festi, sem fram fer í næstu viku.
Í drögum að reglum um mat á hæfi, orðsporsáhættu og hagsmunaárekstrum stjórnarmanna Festi, sem birt hafa verið á heimasíðu félagsins, segir að stjórnarmenn teljist vera með gott orðspor ef engin haldbær gögn eða ástæður benda til annars. „Ef haldbær gögn eða ástæður svo sem opinber umfjöllun, formleg kvörtun til regluvarðar félagsins eða annað gefa tilefni til skoðunar á orðspori, skal meta orðspor og hvort orðspor valdi vanhæfi ef það leiðir til þess að hagsmunir félagsins og viðkomandi fara ekki saman.“
Stjórnarformaður Festi sakaður um kynferðisofbeldi
Stutt er síðan að Festi þurfti að takast á við ásakanir á hendur þáverandi stjórnarformanni félagsins, Þórði Má Jóhannessyni, vegna meints kynferðisbrots hans og tveggja annarra manna gagnvart konu haustið 2020. Konan, Vítalía Lazareva, hafði birt frásögn á samfélagsmiðlinum Instagram í október í fyrra og lýsti þar ofbeldi sem hún sagði mennina hafa beitt sig í heitum potti og í sumarbústað, aðdraganda þess að hún hefði endað með þeim þennan dag og í lok hennar nefndi hún þá alla þrjá með nafni. Auk Þórðar var þar um að ræða Ara Edwald, þáverandi framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings, og Hreggvið Jónsson, þáverandi stjórnarformann og aðaleiganda Veritas. Auk þess nefndi hún á nafn giftan mann, einkaþjálfarann Arnar Grant, sem hún átti í ástarsambandi við og fékk hana til að koma á þann stað sem meint brot fóru fram.
Í byrjun janúar fór Vitalía svo í viðtal hjá Eddu Falak í hlaðvarpi hennar Eigin konum og greindi hún frá reynslu sinni. Hún nafngreindi mennina þó ekki í viðtalinu.
Eftir að málið komst í hámæli í fjölmiðlum sendi Hreggviður frá sér yfirlýsingu, dagsett 6. janúar, um að hann myndi stíga til hliðar sem stjórnarformaður Veritas. Þar sagði meðal annars: „„Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu.“
Í kjölfarið flýtti stjórn Festi fundi sem átti að fara fram þann dag vegna málsins og greindi svo frá því að Þórður Már hefði óskað eftir því að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. Heimildir Kjarnans herma að þá hefðu aðrir stjórnarmenn, stórir hluthafar og stjórnendur félagsins allir reynt að þrýsta beint eða óbeint á að Þórður Már myndi hætta í nokkurn tíma, en án árangurs. Lög og samþykktir félagsins voru einfaldlega með þeim hætti að honum var í sjálfsvald sett milli aðalfunda hvort hann hætti eða ekki.
Ari var fyrst settur í tímabundið leyfi frá störfum hjá Ísey og endanlega rekinn þann 9. janúar.
Fleiri að skoða að innleiða sambærilegar reglur
Eggert Kristófersson, forstjóri Festi, staðfestir í samtali við Kjarnann að tilurð reglnanna sé bein afleiðing af því sem átti sér stað í stjórn félagsins í byrjun árs. Stjórnin tilkynnti til Kauphallar Íslands þann 13. janúar að hún myndi endurskoða starfsreglur sínar vegna máls Vitalíu og Eggert segir að fljótlega í kjölfarið hafi sú vinna farið í að móta þá tillögu sem nú verða lagðar fyrir aðalfund.
Samkvæmt tillögunni eiga allir stjórnarmenn að undirgangast reglurnar skriflega og ef upp kemur orðsporsáhætta þeim tengd þá fer hún í sama faglega ferli innan Festi og mál starfsmanna þar. Slíkt ferli skilar niðurstöðu sem gæti til að mynda verið sú að viðkomandi stjórnarmaður ætti að segja af sér. Það þarf hann þó ekki að gera samkvæmt gildandi lögum en breytingarnar sem gerðar verða á starfsreglum Festi leiða þá til þess að regluvörður félagsins mun senda tilkynningu til Kauphallar Íslands um hver niðurstaðan var. Það yrði því opinbert að viðkomandi stjórnarmaður sæti áfram þrátt fyrir að ferli félagsins hefði skilað þeirri niðurstöðu að hann ætti ekki að gera það. Hugmyndin er að stjórnarmaður gæti vart setið áfram eftir að slíkar upplýsingar yrðu gerðar opinberar.
„Það versla um 70 þúsund manns við okkur í viku. Það á að gera auknar kröfur til þeirra sem sem eru í forsvari fyrir okkur,“ segir Eggert. Á meðal dótturfélaga Festi er N1, Krónan og ELKO.
Verði tillagan um nýjar reglur samþykkt mun Festi verða fyrsta skráða félag landsins til að innleiða svona reglur. Eggert segir að fulltrúar nokkurra annarra félaga á markaði hafi haft samband og leitað eftir samtali um reglurnar vegna þess að þau hafi áhuga á að innleiða sambærilegt fyrirkomulag hjá sér. „Ég held að þetta verði algengar reglur hjá skráðum félögum í nánustu framtíð.“